Ný rannsókn sem birtist í tímaritinu The Lancet bendir til þess að meira en helmingur fullorðinna og jafnframt um þriðjungur barna, unglinga og ungs fólks gæti verið yfir kjörþyngd eða jafnvel glímt við offitu fyrir árið 2050. Rannsóknin, sem náði til yfir 200 landa, sýnir að tíðni offitu er þegar orðin gríðarleg og stefnir í frekari vöxt næstu árin, sérstaklega í lágtekjulöndum.
Árið 2021 reyndust um tveir milljarðar fullorðinna, eða tæplega helmingur fullorðins fólks á heimsvísu, vera of þungir eða í offitu. Hlutfallið hefur meira en tvöfaldast síðan árið 1990. Takist ekkert að hemja þróunina gæti hlutfallið náð um 57,4% hjá körlum og 60,3% hjá konum fyrir miðja öld.
Kínverjar, Indverjar og Bandaríkjamenn verða samkvæmt spánni með stærstu hópa fólks í yfirþyngd eða offitu árið 2050, en tölur gefa einnig til kynna mikla aukningu í ríkjum sunnan Sahara - þar gæti fjöldi of þungra einstaklinga margfaldast. Sérstaklega stingur Nígería í stúf, en þar er búist við að fjöldi fullorðinna í yfirþyngd eða offitu þrefaldist.
Einnig er varað við aukningu meðal barna, unglinga og ungra fullorðinna. Tíðni offitu í yngstu aldurshópunum hefur meira en tvöfaldast síðan 1990 og er gert ráð fyrir að árið 2050 gæti einn af hverjum þremur verið yfir kjörþyngd eða með offitu. Sérfræðingar, á borð við dr. Jessicu Kerr frá Murdoch Children’s Research Institute í Ástralíu, vara við því að ef ekki verði gripið inn í núna strax, verði þetta gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfi næstu kynslóða.
Telja að lyf gætu breytt myndinni
Í rannsókninni var ekki tekið tillit til áhrifa nýrra megrunarlyfja, á borð við Mounjaro og Wegovy, sem nú eru að ryðja sér til rúms á mörgum mörkuðum. Að sögn sérfræðinga gætu slík lyf haft umtalsverð áhrif til að draga úr þróun offitu.
Rannsóknin var leidd af prófessor Emmanuela Gakidou við Institute for Health Metrics and Evaluation (IHME) við Háskólann í Washington í Bandaríkjunum. Hún hvetur ríkisstjórnir og stofnanir til að bregðast skjótt við og bjóða bæði forvarnir og meðferð.
„Þetta er fordæmalaus faraldur offitu og yfirþyngdar sem má rekja til samfélagslegs misbrests en ef brugðist er við núna er hægt að afstýra miklum harmleik,“ segir Gakidou.
„Ef við högum okkur rétt strax, getum við enn komið í veg fyrir að staðan versni verulega fyrir næstu kynslóð,“ segir dr. Jessica Kerr, sem vonast til að ríkisstjórnir, skólar, foreldrar og heilbrigðisstarfsfólk taki höndum saman til að stemma stigu við offitubylgjunni.