Halldóra Skúladóttir, sjúkraliði, markþjálfi og sérfræðingur í fræðslustjórnun, sérhæfir sig í breytingaskeiði kvenna og heldur úti vefsíðunni Kvennaráð þar sem hún miðlar upplýsingum frá sérfræðingum og veitir ráðgjöf til kvenna og fyrirtækja um breytingaskeiðið og líðan kvenna inni á vinnustöðum.
„En ég er fyrst og fremst kona á miðju skeiði.“
Halldóra verður með erindi á málþingi Líf styrktarfélags á morgun á Kjarval, ásamt fleiri sérfræðingum á sviði kvenheilsu. Málþinginu er ætlað að vekja athygli á mikilvægi þess að konur mæti í boðaðar krabbameinsskoðanir og hvernig hægt er að stuðla að bættri kvenheilsu.
Spurð segir Halldóra að rannsóknir um áhrif breytingaskeiðs á vinnustöðum hafi að mestu verið framkvæmdar erlendis.
„Ég gerði könnun í september á síðasta ári um viðfangsefnið, þar sem voru um 1.100 þátttakendur frá hinum ýmsu fyrirtækjum og niðurstöðurnar voru sláandi.“
Um 72% þátttakenda sögðu að einkenni breytingaskeiðsins hefðu neikvæð áhrif á líðan í vinnu. Þá voru um 50% sem sögðu breytingar hafa orðið á vinnutilhögun sökum breytingaskeiðsins. Þær breytingar fela m.a. í sér einfaldari og ábyrgðaminni vinnu, að ekki sé farið eftir stöðuhækkun eða hreinlega að láta af störfum.
Þá vildi Halldóra einnig kanna áhrif breytingaskeiðsins á aðra starfsmenn inni á vinnustöðum. Um 63% þátttakenda sögðu einkenni breytingaskeiðsins hjá öðrum samstarfsmönnum hafa neikvæð áhrif á vinnustaðnum.
„Svo það er nokkuð ljóst að þetta er ekki bara einkamál þessara kvenna.“ Breytingaskeið kvenna hefur áhrif á samskipti, getur aukið álag á aðra starfsmenn, bitnar á verkefnastöðu og hefur áhrif á afköst.
„Þessi niðurstaða hafði mest áhrif á mig,“ segir Halldóra um keðjuverkandi áhrif inni á vinnustöðum.
„Konur detta út af vinnumarkaði til lengri eða skemmri tíma, safna þá ekki réttindum sem ýtir undir mun á réttindum þegar þær fara á eftirlaun, eða þetta svokallaða „retirement gap.“
Halldóra bendir á að konur þurfi að huga að hugsanlegum áhrifum breytingaskeiðsins fyrr en þær grunar.
„Leikreglurnar breytast hjá okkur upp úr 35 ára. Á þeim aldri geta hormónabreytingar byrjað þótt við tökum ekki alltaf eftir þeim. Þá þurfum við að byrja að huga betur að okkur. Margar konur gera það ekki, þar er ég meðtalin. Og það getur bara keyrt okkur í kaf og endað í kulnun.“
Þá segir Halldóra að tengsl eru á milli hormónabreytinga og kulnunar, rannsóknir sýni fram á það. „Konur eru oft um fertugt þegar þær finna að þær séu að keyra sig í þrot.“
Fyrsta hormónið sem fellur hjá konum á breytingaskeiðsaldri er prógesterón, en það hormón er vörn gegn streitu. „Þegar það er farið að minnka þá eigum við erfiðara með að halda öllum boltunum á lofti.“
Viðfangsefnið er víðfeðmt og það eru ekki einungis konurnar sem þurfa að huga að þessum erfiða tíma.
„Vinnustaðir verða að gera ráðstafanir fyrir heildarupplifun hjá sér,“ segir Halldóra, en hún hefur haldið fyrirlestra inni í fyrirtækjum síðan 2022 og finnst áhuginn hafa aukist með tímanum.
„Þó finnst mér vanta að fyrirtækin haldi málinu til streitu svo þetta gleymist ekki. Það er eins og vanti þessa framhaldsvinnu.“
Halldóra segir fyrirtækin þurfa að kafa dýpra og skoða betur hvað þau geti gert til að koma til móts við konur á breytingaskeiðsaldri og aðra starfsmenn. Ekki sé ein lausn á reiðum höndum því hún geti verið mismunandi eftir eðli starfseminnar.
„Vitundarvakningin er góð, en það vantar framhaldið,“ segir Halldóra og bætir við að það geti verið gríðarlegur kostnaður fyrir fyrirtæki að missa starfsmann í veikindaleyfi, þar tapist jafnvel margra ára reynsla og hugvit.
Að lokum bendir Halldóra á tölur frá Tryggingastofnun og Öryrkjabandalaginu. Samkvæmt Tryggingastofnun er stefnan að rannsaka af hverju stærsti hluti bótaþega á örorkulífeyri séu konur á aldrinum 50 ára og eldri.
Í örorkuspá Öryrkjabandalagsins segir að líklegast sé að konur á aldrinum fjörutíu og upp úr séu líklegastar til að enda á örorkubótum.
„Það er svo mikilvægt að við styðjum við konur í gegnum erfiðasta tímann sem nær jafnvel yfir nokkur ár, þar til þær ná jafnvægi. Þannig fáum við sterkari konur þegar þær hafa komist úr mesta ölduganginum. Það er langhagstæðast fyrir alla.“