Það hefur löngum þótt eðlileg tilfinning að nenna ekki í vinnuna en hvað ef tilhugsunin að mæta fyllir mann kvíða eða ótta? Eða ef kvíðinn varir löngu eftir að vinnudeginum lýkur?
Kvíði er eðlilegur ef það er stórt verkefni framundan í vinnunni eða ef vaktamynstrið er óheppilegt eða hreinlega ef manni langar að standa sig. En stundum getur óheilbrigt vinnuumhverfi haft áhrif á heilsu fólks. Sumir fá jafnvel útbrot, upplifa hármissi eða magakveisur sem erfitt er að útskýra.
„Við höldum oft að streitan hreiðri bara um sig í huganum en staðreyndin er að líkaminn fær oftar en ekki að kenna á henni. Þegar streitan verður krónísk þá fer líkaminn að mótmæla,“ segir Beth Hope, vinnustaðasálfræðingur í viðtali við The Stylist. Hope segir að algengt sé að fólk finni fyrir tilviljanakenndum kvillum á borð við svefnleysi, meltingartruflanir, hausverki, útbrot, vöðvaspennu, stífni í kjálkum, hósta, kvef og önnur flensueinkenni. „Þetta eru rauðu flöggin. Þegar streitan magnast þá bregst taugakerfið við og biður þig um að taka eftir og bregðast við.“
Elise er 45 ára og vinnur á auglýsingastofu. Hún upplifði mikla streitu í starfi þar sem henni kom oft saman við yfirmann sinn. Þá var vinnuálagið mikið og starf sem henni fannst skemmtilegt í fyrstu varð að lifandi martröð.
„Vinnustaðamenningin var hræðileg. Það var ekkert nógu gott. Ef maður var í vinnunni frá sjö að morgni og langt fram á kvöld þá var manni sagt að maður legði ekki nógu hart að sér. Vellíðan manns skipti engu máli. Það átti bara að græða,“ segir Elise.
„Ég fór í vinnuna alla daga með kvíðahnút í maganum. Ég var líkamlega veik um leið og ég gekk inn um dyrnar. Hvert bein í líkamanum var að segja mér að hætta. En ég gat það ekki. Mér leið eins og ég væri föst. Ég sagði engum frá þessu en þegar það leið yfir mig í vinnunni þurfti ég að taka á málunum.“
„Ég talaði við eiginmann minn sem hvatti mig til þess að segja upp strax daginn eftir. Ég gerði það. En svo þrátt fyrir að vera komin í annað starf sem var rólegra þá fóru einkennin ekki. Líkaminn var enn þjakinn eftir margra ára kvíða og streitu. Ég fann stöðugt til einhvers sársauka og tveimur árum síðar var ég greind með MS sjúkdóminn.“
„Ég held að álagið hafi gert mig veika. Ég leyfði líkamanum að þola hreint helvíti og þegar ég lít til baka þá voru einkennin upphafið af þessum krónískum veikindum.“
„Vandamálið er að það er orðið svo eðlilegt að fólki líði svona á vinnustað. Að vera alltaf þreyttur, á þönum og útkeyrður. Næstum eins og maður eigi að fá orðu fyrir það. Svo þegar líkamleg einkenni fara að dúkka upp á yfirborðið þá hundsum við þau.“
„Þegar við sitjum löngum stundum fyrir framan tölvur og hreyfum okkur lítið þá missum við tengslin við líkamann og taugakerfið. Svo er vont að maður klífi metorðastigann en gleymir að forgangsraða sjálfan sig. Samfélagið hefur kennt okkur að fórna heilsu og hamingju, setja engin mörk og bera ekki virðingu fyrir sjálfum sér til þess að virðast vera vinnuþjarkur á uppleið.“
„Því meira sem við leiðum hjá okkur einkennin því sterkari verða þau þar til við brennum út. Það að læra að hlusta á líkamann er ekki veikleiki heldur viska. Það gefur okkur tækifæri til þess að safna kröftum og endurhlaða batteríin. Líkaminn segir manni alltaf sannleikann. Maður þarf bara að læra að hlusta.“