„Þetta er líklega þrautseigasta líffærið í líkamanum en við hugsum ekki um velferð þess fyrr en eitthvað fer úrskeiðis,“ segir Angad Dhillon, læknir sem sérhæfir sig í meltingarkerfinu í viðtali við The Stylist.
„Lifrin er stöðugt að störfum að vinna úr öllu því sem þú neytir og framleiða mikilvæg prótín og viðhalda efnaskiptum líkamans í lagi.
Einkenni lifrarsjúkdóma geta oft farið framhjá fólki. „Ef lifrin verður stöðugt fyrir einhverjum eitrunaráhrifum yfir langan tíma þá nær hún ekki að bregðast við og veikist. Algengasta orsök lifrasjúkdóma er óhófleg áfengisneysla eða offita.“
„Þeir sem eru t.d. með skorpulifur vita ekki af því fyrr en of seint. Þá eru einkennin gula, vökvasöfnun í kviðarholi eða fótum og óútskýrt vöðvatap.“
Húsráðin virka ekki
„Það að passa að borða áður en maður drekkur fullt af áfengi eða að drekka fullt af vatni fyrir svefninn getur kannski minnkað timburmenni en þessi gömlu húsráð gera ekkert til þess að vernda lifrina. Ekkert getur dregið úr skaðsemi of mikillar drykkju. Þó maður geti kannski leyft sér að fara á fyllerí endrum og eins þá getur það reynst hættulegt að gera það of oft.“
Byrjar hvern dag á kaffibolla
„Sumar rannsóknir benda til þess að einhver tengsl séu á milli hóflegrar kaffidrykkju og minni líkur á skorpulifur,“ segir Dr. Dhillon. „Það er líklegt að andoxunarefni í kaffinu stuðli að heilbrigðri lifur. Þess vegna byrja ég alla morgna á kaffibolla.“
Drekkur aldrei tvo daga í röð
„Það er mikilvægt að leyfa tveimur til þremur dögum að líða á milli áfengisdrykkju svo að lifrin fái tækifæri til þess að jafna sig. Þetta minnkar líkurnar á langtíma skaða.“
Áfengistegundin skiptir ekki öllu
„Það er auðvelt að halda að hreint vodka í sódavatn sé hollast fyrir lifrina frekar en sykraður kokteill eða bjór. En þetta er mýta. Það sem er skaðlegast lifrinni er magn áfengis, hversu margar einingar af áfengi maður innbyrðir og hversu oft. Ekki áfengistegundin. Drekktu bara það sem þú elskar að drekka en hugaðu að magninu og tíðninni.“
Stattu upp
„Það getur haft neikvæð áhrif á efnaskipti líkamans ef maður situr löngum stundum. Það er mikilvægt að minna sig á að standa upp og hreyfa sig. Því oftar því betra. Það er ekki bara gott fyrir stoðkerfið og alla almenna heilsu heldur líka lifrina.“
Forðast unnin matvæli
„Ég forðast unnin matvæli eins og kostur er. Það er í lagi endrum og eins að borða óhollt en það besta fyrir lifrina er að borða óunninn mat alltaf þegar kostur gefst,“ segir dr. Dhillon.
Huga að flórunni
Rannsóknir benda til þess að tengsl séu á milli góðrar flóru í meltingarkerfinu og lifrarvirkni. Það er því skynsamlegt að neyta fæðu sem stuðlar að góðum bakteríum í meltingunni. „Ég reyni að borða mikið af kimchi og kefir. Þá getur jafnvel verið skynsamlegt að taka acidophilus töflur.“