Dorothy Herson segist hafa orðið háð áfengi eftir að hafa landað draumastarfinu. Þetta kemur fram í pistli hennar í The Daily Mail.
„Þetta var um miðja nótt þegar ég áttaði mig á að mér var ekki ætlað að vera fyrirtækjalögfræðingur. Ég var í vinnunni og stjörf yfir einhverju excel skjali. Ég var hætt að sofa, vann fram á nótt og með hnút í maganum af kaffidrykkju og streituhormónum. Frammi heyrði ég í starfsnema að gubba í klósettið. Ég var búin að vinna 50 klukkustundir og það var bara miðvikudagur,“ segir Herson.
„Venjulega fór ég heim um fjögur að morgni. Svaf í þrjá tíma og mætti svo aftur til vinnu. Kaffi og Adderal fyrir hádegi og Beta blockerar eftir hádegi. Svo tók ég inn Xanax sem kvíðastillandi sem og áfengi. Fyrir svefninn tók ég svefntöflur til þess að ná að sofna almennilega.“
„Þetta var líf sem ég hafði undirbúið mig fyrir í fleiri ár og nú var ég að leita leiða til þess að losna. Þetta var eitthvað sem ég hafði þráð svo lengi. Ég var háð dópamín sælunni sem fór um mann þegar maður náði árangri í vinnunni. Að vera best. Ég þráði viðurkenningu og ég fékk hana. Eftir allt puðið var ég komin í hálauna starf.“
„En þegar þangað var komið þá var ég allt í einu umkringd fólki sem vann lengur og lagði harðar að sér en ég átti að venjast. Virði manns miðast út frá þeim tímum sem maður getur rukkað. Þetta var kapphlaup sem enginn gat unnið. Ég hætti að sofa og lifði á orkudrykkjum. Ég fór að gera mistök og svo komu pillurnar.“
„Ég get ekki kennt neinum öðrum um en sjálfri mér. Enginn rétti mér pillur og vodka. Ég gerði þetta sjálf til þess að ná árangri. Ég hafði meðtekið ákveðna vinnumenningu þar sem virði manns ræðst út frá framlegð og það var aðeins hægt að ná þeim afköstum með því að vaka og reyna að gera engin mistök.“
„Ein jólin borðaði ég ekkert heldur drakk eina freyðivínsflösku, tók svefnpillur og datt út í sólarhring. Ég hafði misst allt og lifði á sparnaði mínum. Svo sagði ein sem ég bjó hjá mér frá því að hún væri í tólfspora kerfinu og ég varð forvitin. Ég lét til leiðast tveimur mánuðum síðar en viðurkenni að ég varð ekki edrú strax. Þetta tók tíma. Nú er ég 32 ára og hef lært að ég þarf ekki að lifa hátt eða sanna mig til þess að mega vera til.“
„Nú hef ég skrifað bók um reynslu mína og vinn með ungu fólki sem á erfitt með að fóta sig í lífinu og á við andleg veikindi að stríða.“