Grenntist á offitulyfi og missti vini

Lucy Cavendish grenntist og vinirnir ygldu sig.
Lucy Cavendish grenntist og vinirnir ygldu sig. Skjáskot/Instagram

Lucy Cavendish, pistlahöfundur The Daily Mail, segist hafa misst vini sína þegar hún fór að grennast.

„Um daginn var ég úti að borða með vinkonu þegar hún spurði allt í einu hvert rassinn minn hefði farið. „Þú hefur grennst svo mikið. Ég held að þú sért orðin of grönn. Þú ættir að hætta núna,“ sagði hún. Sjálf er vinkonan mjög grönn (hún notar bresku fatastærðina 8 á meðan ég er komin í fatastærð 12.). Ég hefði því átt að spyrja hana á móti hvort henni þætti hún sjálf vera of grönn. Já ég hef lést töluvert á sex mánuðum eða um 19 kg. En þar sem ég var mjög feit til að byrja með þá er ég enn mjög vel í holdum. Vinkona mín var kannski að vera vingjarnleg en ég upplifði þetta sem gagnrýni,“ segir Cavendish.

Vinirnir ollu vonbrigðum

„Og það er það sem kom mér einna helst á óvart í þessari vegferð minni og olli mér töluverðum vonbrigðum. Það hvernig vinir mínir brugðust við. Jafnvel þótt þeir viti að ég er heilbrigðari og hamingjusamari þá vilja þeir helst að ég þyngist aftur. Svo tek ég eftir því hvernig þau fylgjast stöðugt með því sem ég læt ofan í mig og eru sífellt að ota meiri mat að mér.

Sumir hafa gengið svo langt að fylla á diskinn minn einhverju gríðarmagni af kartöflum. Þetta gera þeir vinirnir þrátt fyrir að vita að maginn minn hafi ekki pláss fyrir meira. Borði ég of mikið þá verð ég veik.

Þetta er næstum eins og að vera umkringd ölkum þegar maður er sjálfur hættur að drekka. Fólk með fíknisjúkdóm líkar það ekki þegar maður breytir um stefnu í neyslu sinni. Eitt sinn hætti ég tímabundið að drekka og einn vinur laumaði áfengi í drykkinn minn. Á endanum hætti ég að segja frá því að ég væri hætt að drekka. Ég væri bara á bíl.

Sama gildir um mat. Ég hef oft grennst og þyngst á víxl en aldrei upplifað svona slæm viðbrögð. Ég held að það stafi af fordómum í garð offitulyfsins sem ég tek. Það heitir Mounjaro og er svipað og Ozempic. Það hefur áhrif á losun insúlíns og stýrir blóðsykrinum og minnkar matarlystina.“

Fordómar gagnvart lyfjum

„Eina viðtekna leiðin til að grennast er að hreyfa sig mikið og líma munninn saman. Ég hef reynt alla kúra og þyngist bara aftur jafnóðum. Það ríkja miklir fordómar gagnvart lyfjum og stuðar grannt fólk sérstaklega mikið. Hvernig dirfast þeir að grennast án þess að þurfa að hafa fyrir því? Hugsar granna fólkið.

Sumir hafa gengið svo langt og spurt hvort mér líði ekki eins og ég sé að svindla! En fólk bara getur ekki sett sig í mín spor. Og hvað það er mikill léttir að vera ekki stöðugt að hugsa um mat. Sumum finnst líka eins og ég hafi svikið þá. Margir vilja grennast en þora ekki að taka lyf. Ég skil það en mín reynsla er góð. Svo líta margir á þetta sem keppni og finna til gremju gagnvart mér.

Verst er þegar fólk lætur eins og það taki ekki eftir því að ég hafi grennst. Það er mjög greinilegt og afhverju ekki að minnast á það? Er það kurteisi? Kannski og kannski eru þau eitthvað ósátt. Eða er þetta öfund?

Alvöru áskorun að hefjast

„Ég er að nálgast draumaþyngdina og þá hefst alvöru áskorunin. Að viðhalda þyngdinni án lyfjanna. Margar konur kjósa að vera á litlum skammti til þess að viðhalda þyngdinni en læknirinn telur að ég muni ekki þyngjast því að maginn hefur skroppið saman og ég er ekki að fylla diskana mína af mat. Ég er líka að vona að heilinn hugsi öðruvísi um mat en ég er ekki alveg sannfærð.“

„Ég er mun viðkvæmari fyrir þyngdinni þegar ég lít í spegil. Áður var ég bara mjúk kona en nú tek ég eftir hverju grammi. Ég held að ég muni vera meira á varðbergi ef ég fer að fitna og fer þá bara aftur að taka inn lyfið. Ég vona bara að vinirnir láti sig ekki alveg hverfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda