Breska sjónvarpsstjarnan Daisy May Cooper tók sig í gegn eftir fæðingu þriðja barnsins. Hún segir margt á uppleið eftir átakið, þó ekki brjóstin.
„Það versta við að grennast er að brjóstin síkka. Mín brjóst eru eins og tennisboltar í tveimur löngum sokkum,“ segir Cooper í viðtali við Daily Mail. Hún neitar að hafa tekið sykursýkislyf til þess að grennast.
„Nei, ég er ekki viss um að ég myndi þola að vera óglatt allan tímann.“
Cooper ákvað þess í stað að fylgja ketó matarræðinu en það gengur út á að borða lítil sem engin kolvetni til þess að fá líkamann í fitubrennslu ástand.
„Það virkaði en ég mæli ekki með því enda fékk ég nýrnasteina af allri fitunni. Ég var bara að borða ost og kjöt allan daginn. Þrýstingurinn á konur að missa kíló er mjög mikill. Þetta er galið ástand.“
Cooper talar einnig um hvernig þyngdartap hennar hafi orðið að sérstöku umræðuefni í samfélaginu. Sumir hafa bent á að hún hafi verið fyndnari þegar hún var feit.
„Það pirrar mig mjög. Ég er að lifa heilsusamlegra lífi núna. Ég var svo óheilbrigð hér áður fyrr að ég átti erfitt með að anda. Ég ætla sko ekki að verða aftur feit bara svo að aðrir geti hlegið.“
„Þá getur verið erfitt að vera fræg á samfélagsmiðlum. Maður fær kannski tíu þúsund uppörvandi skilaboð en svo þarf bara eitt neikvætt til þess að það hafi áhrif á mann. Það ásækir mann og ég reyni því að forðast að fara á samfélagsmiðla.“
Cooper vakti mikla athygli þegar hún mætti á BAFTA verðlaunaafhendingu 2019 í kjól úr svörtum ruslapokum. Mörgum fannst það snjallt og mikil ádeila á snobbið á rauða dreglinum. Sannleikurinn var hins vegar annar.
„Ég passaði ekki í neitt. Ég fór í fatabúðir og leið hörmulega. Þess vegna var ég í ruslapokum. Ekkert passaði - bókstaflega ekkert!“
„Á sumrin svitnaði ég svo mikið og fæturnir nudduðust saman þannig að ég fékk sár. Það var óbærilegt. Ég þurfti alltaf að vera í hjólabuxum undir kjólum. Ég er alveg hlynnt allri líkamsvirðingu en þetta var bara ekki gott fyrir mig. Ég gafst upp á sjálfri mér. Ég hugsaði ekki vel um mig. Ég var alltaf að grínast með þetta en ég var engan veginn hamingjusöm. Ég er hamingjusamari núna. Ég vil að makinn minn girnist mig.“
Cooper segir að þyngdin hafi haft áhrif á sambönd sín.
„Kynlífið var ekki upp á marga fiska og ég nennti því ekki. Ég vildi ekki klæða mig upp á því mér fannst ég ekkert sæt. Kynlíf er frábært þegar manni líður vel í eigin skinni. Mér líður vel núna,“ segir Cooper.