Sálfræðingurinn og heilsugúrúinn Ragnhildur Þórðardóttir, landsmönnum betur þekkt sem Ragga nagli, fjallar um mikilvægi kolvetna í nýjasta pistli sínum sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gærdag.
„Kolvetni hafa ranglega verið stimpluð undanfarna áratugi sem synir Satans og dætur Djöfulsins og við áttum að forðast eins og hóstandi mann í flugvél.
En þessi mýta getur nú dáið drottni sínum fyrir fullt og allt.
Kolvetni eru besti vinur AÐAL hjá þeim sem rífa í járn og vilja byggja kjöt á grind.
Kolvetni hjálpa þér eins og miskunnsami samverjinn við að breyta líkamssamsetningunni.
Minna af fitu og meira af vöðvum.
Hvernig þá?
Kolvetni skorin við nögl leiðir oft til lélegrar frammistöðu á æfingum.
Kolvetni eru bensínið sem líkaminn kýs og þegar við gúllum nóg af þeim þá getum við gefið allt í botn á æfingum.
Meiri ákefð þýðir meira af vöðvum.
Meira af vöðvum í líkamanum þýðir breytt og bætt útlit.
Aukin frammistaða leiðir til betra og unglegra hormónakerfis því vöðvar eru æskubrunnurinn sem við bergjum af.
Þegar við heflum niður hitaeiningar úr kolvetnum verður aukin vökvasöfnun í líkamanum. Líklega vegna þess að fitufrumurnar draga í sig vökva í varnarskyni. Sem þýðir að ásýndin verður jafnvel verri en þegar fleiri hitaeiningar og meiri kolvetni voru í partíinu.
Þegar við heflum niður hitaeiningar úr kolvetnum verður aukin vökvasöfnun í líkamanum. Líklega vegna þess að fitufrumurnar draga í sig vökva í varnarskyni. Sem þýðir að ásýndin verður jafnvel verri en þegar fleiri hitaeiningar og meiri kolvetni voru í partýinu.
Aukning á kolvetnum eykur glýkógen í vöðvum. Orðið vetni í kolvetni þýðir vatn. Kolvetni binda vökva í líkamanum. Því hærri glýkógenbirgðirnar í vöðvum, því meiri vökvi, þeir fá meiri fyllingu og aukinn samdráttur, frammistaða og úthald vöðvans eykst.
Þegar hitaeininganeysla er á pari við mataræði spörfugls sjáum við aukningu kortisóls í líkamanum sem leiðir til vökvasöfnunar, fitusöfnunar á kvið og mikillar þreytu, og bældara ónæmiskerfis.
Þegar við keyrum upp kolvetni sjáum við þessa hluti ganga til baka.
Ekkert keyrir kortisól jafn hratt niður og kolvetni eftir æfingu.
Við viljum hefja viðgerðarferli og prótínmyndun sem allra fyrst eftir æfingu svo vöðvarnir stækki og styrkist og við mætum með fítonskraft í átök á næstu æfingu.
Eftir æfingu er prótín og hraðlosandi kolvetni besti vinur AÐAL.
Einföld kolvetni skila sér hratt út í blóðrás, insúlínið fer upp í hæstu hæðir sem hjálpar til við að þrýsta prótíni á ógnarhraða inn í hungraða vöðva sem eru eins og svampar á þessum tímapunkti og soga það í sig. Þannig stuðlum við að prótínmyndun og viðgerð á vöðvunum hefjist hratt og örugglega til að þeir bæti sig fyrir næstu æfingu.
Mun þessi nálgun virkar fyrir alla?
Nei örugglega ekki, bara eins og með allt.
Ein stærð hentar ekki öllum í mataræði.
En ef þú snæðir öreindir af kolvetnum og æfir samviskusamlega af krafti án þess að sjá snefil af árangri, getur verið að meiri kolvetni séu lykillinn þinn að árangri.
Prófaðu að kúpla inn meira af kartöflum, hrísgrjónum, kúskús, rótargrænmeti, hrískökum, haframjöli, byggi, og skoðaðu hvort þú hafir ekki meiri orku, sofir betur, getir sett meira fútt í æfingar og jafnir þig hraðar.”