Elísabet Reynisdóttir, eða Beta Reynis eins og flestir kalla hana, veit svo sannarlega hvað hún syngur þegar kemur að góðri næringu og heilbrigðum lífsstíl. Í nýjasta pistli sínum fjallar hún um heilsubætandi áhrif chia-fræja.
Það sést vel í bókinni minni, Þú Ræður, hvað ég held mikið upp á chia-fræin, þessi litlu svörtu fræ sem uppruna sinn eiga í Mið- og Suður-Ameríku. Í matarprógramminu sem bókin hverfist um er nefnilega að finna úrval uppskrifta að gómsætum grautum og bústum þar sem chia-fræin fá að leika aðalhlutverkið.
Ótrúlegt en satt þá er ekki lengra en 20-30 ár síðan við hér á hjara veraldar kynntumst þessari ofurfæðu fyrst að einhverju ráði. Í Mið- og Suður-Ameríku er aðra sögu að segja því þar voru chia-fræin t.d. mikilvæg fæða í mataræði Azteka, löngu áður en Kólumbus „fann“ Ameríku. Þar um slóðir hafa fræin líka lengi verið notuð í óhefðbundnum lækningum og talin fyrirtaksuppspretta úthalds, styrks og frjósemi.
Chia-fræ eru alveg einstaklega næringarrík og í raun algjör ofurfæða. Þau eru frábær trefjagjafi en það að borða trefjaríka fæðu er t.d. talin góð vernd gegn ristilkrabbameini. Chia-fræin eru talin geta bætt heilsu hjartans, lækkað kólesterólmagn í blóði, aðstoðað við að stjórna kolvetnaupptöku líkamans og stuðlað að heilbrigði þarma. Þá hjálpa þau til við þyngdartapi, draga úr áhættu á sykursýki og sykurlöngun, og bæta þrek og þol svo um munar.
Helstu ástæður þess að chia-fræin eru talin hafa þessi töfrandi og heilsubætandi áhrif eru þau að fræin innihalda:
Best er að geyma chia-fræin á köldum, þurrum stað, t.d. í glerkrukku inni í ísskáp. Ég mæli alls ekki með því að borða fræin hörð og beint úr umbúðunum því þau bólgna út þegar þau komast í snertingu við vökva í meltingarveginum.
Áður en þú neytir þeirra er mikilvægt að leggja þau í bleyti, allt frá 10 mínútum upp í yfir nótt, í hlutföllunum 1 msk. af Chia-fræi á móti ½ -1 bolla af vatni.
Chia-fræ geymast í allt að 5-7 daga í ísskáp þegar búið er að bæta þeim út í vökva. Þá er tilvalið að vinna sér í haginn með því að útbúa nokkra skammta af chia graut til að eiga nokkra daga fram í tímann. Út í grautinn getur þú bætt hinum ýmsu ávöxtum, kókosflögum, súkkulaðinibbum eða hverju sem hugurinn girnist, allt eftir smekk og löngun. Chia-grauta er líka hægt að eiga í frysti í nokkrar vikur.
Fræin hafa þann eiginleika að gleypa mikið af vökva (allt að 10 sinnum sína eigin þyngd) og þegar þau eru sett út í vökva hjúpast þau gellíkum massa. Þetta gel hjálpar til við meltinguna, mýkir hægðir og gefur þér mettunartilfinningu. Gelið sem myndast þegar þau eru sett í bleyti er leysanlegt trefjaefni sem hægir á meltingarferlinu.
Ef þú hefur ekki þegar prófað chia fræin er um að gera að stökkva af stað og bæta þeim inn í dagslegu matarrútínuna þína. Ávinningurinn af því getur verið alveg hreint magnaður.
Hér er uppskrift sem er í bókinni Þú Ræður á bls. 76 og hefur vakið mikla lukku:
Chia-grautur
2 msk. chia-fræ
1/2 - 3/4 bolli vatn
1/2 bolli grískt jógúrt, AB-mjólk eða Kefir
1 tsk. hreint kollagen (má sleppa)
1/2 epli í bitum
1/4 banani í bitum
2-3 msk ber, fersk eða frosin
1 msk. kókosflögur
1 tsk. hunang (má sleppa)
1/4 tsk. kanill
Chia-fræjum, vatni, kollageni, kanil, grísku jógúrt/AB-mjólk eða Kefir blandað saman, og látið standa í a.m.k. 20 mín., helst í kæli.
Banana, epli og hunangi blandað saman og bætt saman við chia-fræ blönduna. Að lokum er berjum og kókosflögum raðað yfir diskinn svo úr verður girnileg og falleg máltíð.