„Ég vil einungis sjá fólk upplifa þessa litlu persónulegu sigra“

Finnur Orri Margeirsson og Indíana Nanna Jóhannsdóttir.
Finnur Orri Margeirsson og Indíana Nanna Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þegar blaðamaður sló á þráðinn til þjálfarans og meðeiganda æfingastöðvarinnar GoMove Iceland í Kópavogi, Indíönu Nönnu Jóhannsdóttur, eftir hádegi á þriðjudag var hún stödd í sínu náttúrulega umhverfi, ef svo má að orði komast, í ræktinni, að hita upp á hlaupabrettinu, en það mátti ekki heyra á rödd hennar. Hún var ekki móð og másandi líkt og blaðamaður er eftir fimm mínútur á hlaupabrettinu, heldur hress og meira en til í smá spjall um æfinga- og dekurferðir sem hún og eiginmaður hennar, Finnur Orri Margeirsson, standa fyrir dagana 4. til 6. apríl næstkomandi.

Indíana Nanna lýsir ferðunum sem fullkominni blöndu af hreyfingu og slökun.

„Já, þetta er yndislegt og virkilega gott fyrir alla. Við erum með eina ferð sem er einungis ætluð konum og aðra sem er hugsuð fyrir pör og/eða vinahópa. Hugsunin með þessum ferðum er að taka gott frí frá hversdagsleikanum, innanlands, ekki langt frá höfuðborginni, og kúpla sig út, njóta slökunar og koma endurnærður til baka eftir dásamlega dvöl í einstöku umhverfi og góðum félagsskap.“

Indíana Nanna býr yfir margra ára reynslu í þjálfun.
Indíana Nanna býr yfir margra ára reynslu í þjálfun. Ljósmynd/Aðsend

Þátttakendur mega búast við einstakri upplifun, félagslegri tengingu og sérstakri stemningu, en bæði Indíana Nanna og Finnur Orri búa yfir mikilli og fjölbreyttri reynslu í þjálfun.

„Þegar við byrjuðum að skipuleggja dagskrána þá var fyrsta hugsun að þetta yrði að vera fullkomin blanda af hreyfingu og slökun. Við erum búin að sjóða saman alveg frábæra dagskrá sem inniheldur fjölbreyttar styrktar- og úthaldsæfingar, aðlagaðar að hverjum og einum, útiveru, dekur, gómsætar máltíðir og fleira skemmtilegt.“

Hentar þetta byrjendum sem og lengra komnum?

„Já, það er eitthvað í boði fyrir alla. Ég sem þjálfari til margra ára hef sérhæft mig í að styrkja sjálfstraust hjá iðkendunum mínum og ávallt hvatt alla til að gera eins vel og þeir geta. Ég ætlast ekki til neins annars. Ég vil einungis sjá fólk upplifa þessa litlu persónulegu sigra.“

Hvert er ferðinni heitið?

„Við förum á Fosshótel Reykholt í Borgarfirði, það er heimsklassa staður og fullkominn fyrir ferð af þessum toga. Þarna er auðvelt að kúpla sig út og bara njóta.“

Af hverju var Fosshótel Reykholt fyrir valinu?

„Spa-ið fyrst og fremst er æðislegt, engu öðru líkt, og þarna er líka bara margt í boði, gott útisvæði, heitir og kaldir pottar, þurrgufa, rólegt svæði sem er punkturinn yfir i-ið í svona ferð. Aðstaðan og andrúmsloftið þarna er bara fullkomið, það verður enginn svikinn, ég lofa því.”

Indíana Nanna hélt sams konar námskeið á Fosshótel Reykholti seint …
Indíana Nanna hélt sams konar námskeið á Fosshótel Reykholti seint á síðasta ári sem heppnaðist einstaklega vel. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaður forvitnaðist aðeins í lokin um hvað sé að gerast í heilsuræktarheiminum núna.

„Gleði og að tilheyra hvetjandi samfélagi eða hóp er alltaf stór, ef ekki stærsti, þátturinn í að fólk haldist í hreyfingu. Ég er líka ánægð með aukna umræðu og vitundarvakningu um mikilvægi styrktarþjálfunar, sérstaklega fyrir konur. Það er auðvitað alltaf dásamlegt að fara í göngutúra en mikilvægi styrktarþjálfunar er nú algjörlega sannað og mér finnst alltaf fleiri og fleiri vera meðvitaðir um það, sem er auðvitað frábært!’’

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda