Arna Vilhjálmsdóttir, samfélagsmiðlastjarna og einn af sigurvegurum Biggest Loser Ísland, er á batavegi eftir að hafa gengist undir bráðaaðgerð.
Hún greindi frá þessu á Instagram-síðu sinni í gærdag.
„Eftir venjulegan, djúpan keiluskurð fór ég heim að jafna mig. 4 klukkustundum eftir að ég kom heim rofnaði á slagæð og úr henni púlsaði í góðar 40 mínútur þangað til ég áttaði mig á að þetta var ekki venjuleg blæðing.
Við hringdum í sjúkrabíl, eftir að ég náði sambandi við kvennadeildina sem leist ekki á blikuna, þar sem allt var í blóði, ég og baðherbergið, og mig farið að svima og verða óglatt. Farið var með mig í forgangi beint upp á bráðamóttöku kvenna og hlaupandi inn á skurðstofu. Ég man bara eftir að hafa sagt; neiiii þetta er uppáhalds Nike-peysan mín, ekki klippa hana. Annars var ég gubbandi og líðandi út af áður en ég var svæfð aftur. Ég fór lóðbeint í aðra aðgerð, fékk neyðarblóð og var svo undir eftirliti á spítalanum í 36 tíma. Það gekk vel að loka fyrir og núna er bara að ná upp orkunni en þessi þreyta eftir svona mikinn blóðmissi er eitthvað annað level af þreytu fyrir mig.
Núna erum við á sjúkrahóteli þar sem þau vildu ekki að við færum vestur strax og erum hér í mjög góðu yfirlæti og ég næ að hvíla mig vel. Þetta eru síðustu dagar í mjög stuttu máli og mig langaði bara að segja takk fyrir ÖLL skilaboðin. Er ekki enn þá búin að vinna mig í gegnum þau öll, en ég fer líka enn þá að gráta þegar ég hugsa um hvað gerðist og hversu alvarlegt þetta var - svo ég er bara ekki alveg tilbúin í að skoða öll skilaboðin, þá græt ég bara meira Elsku, knús og baráttuknús frá einni sem neitar að gefast upp,” skrifaði hún við færsluna.
Smartland óskar Örnu góðs bata!