„Það er klárt að alls staðar þar sem þetta hefur verið skoðað á síðustu tíu árum, bæði í löndunum í kringum okkur og í fjarlægari löndum, er hlutfall þeirra sem eru að greinast yngri en 55 ára mun hærra en það var.“ Þetta segir Jórunn Atladóttir, kviðarholsskurðlæknir á Landspítalanum, um nýjar vendingar í greiningum á ristilkrabbameini.
„Við vitum að þetta er að gerast hér líka þótt við höfum ekki alveg skýrar tölur ennþá, en við erum að skoða það.“
Ristilkrabbamein, eins og flest önnur krabbamein, er sjúkdómur eldra fólks. Þá er sjaldgæft að fólk undir fimmtugu greinist með sjúkdóminn en eftir það fer greiningin línulega upp á við. Það er enn þannig í dag, þótt umtalsverðar breytingar séu í greiningu á sjúkdómnum, að sögn Jórunnar.
„Fyrir fimmtán árum voru þeir sem greindust yngri en 55 ára 10% af heildargreiningum en árið 2019 var hlutfallið komið í 20%, svo að einn af hverjum fimm sem greinist er undir 55 ára.“
Aukningin er mest hjá z, x, og aldamótakynslóðinni, að sögn Jórunnar og hún varpar upp þeirri spurningu hvað muni gerast þegar kynslóðin, sem í dag er 55 ára og yngri, verður eldri.
Spurð um orsök aukningarinnar segir Jórunn enga augljósa skýringu til staðar. „Þeir sem hafa greinst ungir hafa verið með bólgusjúkdóma í görnum, eins og sáraristilsbólgu, sem er ekkert mjög algengur sjúkdómur en engu að síður eykur áhættuna. Því er eins farið með erfðir. Hins vegar er þessi nýja aukning hjá algjörlega heilbrigðu fólki: Fólki í fullu fjöri, fólki sem er að hreyfa sig, fólki í venjulegum vinnum.“
Hún bætir við að helstu áhættuþættir fyrir ristilkrabbamein séu t.a.m neysla á unnum kjötvörum og rauðu kjöti, að borða lítið af trefjaríku fæði, hreyfingarleysi og offita. Sterk fylgni sé milli þessara þátta og ristilkrabbameins. Þó sé ekki vitað að þessir áhættuþættir séu til staðar hjá þessum unga hópi sem nú greinist. Einhver breyting hafi átt sér stað síðustu tíu til fimmtán árin sem eigi þátt í að fleira yngra fólk greinist með ristilkrabbamein.
Hún nefnir dæmi um breytt umhverfi, allir séu með síma, matur hefur breyst og það sé almennt meiri streita hjá fólki.
Helstu einkenni sjúkdómsins eru blóð í hægðum, hægðabreytingar, breyting á matarlyst og þreyta vegna blóðleysis. Nokkuð algengt er að fólk með ógreint ristilkrabbamein haldi að það sé með gyllinæð.
Ofangreind aukning hjá fólki yngra en 55 ára er ekki einungis á Vesturlöndum heldur á heimsvísu.
„Í fyrstu var talið að þetta væri aðeins vestræni heimurinn. En það virðist vera að hvar sem þetta hefur verið skoðað, jafnvel í Asíu og löndum í Afríku, þá erum við að sjá þessa breytingu þar líka.“
Jórunn segir að fylgjandi aukningunni hafi leiðbeiningum í fagfélögum í löndunum í kring verið breytt. Til að mynda í Bandaríkjunum, þar sem áður var mælt með ristilskimun fyrir 50 ára og eldri, hafa aldursmörkin verið færð niður í 45 ára. „Og þar er verið að ræða hvort eigi að færa mörkin neðar, niður í 40 ára.“
Hérlendis eru að fara í gang reglubundnar skimanir fyrir ristilkrabbameini. Byrjað verður á aldurshópnum 60-69 ára, með hægðaprófi, að sögn Jórunnar.
„Þegar skimunin fer á fullt þá verða einstaklingar, sem eru 50 ára, boðaðir í speglun.“
Samhæfingarstöð krabbameinsskimana mun halda utan um reglubundnar ristilskimanir og stýra þeim. Hins vegar ítrekar Jórunn að fólk sem finni fyrir einkennum fyrr leiti til læknis.
„Sjúkdómurinn vex alveg hægt og getur tekið tíma í að þróast og dreifa sér.“
Jórunn útskýrir að í flestum tilfellum fari fólk sem greinist í skurðaðgerð, stundum í lyfja- eða geislameðferð. „Ef fólk greinist á snemmstigum, stigi eitt til þrjú, þá eru batahorfur mjög góðar eða yfir 70-80% læknast. Á stigi fjögur eru færri sem læknast og því er mikilvægt að greina sjúkdóminn fyrr.“
Hún áréttar að öll stigin geti verið einkennalaus.
„Þar sem ristilkrabbamein getur verið arfgengt er mælt með sérstöku eftirliti fyrir þá sem eiga fyrstu gráðu ættingja sem hafa greinst með ristilkrabbamein. Fyrstu gráðu ættingjar teljast til barna, systkina og foreldra. Einstaklingar í þeim áhættuhópi ættu að fara í ristilspeglun á fimm ára fresti. Einstaklingar þurfa sjálfir að óska eftir slíku eftirliti, það er ekki skipulagt sjálfkrafa eins og er. Og ef þú átt foreldri sem hefur greinst þá á að fara í ristilspeglun við 40 ára aldur og svo aftur á fimm ára fresti. Og fyrir þá sem eru með enga sérstaka áhættuþætti er mælt með skimun á tíu ára fresti.“
Ristilkrabbamein er örlítið algengara hjá körlum en annars er mjög lítill munur á milli kynja. Heilt yfir er þessi tegund krabbameins sú þriðja algengasta, að sögn Jórunnar, og því meiri fjöldi sem deyr úr sjúkdómnum.
„Rúmlega 200 manns greinast á ári. Að meðaltali deyja rúmlega 60 manns úr sjúkdómnum. Horfurnar eru frekar góðar miðað við önnur krabbamein en af því þetta er svo algengt þá er þetta frekar algeng dánarorsök.“
Erfitt er að sýna fram á hvað valdi aukningu í greiningum á ristilkrabbameini en Jórunn ítrekar mikilvægi þess að fólk sé meðvitaðra um þetta. „Bæði almenningur og við í læknasamfélaginu. Til dæmis ef einhver kemur inn, 35 ára, og er með einkenni sem geta samrýmst ristilkrabba þá verðum við að rannsaka það. Í dag er það nefnilega ekkert svo ólíklegt.“