Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu er varðar langtímaafleiðingar af svepp á nöglum á fæti.
Góðan dag,
Hverjar eru langtímaafleiðingar af svepp á nöglum á fæti? Virka þessi lyf sem eru í boði, eins og Nailner frá Alvotech? Af hverju er svona erfitt að losna við sveppinn? Ég hef reynt margt, lyf, lökk, en hann kemur aftur og aftur.
Kveðja og takk fyrir,
G.
Sæl
Af hverju fær fólk sveppasýkingar?
Á húð okkar lifa milljónir baktería og sveppa í sátt og samlyndi við okkur. Yfirleitt valda þessar örverur engum skaða, en geta þó fjölgað sér úr hófi og þá farið að valda einkennum. Dæmi um þetta eru fótsveppir, sem eru með algengustu sýkingum sem koma fyrir hjá mannfólki. Ef álag er á húðinni og það myndast sár eða sprungur eiga sveppirnir greiðari leið með að valda sýkingu. Fólk er samt sem áður mismóttækilegt fyrir að sýkjast og þótt einn einstaklingur í fjölskyldu sé með fótsveppi er ekki víst að allir fjölskyldumeðlimir séu smitaðir, þótt áhættan sé vissulega meiri.
Sveppir þrífast best í hita og raka, enda eru sveppasýkingar á fótum algengar hjá íþróttafólki, þeim sem stunda mikið sund og fólki sem gengur í þéttum, lokuðum skóm. Sveppasýkingar smitast annaðhvort við beina snertingu sýkts svæðis eða við snertingu hlutar sem inniheldur húðfrumur með sveppum t.d. skór, sokkar, sturtubotnar, búningsherbergi og umhverfi sundlauga.
Rannsóknir sýna að fótsveppir eru gríðarlega algengir og íslensk rannsókn sýndi að 42% karla og 35% kvenna eru sýkt. Naglsveppir eru algengari hjá eldra fólki og fólki sem hefur verið með langvarandi fótsveppi og skaðaðar neglur eru einnig móttækilegri fyrir að sýkjast. Fótsveppir koma oft aftur þó að meðferð skili árangri og þess vegna er mikilvægt að hafa fyrirbyggjandi meðferðir í huga til að forðast endursmit.
Yfirleitt byrja húðeinkenni fyrst og síðan kemur smit í táneglur og til að fyrirbyggja naglsveppi er mikilvægt að meðhöndla húðeinkennin sem fyrst. Oft er sýking bæði í nöglum og húð en algengara er að um sé bara að ræða annan fótinn. Margir finna einkennandi táfýlu af sveppasýktum fótum.
Til eru 3 megineinkenni fótsveppa:
Táneglur sem eru sýktar með svepp eru gjarnan þykkar og með litabreytingum. Oftast sést gul eða hvít litabreyting en stundum brún eða rauð. Stundum verða sveppasýktar neglur lausar og geta jafnvel dottið af. Algengast er að stóra tánöglin sýkist.
Hvaða meðferðir er hægt að nota við sveppasýkingu í nöglum?
Ef meðferð er hafin snemma er oftast hægt að ráða við sveppasýkinguna með kremum sem fást án lyfseðils í apótekum. Þetta á þó ekki við um naglsveppi nema að sýkingin sé fremst í nöglinni, en ekki komin niður í naglrótina. Ef sýkingin er fremst í nöglunum getur meðferð með naglalakki sem inniheldur amorolfin hjálpað til og þá er það borið á neglurnar x2 í viku í minnst 6 mánuði. Fæst í öllum apótekum. Ef sýkingin hverfur ekki eða kominn er naglsveppur niður í naglrótina þarf að fá aðstoð heimilislæknis eða húðlæknis.
Yfirleitt eru notaðar Terbinafin-töflur en sú meðferð getur tekið 3-4 mánuði eða lengur. Við meðferð naglsveppa er mikilvægt að klippa reglulega sýktu neglurnar eins stutt og hægt er. Einnig er gott að þjala þær niður ef þær eru þykkar. Þetta flýtir fyrir að meðferðin skili árangri.
Almennt virka meðferðirnar vel en endursmit er algengt og því nauðsynlegt að huga að fyrirbyggjandi aðgerðum:
Kær kveðja,
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR