Sérfræðingar lýsa yfir áhyggjum sínum vegna lítt þekktra fylgikvilla af vinsælum fylliefnum. Þúsundir kvenna flykkjast inn á snyrtistofur árlega til að láta eyða fínum línum, mýkja andlitslínur og viðhalda eða bæta fyllingu í andlitið, eins og varir og kinnar.
Tískufyrirbrigðið er að einhverju leyti drifið áfram af áhrifavöldum og raunveruleikasjónvarpi, eins og þáttunum Love Island. Þetta kemur fram á Daily Mail.
Fylliefni í vörum eru svo vinsæl meðal þátttakenda í Love Island að uppblásnar varir hafa fengið nafnið Love Island-varir.
Nú hafa bandarískir vísindamenn uppgötvað að fylliefni geta valdið banvænum bólgum í nýrum. Slíkur fylgikvilli er sagður sjaldgæfur og „lítt þekktur“ og hefur einungis verið skjalfestur í örfáum læknisfræðilegum skýrslum.
Rannsóknin leiddi í ljós að nýrnavandamál hafa orðið a.m.k þremur einstaklingum með fylliefni að aldurtila og gætu fylgikvillarnir komið fram á þremur klukkustundum eftir að fylliefninu er sprautað undir húð.
Dr. Augustin Posso frá Harvard-háskóla kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á ársfundi American Society for Aesthetic Plastic Surgery í Austin, Texas. Hann sagði að „óhugnanlegur“ fjöldi leyfislausra „sérfræðinga“ sem framkvæma fylliefnaaðgerðir hafi aukið verulega á hættuna á nýrnavandamálum.
„Þetta undirstrikar þörfina á ströngum reglum og fræðslu til að tryggja að fegrunaraðgerðir séu framkvæmdar af hæfu fagfólki.“
Áhyggjur vegna þessa jukust verulega eftir að fimm barna móðir lést eftir að fylliefni hafði verið sprautað í rasskinnarnar á henni. Hin 33 ára Alice Webb er sögð hafa fengið meðferð hjá sjálfskipuðum fylliefnasnyrtifræðingi, Jordan Parker, einnig þekktum sem The Lip King, áður en hún lést í september.
Rannsakendur komust að því að algengasti fylgikvillinn er langvinnur nýrnasjúkdómur sem hafði áhrif á yfir helming sjúklinga í rannsókninni. Nýrun missa getu til að sía úrgangsefni úr blóðinu sem leiðir til uppsöfnunar eiturefna svo sjúklingurinn eigi erfiðara með að tæma þvagblöðruna.
Sumir sjúklingar þurfa að gangast undir skilun, blóðhreinsandi meðferð, sem krefst nokkurra sjúkrahúsferða á viku.
Niðurstöður sýndu að það tók nýrnatengda fylgikvilla að meðaltali fimm ár að koma fram, en í einu tilviki var tilkynnt um þá aðeins þremur klukkustundum eftir fylliefnameðferð.
„Til að nýrnafylgikvillar verði þarf fylliefnið að hafa komist inn í og frásogast af líkamanum, frekar en að sitja þar sem því var sprautað,“ segir Dr. Nora Nugent, forseti bresku lýtalæknasamtakanna. „Það gæti líka hafa innihaldið viðbótarefni sem gætu hugsanlega hafa skaðað nýrun.“
Breski lýtalæknirinn Patrick Mallucci segir þetta því miður gerast á ódýrari enda markaðarins, þar sem einstaklingar reyni að spara peninga.
Þá hafa sérfræðingar einnig lýst yfir áhyggjum þess efnis að fylliefni flytjist og festist á svæðum í andlitinu árum eftir að þau áttu að leysast upp. Skurðlæknar vara við aukningu yngri kvenna sem þurfa að fara í andlitslyftingu með skurðaðgerð vegna þess að útlit þeirra hefur verið eyðilagt eftir margra ára meðferðir með fylliefnum.