Trefjar í Hafnarfirði ætla að taka þátt í Eurovision-fjörinu og bjóða fylgjendum sínum að giska á það í hvaða sæti sænska lagið Bara bada bastu lendir og eiga möguleika á að vinna saunu.
„Svíarnir vita hvað þeir syngja. Það er engin tilviljun að þjóðir sem eiga ríka sögu um saunuböð eru jafnframt þær hamingjusömustu. Við getum með sanni tekið undir textann sem gæti útlagst: „Nú förum við í saunu og losum alla streitu, förum bara í saunu, förum bara í saunu,“ segir Freyja Auðunsdóttir, markaðsstjóri Trefja, sem er rótgróið fjölskyldufyrirtæki í Hafnarfirði.
Svíum er spáð sigri í Eurovision í Basel á laugardag hjá veðbönkum en margt getur gerst þegar á hólminn er komið og víst er að það er spennandi laugardagskvöld framundan. Íslendingar munu flestir sitja límdir við skjáinn þar sem VÆB bæður munu stíga á sviðið á úrslitakvöldinu.
Á laugardaginn kemur svo í ljós hverjir komast í pottinn.
„Já eða saununa," bætir Freyja við og hlær.
„Við drögum út vinningshafa úr hópi þeirra sem giskuðu á rétt sæti og sá eða sú fær að gjöf forláta saunu sem ber nafnið Luma, gæðasaunu frá hinum virta framleiðanda Auroom í Eistlandi.“
Hún segist að sjálfsögðu fylgjast spennt með VÆB-bræðrum eins og öll þjóðin á laugardagskvöldið. „Við vitum að þeir láta ekkert stoppa sig af, eins og segir í laginu. Áfram Ísland!“
Svíarnir hafa vakið athygli ekki bara fyrir lagið heldur einnig sviðsframkomuna og klæðaburðinn. Söngvararnir þrír eru í hallærislegustu jakkafötum sem sést hafa og bindin eru eitthvað annað. Dansararnir eru í handklæðakjólum og með sánahatta sem hafa slegið í gegn að sögn Freyju.
„Við höfum verið með svona hatta í sölu hjá okkur og þeir seldust upp en við eigum von á annarri sendingu. Svo verðum við klárlega að fara að flytja inn svona kjóla eins og sænsku dansararnir eru í á sviðinu. Það er næsta mál á dagskrá,“ segir Freyja.