Sjómaðurinn Ragnar Þór Jóhannsson, jafnan kallaður Raggi Togari, á sér ótrúlega sögu – sögu um móðurmissi, aflasæld, óvæntar hindranir, óbilandi baráttuvilja og sanna ást. Hann hefur gengið í gegnum meira á lífsleiðinni en margir aðrir og er þó aðeins 35 ára gamall.
Ragnar Þór hefur á undanförnum árum glímt við afar sjaldgæfan sjúkdóm sem fáir hafa eflaust heyrt um, enda er talið að einn af hverjum 200.000 jarðarbúum greinist með sjúkdóminn einhvern tímann á lífsleiðinni; það er þó ekki á honum að heyra að eitthvað bjáti á.
Sjúkdómurinn, sem ber heitið Peutz-Jegher, hefur gjörbreytt lífi Ragnars Þórs og þeirra sem standa honum næst og segist hann vel skilja hvað fólk eigi við þegar það talar um spítalann sem annað heimili sitt.
Margt og misjafnt hefur á daga hans drifið og fékk hann góðfúslega til að deila sögu sinni með lesendum mbl.is.
Ragnar Þór er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur. Hann segir uppvaxtarárin á eyjunni fögru hafa verið góðan tíma og nóg við að vera.
„Já, það var helvíti fínt að alast upp í Eyjum.
Ég var mikill orkubolti og hafði alltaf nóg fyrir stafni. Ég var bara úti að leika, að spila fótbolta, veiða lunda úti í Elliðaey á sumrin, stöðugt á vappi,“ segir hann og hlær. „Og jú, svo mætti maður auðvitað í skólann.“
Ragnar Þór fór ekki í framhaldsnám og gerði sjómennskuna að aðalstarfi sínu ungur að árum.
„Ég kláraði varla tíunda bekkinn, fór á sjó 15 ára gamall.“
Hvað var það við sjómennskuna sem heillaði þig svona ungan?
„Æj, veistu ég veit það eiginlega ekki.
Það var enginn á sjó í fjölskyldunni minni á þessum tíma, það er þegar ég tók þá ákvörðun að fara á sjó. Mér gekk erfiðlega í skóla, er lesblindur, og móðir mín var mikið veik á þessum tíma, hún glímdi við brjóstakrabbamein sem á endanum dró hana til dauða. Kannski var þetta hálfgerð útgönguleið, en mér leist vel á að þéna peninga og þótti það mun gáfulegra en að fara í framhaldsskóla.“
Það var ekki auðvelt fyrir 15 ára gamlan dreng að fá pláss á bát en Ragnar Þór gerði allt hvað hann gat til að komast á sjó.
„Já, þegar ég fæ flugu í hausinn þá er sko ekkert aftur snúið.
Ég bankaði á dyrnar hjá hverjum einasta skipstjóra í Eyjum þar til einhver lofaði mér föstu plássi um borð, unglingurinn ég gafst ekki upp. Ég fékk fastráðningu hjá Eyjólfi Guðjónssyni skipstjóra á Gullbergi VE og starfaði á sama skipi í 17 ár.“
Eins og fram hefur komið þá missti Ragnar Þór móður sína ungur að árum.
Hvernig leið þér að heyra að móðir þín væri lífshættulega veik?
„Þetta var allt ótrúlega erfitt, sérstaklega þegar við komumst að því að krabbameinið væri ólæknandi, þær fregnir gerðu allt mun erfiðara þar sem við vissum hvernig þetta myndi enda.“
Móðir Ragnars Þórs, Júlía Bergmannsdóttir, greindist með krabbamein þegar hann var tíu ára gamall og barðist hetjulega við þennan mikla vágest í sjö ár.
„Það var virkilega erfitt að kveðja hana, ég rétt náði í land áður en hún féll frá.“
Leið Ragnars Þórs lá aftur á sjóinn aðeins örfáum dögum eftir að móðir hans lést, en það var ákveðin huggun í harmi fyrir hann.
„Já, sjórinn var hálfgerður sælureitur fyrir mig, það hjálpaði mér mikið að komast í mitt náttúrulega umhverfi á ný.“
Ragnar Þór leitaði sér einnig huggunar í áfengi.
„Já, ég gerði það, en drykkjan var líka bara stór partur af lífinu á sjónum á þessum tíma.
Varð drykkjan að vandamáli?
