Það hefur ekki farið fram hjá mörgum hve mikið umræðan um breytingaskeið kvenna hefur aukist síðustu ár. Þó er eitt hamlandi ástand, sem um 80% kvenna eru sagðar upplifa, enn sveipað leynd og misskilningi.
Samkvæmt nýlegri grein Polly Hudson á The Guardian hafa stjörnur á borð við Michelle Obama, fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna og leikkonurnar Salma Hayek og Gwyneth Paltrow allar verið opinskáar varðandi breytingaskeiðið og hvatt aðrar konur til að skammast sín ekki fyrir þennan líffræðilega gang líkamans.
Hins vegar vantar enn upp á umræðuna og það varðar leggangaþurrk.
Eflaust eru einhverjir sem líta á leggangaþurrk sem minni háttar óþægindi sem hafi helst áhrif á kynlíf og verði leyst með góðu sleipiefni, segir Hudson í grein sinni. Því er þó öðruvísi farið.
Sjónvarpskonan Davina McCall ákvað að varpa ljósi á þessi svokölluðu „óþægindi“, sem hún sjálf hafði upplifað. „Ég var með mikinn þurrk, svo alvarlegan að þegar ég reyndi að þurrka mér eftir að hafa farið á salernið þurfti ég að nota tvenns konar blautþurrkur,“ sagði McCall í heimildarmynd sinni Sex, Myths and Menaupose frá 2021.
Samkvæmt rannsóknum er leggangaþurrkur sagður hrjá 60-80% kvenna á breytingaskeiðinu og stafar hann af lækkuðu estrógenmagni sem veldur því að vefur í leggöngunum þynnist og verður minna teygjanlegur.
Þá hafa rannsóknir einnig sýnt að þriðjungur kvenna sem kljást við þetta vandamál beri það ekki upp við lækninn sinn. Haitham Hamoda, ráðgjafandi kvensjúkdómalæknir, segir ástæðuna m.a. vegna þess að konur einfaldlega skammist sín fyrir þetta.
Hún segir einnig að í einhverjum tilfellum geti konur ekki klæðst nærbuxum, enn aðrar þola ekki neina snertingu á svæðinu. Í verstu tilfellunum er einfaldlega óþægilegt að sitja og ganga. Þá getur þurrkurinn valdið annars konar óþægindum eins og þvagfærasýkingum.
Dr. Renée Hoenderkamp, heimilislæknir sem sérhæfir sig í breytingaskeiði kvenna, segir að breytingaskeiðið hafi ólíkar myndir meðal kvenna. „Fyrir sumar konur verður leggangaþurrkur eitt af fyrstu einkennum, mjög snemma, jafnvel áður en blæðingar hætta. Aðrar konur upplifa ekki leggangaþurrk fyrr en í bláenda breytingaskeiðsins. Þetta er mjög einstaklingsbundið.“
Hún bendir einnig á að ekki megi eingöngu tengja leggangaþurrk við breytingaskeiðið en hann geti komið upp hjá t.d. konum með börn á brjósti í lengur en sex mánuði.
Dr. Paula Briggs, ráðgjafi í kyn- og frjósemisheilbrigði, segir að konur geti gjarnan fengið ranga greiningu varðandi leggangaþurrk og að ómeðhöndlaður leggangaþurrkur versni með tímanum og gangi þá hægar til baka. Að hennar mati ættu allar konur undir 45 ára aldri sjálfkrafa að fá estrógen um leggöng.
Dr. Hoenderkamp bendir á að þetta sé ekki vandamál sem hverfi á einni nóttu, öllu heldur geti þetta orðið ævilöng meðferðarskuldbinding við leggöngin.
Niðurstaðan er skýr, segir Hudson í greininni: Ef konu finnst hún óþægilega þurr ætti hún ekki að þjást í hljóði. Þetta sé eitthvað sem hægt er að meðhöndla og í það minnsta að draga úr.