Það er vandlifað nú til dags og ef það á að heita „að vera maður með mönnum“ þá er eins gott að stunda – allavega prófa – nýjungarnar með miklum eldmóð, a.m.k er hægt að selja sér þá hugmynd.
„Infrarautt“ er mér mjög hugleikið þessa dagana; infrarautt jóga, infrarauðir fitnesstímar, infrarauð sána … Og er ég viss um að infrarautt „virki“, ég bara finn það, eða kannski er ímyndunaraflið að taka þátt í tískunni?
Undirrituð hefur stundað sundlaugarnar frá því að hún man eftir sér og hefur prófað þær ófáar. Allar nýjungar eru spennandi. Þegar köldu plastkörin spruttu upp hvert af öðru á sundlaugarbakkanum var um að gera að dýfa sér ofan í eftir góðan sundsprett.
Nú eru það infrarauðu sánurnar sem eru ómissandi og þá er eins gott að gleyma ekki auka handklæði til að setjast á – það er regla.
Og ég komst að því í heita pottinum að infrarauði sánuklefinn í ónefndri sundlaug er kallaður „tunnan“, enda er klefinn hannaður eins og risa bjórtunna.
„Ertu búinn að skella þér í tunnuna?“ spurði maður næsta mann í pottinum. „Nei, ég veit ekki hvort ég fari núna, kannski kíki ég á eftir,“ sem hljómar nokkurn veginn eins og að kíkja á barinn.
Kona kom gangandi út úr tunnunni. „Hvernig er tunnan í dag?“ spurði pottamaðurinn glaður í bragði. „Jú, hún var ágæt en svakalega heit.“ Sánan er víst svo misheit. Samt hafði frúnni tekist að snúa stundaglasinu við tvisvar sinnum.
Án djóks, ég hlustaði af athygli.
Ég rakst á frænku mína í sundi um daginn og ákvað að draga hana með mér í infrarauðu sánuna. Ég lofaði virkni sánunnar í hástert – af því bara – á meðan við gengum að tunnunni.
Einhverra hluta vegna eru þessir infrarauðu sánaklefar eins og atóm á stærð og oft ansi þétt setnir, eins og þarna þegar við kíktum inn og sáum að aðeins yrði pláss fyrir einn afturenda í viðbót.
„Far þú bara,“ sagði hún við mig með skelfingarsvip.
„Er það? Ókei, sjáumst síðar.“
Ég tróð mér inn. Það verður einhver vandræðaleg þögn þegar hálfnaktir líkamar sitja saman í svo litlu og lokuðu rými. Allir svitna saman og ég lagði mig alla fram við að snerta ekki lærið á næsta manni. Gestir sánunnar horfðu í öngum sínum á stundaglasið og biðu eftir að síðasta kornið félli niður.
Þegar það hafði gerst hélt ég að einn væri að standa upp til þess að yfirgefa sánuna og myndi þar með skapa meira pláss fyrir okkur hin. En nei, hann stóð upp til að snúa stundaglasinu aftur við, því hann ætlaði sér að sitja þarna eitthvað lengur.
Ætlar hann að drepa sig, hugsaði ég og spurði svo: „Hvað á þessi sána að gera?“ Því ég hreinlega hef ekki hugmynd um það og ég hef ekki kynnt mér það, en mér finnst alveg ljúft að fara í hana.
„Minnka bólgur,“ svaraði einn lafmóður.
„Ég verð betri í hnjánum. Svo sefur maður bara svo vel,“ sagði hinn.
Annar sérfræðingur minntist á hve gott væri að fara í kalda pottinn eftir sánuna og enn annar sérfræðingurinn sagðist alltaf fara í kalda pottinn á undan sánunni.
„Og hvað á maður að sitja lengi hérna?“ spurði ég, því eitthvað hafa tölurnar verið á reiki.
Einn sagði fimmtán mínútur, annar átján, hinn sagðist alltaf sitja a.m.k. tuttugu mínútur og yfirsérfræðingurinn, sá sem stóð upp til að laga stundaglasið, sagði þrjátíu mínútur.
Svona að endingu, skiptir það einhverju máli svo lengi sem mér finnst sánan virka? Hugurinn og ímyndunaraflið fleyta mér a.m.k. hálfa leið hvað virknina varðar.