„Svona kannski undir það síðasta, þá var þetta farið að þróast í áttina að alkóhólisma. Mér var alveg hætt að lítast á blikuna og ákvað því að leita mér hjálpar. Á þessum tíma átti ég von á mínu fyrsta barni og vildi alls ekki vera þessi bjórsullandi pabbi. Ég hringdi á Vog og lauk tíu daga meðferð.
Fjórum dögum eftir að ég gekk út af Vogi fékk ég son minn í fangið. Það var þá sem ég horfði á hann og hugsaði með mér: „Heyrðu, ég er bara kominn með nýtt hlutverk og þetta verður ekkert mál.“
Ég hef ekki snert á áfengi síðan.“
Ragnar Þór er trúlofaður Bjarteyju Kjartansdóttur og eiga þau þrjú börn, Líam, París og Chloé. Þau kynntust í brugghúsinu í Vestmannaeyjum eftir eina loðnuvertíð árið 2017 og áttu ævintýralegt fyrsta stefnumót, án efa ólíkt öllum öðrum.
„Þetta er skemmtileg saga og lýsir mér fullkomlega,“ segir Ragnar Þór og hlær.
„Ég hef alltaf verið heldur hvatvís, sem hefur stundum komið mér í vanda, en hvatvísin varð til þess að mér tókst að fanga hjarta Bjarteyjar.
Einn daginn kom hún upp að mér og sagði að ég skuldaði henni kvöldverð, eða eins og hún orðaði það að fara út að borða. Ég tók þessu bókstaflega og skellti mér með hana í mat – til útlanda. Við flugum til Ibiza, eyddum þar nokkrum dögum og enduðum á að trúlofa okkur á sundlaugarbakkanum, sem var án efa besta ákvörðun lífs míns.”
Vissi hún af ferðinni fyrir fram?
„Hún fékk að heyra þetta deginum áður.“
Hverfum nú fram til ársins 2021.
Einn sólríkan dag undan ströndum Vestmannaeyja, sumarið 2021, var Ragnar Þór að veiða, á báti sem hann þá átti orðið, þegar hann fékk sáran verk í magann, ólíkt því sem hann hafði upplifað áður.
Hann vissi ekki hvað var að hrjá hann, en það sem amaði að honum átti eftir að breyta lífi hans um ókomna tíð.
„Þetta var helvíti sárt, ég get ekki lýst því öðruvísi,“ segir Ragnar Þór sem hafði áður fundið fyrir svipuðum verkjum, þó ekki eins kvalafullum.
„Já, í langan tíma var einhver seiðingur, en ég, upptekinn maður, kominn af stað með eigin útgerð, hafði ekki haft neinn tíma til að pæla í kviðverkjum. Ég hristi þetta því bara af mér og hélt áfram eins og ég hafði alltaf gert.“
Í fyrstu segist hann ekki hafa tímt að fara í land. Í stað þess hafi hann ákveðið að færa sig örlítið nær landi til að reyna að kroppa í fisk á milli verkjakasta. Það var ekki þar til verkirnir höfðu ágerst og voru orðnir óbærilega sársaukafullir að honum fannst nóg komið og ákvað að sigla í land.
„Ég dröslaðist í land þarna um morguninn, eða þegar klukkan var að ganga ellefu, og ákvað að landa aflanum og ganga frá skipinu. Það var eitthvað sem sagði mér að ég væri ekki á leið út á sjó alveg á næstunni. Ég fann á mér að það væri eitthvað alvarlegt í gangi,“ útskýrir Ragnar Þór.
„Ég rölti heim, kvalinn og kengboginn, og hitti Bjarteyju sem tók á móti mér í dyrunum. Henni leist ekki á mig, enda vissi hún að ég hefði aldrei komið í land ef ég hefði bara verið lítils háttar slappur. Hún skipaði mér að fara upp á spítala, sem ég gerði.
Maður hlýðir að sjálfsögðu konunni.”
Þegar á spítalann var komið var Ragnar Þór sendur rakleitt í myndatöku. Vakthafandi læknir sagði verkinn að öllum líkindum stafa af nýrnasteinum og var hann því sendur heim til að hvíla sig. En Ragnar Þór fékk litla sem enga hvíld þar sem verkurinn hélt bara áfram að versna.
„Næstu dagana á eftir er ég orðinn fárveikur og fer aftur upp á sjúkrahús, þar var reynt að verkjastilla mig en það virkaði ekkert.
