Einhvern tímann heyrðist sagt að ef blýanti væri komið fyrir undir rasskinnunum og hann héldist þar þá væri allt farið að síga og jafnvel kominn tími til að lyfta öllu upp. Hefurðu prófað?
Afturendar hafa fyllt miðlana, frétta- og samfélagsmiðla, síðustu árin. Eflaust hefur raunveruleikaþáttastjarnan Kim Kardashian átt einhvern þátt í því en það er „í tísku“ að hafa mjaðmir og rass – því meira því betra – að því er virðist.
Í sumum tilfellum er fullmikið af því góða og stórir kúlurassar eru oft ekki fengnir með æfingunum einum saman heldur með aðstoð lýtalækna en það er bæði kostnaðarsamt og sársaukafullt og ekki fyrir alla að taka þátt í slíku. Hin ágæta Kardashian hefur einnig látið framleiða hjólabuxur með áföstum rassapúðum fyrir vörumerki sitt SKIMS. Ef umsagnir um þessar framúrstefnulegu buxur eru skoðaðar má sjá að þær eiga það til að síga niður og púðarnir með, fyrir utan það líkti einhver notkun buxnanna við það að vera með bleyju.
Og fyrir þá sem nenna ekki að liggja á maganum svo vikum skiptir til að ná bata eftir „brazilian buttlift“-aðgerðina eða vera með gervipúðana lafandi niður á aftanverð læri, þá þarf aðeins smávegis aga og kannski eitt stykki jógadýnu til að halda hugmyndinni um æðislegan afturenda til streitu.
En hver er þessi gluteus maximus? Sterkur afturendi er ekki einungis góður fyrir útlitið, þótt það sé vissulega spennandi að vera með kúlurass, heldur er gluteus maximus stærsti vöðvi líkamans. Hann gegnir m.a. því hlutverki að veita mjöðmum og mjaðmagrind stöðugleika, styður við neðra bak og gerir hreyfingar skilvirkari, eins og á göngu, í hlaupum, hoppi og við lyftingar.
Það fer víst ekki fram hjá þeim sem stunda líkamsrækt að fólk er í alls kyns stellingum og hamast við æfingar sem geta alveg virst fáránlegar og jafnvel kynþokkafullar, allt til þess fallið að styrkja afturendann. Það er vissulega skemmtilegt að vera í ræktinni en tíminn er ekki alltaf til staðar.
Pssst ... Buttlift-æfingar er alveg hægt að gera heima í stofu, án lóða, og þá þarf hvorki að klæða sig í íþróttafatnaðinn né keyra í ræktina, heldur aðeins rúlla út dýnunni og skella sér á gólfið.
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá mjög skilvirkar, svolítið erfiðar, buttlift-æfingar frá pilates-kennaranum Lilly Sabri. Hún leggur mikla áherslu á að virkja vöðvana og stjórna hreyfingunum í æfingum sínum, sem er undirstaðan í pilates. Það getur verið óþolandi erfitt en það virkar!