„En „prinsippið“ er að vera sáttur“

Halldór S. Guðmundsson, dósent og varadeildarforseti félagsráðgjafardeildar við Háskóla Íslands …
Halldór S. Guðmundsson, dósent og varadeildarforseti félagsráðgjafardeildar við Háskóla Íslands ásamt eiginkonu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Halldór S. Guðmundsson, dósent og varadeildarforseti félagsráðgjafardeildar við Háskóla Íslands, segir að „prinsippið“ síðar á ævinni sé að vera sáttur. Samkvæmt könnun eru 80-90% eldri borgara hérlendis ánægð með lífið og tilveruna enda almennt mjög virk. Að hans mati þarf að endurhugsa skilgreininguna á aldurshópnum 60+ og leyfa þeim sem treysta sér til að taka enn frekari þátt í samfélaginu

Halldór segir „hinn helga stein“ geta verið stórhættulegan. Hann bendir á að við 67 ára aldurinn, þegar fólk verður aldrað samkvæmt íslenskum lögum eða hættir atvinnuþátttöku, standi það á tímamótum. Skyndilega hægist á lífinu sem áratugina á undan einkenndist af ákveðnum takti. Dagarnir sem áður voru í rútínu geta orðið óreiðukenndir eða of rólegir þegar sest er í helgan stein, kyrrsetan verður meiri og þá getur vantað örvun og virkni, hvort sem er líkamlega, félagslega eða sálræna.

Undirbúningur fyrir efri árin er mikilvægur að sögn Halldórs og mælir hann með að fólk hugi að þessu tímabili snemma á ævinni og leiti ráða varðandi það hvernig takast eigi á við nýtt líf eftirlaunaaldursins.

„En „prinsippið“ er að vera sáttur. Þetta er lífsfasinn eða aldurinn þegar fólk fer að horfa til baka, á lífsins áskoranir og sigrana,“ segir Halldór og bætir við að ekki sé síður mikilvægt að vera sáttur á efri árum, að lífsgæðin séu á þann veg að fólki líði vel.

„Tímakvarði flestra verður á margan hátt allt annar en þegar viðkomandi var um tvítugt,“ útskýrir Halldór og segir að skyndilega líði tíminn mun hraðar og styttist á einhvern hátt tímalína minninganna og þar með hugmyndin um ævilokin. Tíminn verði því æ dýrmætari.

„Spurningin „hvað langar mig að gera eða nota tímann í?“ er nokkuð sem hver og einn verður að spyrja sjálfan sig og leita svara.“

Einangrun og einsemd það versta

Á þessum aldri er mikilvægt að fólk sæki þá örvun sem það hefur fengið úr daglegu lífi árin á undan. Þar spila inn í þættir eins og virkni, að gefa af sér til annarra, afla sér þekkingar, miðla upplýsingum til kynslóðanna sem koma á eftir og til samfélagsins og við fólk og fleira í þeim dúr.

„Það er samfellan í lífinu,“ segir Halldór og vísar til þess að lífið sem var svo fullt af uppákomum megi skyndilega ekki verða svo tilbreytingalítið að fólki fari að leiðast. Hætt er við að fólk einangrist á þessum aldri, sem sé eitt það versta sem gerist.

„Öldrunarfræðin fjallar um breytingar sem verða hjá fólki; líffræðilegar, sálrænar, félagslegar og svo aftur umhverfisþætti, sem leika gjarnan stórt hlutverk. Tengingin á milli þessara þátta er sterk og þekkt að t.d. einangrun getur stuðlað að andlegri vanlíðan, sem síðan hefur áhrif á líkamlegt heilbrigði. Afkoma fólks hefur auðvitað einnig áhrif á vellíðan,“ segir Halldór, en ef fjármálin eru í lagi eru meiri líkur á að fólki líði vel og þar af leiðandi viðhaldist líkamlegt heilbrigði.

Almenn ánægja eldra fólks

„Við búum svo vel að eiga mælingar um ánægju og afstöðu eldri borgara til lífsgæða aftur til ársins 1999. Heilt yfir er hægt að segja að 80-90% eldra fólks meti stöðu sína, heilsufar og lífið almennt í góðu lagi og séu sátt.“ Halldór segir hins vegar að sé matinu skipt í flokka, t.a.m. heilbrigði og annað, geti hlutfallið breyst aðeins en að lífsgæði þessa aldurshóps á Íslandi standi vel í samanburði við önnur lönd.

Hann bendir á að 70% í þessum aldurshópi segi heilbrigðisþjónustu hérlendis vera nokkuð í lagi og að hún hafi ekki versnað. Aðeins 14-20% finnist þjónustan hafa versnað.

„Það eru um 18% eldra fólks sem finnst aðgengi að heilbrigðisþjónustu lélegt eða frekar lélegt, sem þýðir að 80% hafa ekki áhyggjur af aðgengi að heilbrigðisþjónustu,“ segir Halldór og vísar í niðurstöður úr könnuninni frá 2021, en önnur slík er nú í bígerð.

„Ef tekið er mið af sögunni get ég nánast fullyrt að ekki verði miklar breytingar á svörum í nýjustu könnuninni.“ Og svörin verða bara jákvæðari eftir því sem fólk eldist, að sögn Halldórs. Hlutfallið breytist lítillega eftir því hvort um ræðir höfuðborgarsvæðið, þar sem ánægjan er almennt meiri, eða landsbyggðina.