Lækninum leist ekkert á mig og tók ákvörðun um að senda mig með sjúkraflugvél til Reykjavíkur þar sem gerð var bráðaaðgerð á mér,“ lýsir Ragnar Þór og segir að drep hafi tekið að myndast í meltingarvegi hans.
Kviðarholsaðgerð var framkvæmd þar sem fjarlægja þurfti hluta af görninni. Svokölluð sepaæxli höfðu tekið sig upp í meltingarveginum og valdið því að ekkert blóðstreymi var á milli maga og ristils. Það orsakaði drep í ákveðnum hluta garnarinnar.
Á þessum tímapunkti var enn óvitað að Ragnar Þór væri með Peutz-Jeghers-heilkennið eða PJS.
Einn af læknum Ragnars Þórs sannfærði hann um að fara í allsherjarerfðarannsókn sem hann féllst svo á.
„Já, ég fór í allsherjarrannsókn og fékk símtal nokkrum vikum seinna frá Félagi sjaldgæfra sjúkdóma á Landspítalanum. Ég var kallaður á fund með læknum og ráðgjöfum og fékk það formlega staðfest að ég væri með Peutz-Jeghers, heilkenni sem einn af hverjum 200.000 jarðarbúum greinist með. Þetta var eins og að vinna í lottói, nema með öfugum formerkjum.”
Ragnari Þór var sagt að hafa ekki áhyggjur af þessu því þetta kæmi ekki oftar en einu sinni fyrir menn, en það reyndist ekki rétt, því ári síðar, og upp á dag, endurtók sagan sig.
„Jú, jú. Það reyndist vera og í þetta skipti var æxlið enn þá stærra. Staðsett aðeins ofar í smágirninu, nánast á sama stað og árið á undan.“
Töldu læknarnir að það hefði misfarist að greina æxlið þegar Ragnar Þór gekkst undir fyrri kviðarholsaðgerðina. Síðan þá hefur hann enn ekki náð bata og hefur heilsu hans hrakað mikið.
„Ég hef eiginlega ekkert náð mér á strik eftir þetta. Meltingarvegurinn hefur orðið fyrir svo miklu tjóni og varanlegum skaða. Ég er alltaf undir eftirliti lækna og spítalastofan er annað heimili mitt,“ útskýrir Ragnar Þór og segist vera gríðarlega þakklátur heilbrigðisstarfsfólki og sérstaklega starfsfólkinu á spítalanum í Vestmannaeyjum.
Hvernig hefur þetta breytt þér?
„Ég líð vítiskvalir nánast daglega og er 100% óvinnufær. Ég neyddist til að hætta á sjónum, en sjómennskan og útgerðarmennskan var líf mitt og yndi um árabil og hefur það reynst mér erfitt.
Ég reyni samt alltaf að vera bjartsýnn og hafa eitthvað fyrir stafni á hverjum degi sama hversu kvalinn ég er. Ég er með traust bakland, á yndislega unnustu, einstök börn, eldri systur og föður sem hafa reynst mér ótrúlega vel í gegnum þetta tímabil. Ég veit auðvitað ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en ég held bara í vonina og lifi einn dag í einu.“
Ragnar Þór þurfti að taka þá erfiðu ákvörðun að selja bátinn enda eyðir þessi fyrrum sjómaður langmestum tíma sínum núorðið á spítala, tengdur við hin ýmsu tæki, til að reyna að halda aftur af verkjunum.
Eitt skiptið umvafinn alls kyns snúrum var hann að skoða færslur á Facebook þegar hann rak augun í auglýsingu um draumabílinn, en það var Ford F 250, árgerð 1974, með 470 vél.
„Þetta var ást við fyrstu sýn, ef svo má að orði komast. Ég ætlaði sko ekki að láta þennan grip mér úr greipum renna og hafði því strax samband við eigandann sem þvertók fyrir að selja mér bílinn í gegnum símann þar sem hann vildi segja mér sögu hans augliti til auglitis.
Ég hugsaði mig ekki tvisvar um, var fljótur að rífa úr mér nálina, og dreif mig í Herjólf og keypti bílinn um leið og ég steig á fastalandið.
Bíllinn hefur gefið mér mikið þessar síðustu vikur og hjálpað mér í veikindunum, enda gott að geta rölt út í bílskúr og dyttað að honum,“ segir Ragnar Þór í lokin.