„Þetta er hægfara þróun sem er allavega ekki til hins verra, skv. könnuninni á högum og líðan eldra fólks.“

Þau skella sér út í öllum veðrum, árið um kring, …
Þau skella sér út í öllum veðrum, árið um kring, hér eru hjónin eftir hlaupaæfingu að vetri til í Eyjafirði. Ljósmynd/Aðsend

Eldri borgarar hérlendis mjög virkir

„Við búum almennt við mikla virkni og þátttöku eldri borgara hérlendis.“ Halldór leggur áherslu á að virknin sé ekki endilega innan félagsstarfs eða álíka þjónustu sveitarfélaganna heldur í félögum eldri borgara, sem eru mörg hver mjög virk.

„Notkun þessa aldurshóps hérlendis á síma, neti og almennt í samskiptum við fjölskyldu og vini er umfram það sem við sjáum erlendis. En svo getur þetta breyst t.d. við fráfall maka,“ segir Halldór og bætir við að töluleg og lýðfræðileg gögn sýni minnkað hlutfall af einbýlisheimilum og að fleiri séu í sambandi lengur en áður. Það megi m.a. rekja til lengri meðalævi karlmanna nú á tímum.

„En svo er líka möguleg viðbótarskýring að fleiri séu ófeimnir við að eignast vin eða vinkonu eða para sig saman til að vera síður einir. Fólk er orðið minna feimið eða að viðhorfin hafa breyst og það má alveg eignast vini á þessum aldri.“

Fyrsti Íslendingurinn sem fær full lífeyrisréttindi

„Lífeyrisréttindi urðu almenn réttindi með samningum árið 1969, svo að hægt er að segja að árið 2029 muni fyrsti Íslendingurinn búa við „full“ lífeyrissjóðsréttindi. Það er þess vegna að koma meiri jöfnuður í lífeyrisréttindin og þá tekjur almennt hjá eldra fólki hérlendis en verið hefur og það er á margan hátt öðruvísi staða en mörg önnur samfélög búa við. Eftirstríðskynslóðin eða „Baby Boomers“, einstaklingar fæddir árin 1946-1964, er fjölmennasta kynslóðin og stærstu árgangar þessa tímabils komu í heiminn hér á landi árin 1963 og 1964 og er hópur sem nú er að renna yfir 60 ára aldursmörkin.“

Halldór dregur fram þá staðreynd að það fólk sem er núna í efri mörkum eftirlaunaáranna er í viðkvæmri stöðu, vegna þess að sumir þeirra sem eru t.d. um sjötugt og yfir búa ekki að fullum lífeyrisréttindum og oftar eru það konur sem oft voru heimavinnandi og öfluðu því ekki sömu lífeyrisréttinda og karlmenn. Í dag er jöfnuðurinn meiri en var, sem breytir stöðunni núna og þegar fram líður.

Hann segir margt benda til að lífeyriskerfið og þar með lífeyrissjóðirnir og auðvitað fleiri samverkandi þættir séu að skila sér í betra lífi og heilsu eldra fólks.

Íslendingar eru í sautjánda sæti á heimsvísu þegar kemur að lífslíkum, með meðalaldurinn 83,01 ár. Fyrstu þrjú sætin skipa Asíuþjóðirnar Hong Kong (meðalaldur 85,63 ár), Japan (84,85 ár) og Suður-Kórea (84,43 ár). Efsta Evrópuþjóðin á listanum er Sviss, sem er í fimmta sæti með meðalaldurinn 84,09 ár.

Ekki aldraðir heldur fullorðnir

„Nú er fjölmennur hópur '63- og '64-kynslóðarinnar að detta á sjötugsaldur, á sama tíma og fæðingatíðni fer sílækkandi. Fjöldinn gerir það að verkum að erfiðara verður að halda velferðarþjónustunni uppi nema t.d. með aðfluttu vinnuafli, jú, eða með því að virkja þá sem eldri eru.“

Getur kerfið verið betra við þennan aldurshóp?

„Við erum öll í þessu samfélagi og eigum sama rétt,“ segir Halldór og útskýrir að velferðarkerfið ætti að virka þannig að hlúð sé að eldri borgurum eftir þörf hvers og eins en ekki af því að þeir „eigi rétt“ á einhverju ákveðnu.

Hann áréttar að samfélagið þurfi að taka afstöðu til þess hvaða rými skuli gefa þessum hópi til að vera virkur í samfélaginu. Að opna á og leyfa þeim eldri að vera þátttakendur í samfélaginu en ekki bara „pensjónistar“ í fríi frá vinnumarkaði.

„Það er hugtakanotkunin sem samfélagið þarf að uppfæra,“ segir Halldór og bætir við að þeir sem kallaðir séu aldraðir séu það ekkert endilega heldur séu þeir fullorðnir. Hann vísar til þess að hugtakanotkunin gangi út frá gömlum viðmiðum sem séu löngu úrelt og staða eldra fólks í dag sé allt önnur en þá var. Þessi hugtakanotkun hefti hreyfanleika og þátttöku fólks í samfélaginu. Það sé skilgreint inn og út úr samfélaginu út frá tölulegum gildum.

„Sem gengur bara ekki alveg upp.“

Ekki sé raunhæft að setja allan aldurshópinn 60+ undir sama hatt því meginþorra hópsins líði vel og lítið ami að. Þeir sem líði vel geti alveg verið virkir í samfélaginu kjósi þeir það og því þurfi að breyta hlutunum.

„Af hverju ættum við sem samfélag, eða þess vegna líka stjórnendur í atvinnulífinu, að hindra virkni og atvinnuþátttöku eldra fólks út frá úreltum reglum eða viðmiðum, þegar geta og vilji er til þátttöku?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda