Tania Lind Fodilsdóttir hefur verið í fimmta gír frá unglingsaldri, gríðarlega metnaðarfull og varla stoppað síðan í framhaldsskóla. Hún hugsaði stöðugt um næstu skref þar til líkaminn stoppaði hana af.
Hárlos hefur fylgt Töniu frá 16 ára aldri en náði nýjum hæðum eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn. Á afdrifaríkum föstudegi tók hún rakvélina, rakaði af sér allt hárið og hélt að það versta væri yfirstaðið. Nokkrum mánuðum síðar voru hár úr augabrúnum og augnhár líka farin að detta af. Tania trúir því að það sé ástæða fyrir því að hún þurfti að ganga í gegnum þetta, þar sem þetta varð til þess að hún tók mataræðið og lífsstílinn gjörsamlega í gegn.
Hvenær fórstu fyrst að taka eftir hárlosi?
„Þegar ég var 16 ára skildu foreldrar mínir, það var ekki skemmtilegur skilnaður og honum fylgdi mikið áfall. Í kringum þann tíma fékk ég fyrsta skallablettinn minn,“ svarar Tania. „Hann var lítill, en það var mjög mikið sjokk.“
Árin í kjölfarið fór Tania að tengja hárlosið við áföll og streitu, en blettirnir komu og fóru á unglingsaldri, sem var erfið reynsla. Hún segist samt hafa reynt að sætta sig við ástandið, sem batnaði eftir því sem árin liðu.
Tania eignaðist sitt fyrsta barn, dótturina Ísabellu, og átti góða meðgöngu og fæðingu. Hún lýsir sjálfri sér í orlofinu sem þeytispjaldi út um allan bæ og segir það hafa verið æðislegt en þó mikið álag.
„Maðurinn minn var að opna kokteilastað, ég var mikið ein og á þeytingi eins og alltaf. Ég gekk út um allt, var úti um allt og ég var oft spurð hvort ég slakaði aldrei á,“ rifjar hún upp og hlær. „En svona er ég bara, hef alltaf verið og mér fannst þetta geggjað.“
Fimm mánuðum síðar upplifði hún þó alvörubugun. „Ég svaf illa og hún svaf illa. En þegar maður er í hringiðunni þá tekur maður ekki eftir þessu. Allt er svo gaman,“ segir hún.
Á þessum tíma fór hún að taka eftir því að skallablettir voru farnir að myndast aftur. „Ég hafði lent í því áður og hugsaði að þetta yrði svipað. En hárlosi fylgir alltaf stress því þú veist ekki hvar það endar.“
Til eru mismunandi tegundir af hárlosi (e. alopecia), sumt er tímabundið en annað varanlegt. Orsakirnar eru mismunandi, þetta getur verið ættgengt eða vegna hormónabreytinga, sjúkdóma eða lífsstíls.
„Ég hugsaði alltaf að það myndi aldrei koma fyrir mig að missa allt hárið. Ef það væri þannig þá væri það löngu búið að gerast. En svo verður þetta meira og meira. Ég var hætt að fá bletti en var að eiga við hárlos,“ segir hún.
„Þó að ég geti hlegið að mörgu núna þá var þetta ógeðslega erfitt og tók verulega á sálina. Á sama tíma var ég að feta mig áfram í nýju hlutverki, að vera mamma.“
Tania tók til í mataræðinu, hætti að borða glúten og hætti að drekka áfengi. Samhliða því tók hún inn ýmis vítamín og vann í sjálfri sér. Þó að hún væri að missa hár komu alltaf ný hár hratt aftur, sem var mjög jákvætt að hennar mati. Hárin komu fyrst hvít og urðu svo brún.
Hárlosið stóð yfir í nokkra mánuði og eftir um hálft ár fannst henni það minnka. „En á þessum tíma er þetta eins og að sitja og bíða eftir því að fá krabbamein. Þetta er stanslaust umhugsunarefni. Er nýr blettur? Hvaða hár eru að fara? Ég var gjörsamlega með þetta á heilanum. Ég var alltaf með það á bak við eyrað að ég gæti misst allt árið, þetta er þannig sjúkdómur.“
Streita einkenndi þennan tíma, að mati Töniu, sem segir að ástandið hafi rænt sig tímanum með dóttur sinni. Hún var yfirleitt annars hugar. Hún segir að á þessum tíma hafi hún misst um 80% af hárinu.
„Ég held að margir hefðu ekki giskað á hvað ég var að ganga í gegnum. Ég sé yfirleitt ljósið við enda ganganna og hugsaði alltaf að ég væri með hár, þó að það væri lítið, og ég gæti unnið með það.“
Á morgnana varði hún miklum tíma í að gera hárið á sér eins fínt og hún gat en hún segist ekki hafa getað sett hárið í tagl og hlaupið út. Hvassviðri var líka orðið kvíðaefni. Lausnir eins og hárlengingar björguðu þó miklu, að hennar mati. „Þegar dóttir mín var eins árs byrjaði ég aftur að vinna. Ég man að ég hugsaði: úff, ókei, ég er í tískubransanum og útlitið er smá mitt. En í gegnum þetta allt saman hugsaði ég líka: þetta er bara svona og ég get ekkert að þessu gert.“
Þetta var mikill óvissutími. Hárlosið fyrirfannst enn, ný hár héldu áfram að koma og hún hélt í vonina um að það væru bjartari tímar fram undan. Í lok maí 2023, um það bil níu mánuðum eftir að hárlosið hófst enn á ný, urðu tímamót að mati Töniu.
„Ég man að ég gat aftur byrjað að vera með miðjuskiptingu og það var klárlega út af öllu sem ég var að gera. Ég var samt stanslaust að pæla í þessu og því fylgdi streita.
Svo um miðjan október kemur vika sem er mjög undarleg,“ segir Tania. „Ég fæ mikið í magann, sem gerist aldrei. Ég steypist öll út í exemi og það er allt mjög skringilegt. Þetta varði í viku og um leið og það klárast, 23. október man ég, þá fer hárið að hrynja af mér.”
Þetta hárlos var öðruvísi en áður þar sem þetta gerðist mun hraðar. „Á þremur dögum leit ég út eins og ég væri í lyfjameðferð. Ég man ég fór í gegnum hárið með höndunum og ég hélt á helmingnum af hárinu. Það var ekki mikið fyrir en ég hef aldrei upplifað svona.“
Hver voru þín fyrstu viðbrögð þarna?
„Ég fylltist kvíða,“ svarar hún. „En í gegnum allan þennan tíma hafði ég alltaf hugsað að ef þetta færi að versna þá rakaði ég hárið af mér. Ég bara gat ekki gengið í gegnum þetta aftur, þetta er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Það er ekki hægt að lýsa því. Þegar þú horfir á sjálfa þig vera að missa hárið þá er hver einasti dagur erfiður. Ég var orðin mjög stressuð fyrir því að fara í sturtu. Að auki var ég að venjast því að eiga barn og ég veit ekki hversu mikið ég grét á þessum tíma.“
Hárlosið hófst á þriðjudegi en á föstudeginum rakaði hún af sér hárið.
„Ég tók rakvélina og rakaði það allt af. Eins viðbjóðslega erfitt og það var þá var það ekkert smá frelsandi. Ég man ég hugsaði: nú er þetta bara búið. Þarna var ég búin að taka minn helsta streituvald í burtu.“
Hún segist alltaf hafa verið fljót að aðlagast nýjum hlutum, sem hefur komið sér vel. Síðar sama dag tók hún mömmu sína með sér í verslun sem selur hárkollur.
„Ég man ég sat í stólnum og eins yndisleg og þessi kona var þá trúði ég ekki að ég væri þarna,“ segir hún. Hún mátaði hárkollur og gekk út með eina. „Fyrst var þetta mjög skrýtið, allt í einu var ég komin aftur með hnausþykkt hár. Daginn eftir fannst mér ég orðin geggjuð gella, þurfti ekki að spá í vind eða neitt og gat bara labbað út. Ég hélt að þetta væri búið þarna og það versta yfirstaðið.“
Tania tók ákvörðun um að fara á mataræði sem heitir Autoimmune Protocol Diet eða AIP. Mataræðið er algengt á meðal fólks með sjálfsofnæmissjúkdóma, exem, sóríasis eða hármissi. Hún var staðráðin í því að taka ekki inn lyf við sjúkdómnum heldur reyna að ná tökum á þessu með lífsstílsbreytingu. Ásamt þessu fór hún að hitta heilsumarkþjálfa sem kenndi henni að horfa öðruvísi á hlutina.
„Ég hef verið í fimmta gír allt mitt líf. Ég vildi klára fjölbrautaskólann á þremur árum, svo flytja út, gera hitt og þetta. Ég hafði alltaf verið svo framasinnuð og ég hafði ekki hugmynd um af hverju. Þetta er ekki pressa sem var lögð á mig af öðrum heldur pressa sem ég setti á sjálfa mig, ég vildi alltaf ná ótrúlega langt,“ segir hún. „Ég fór á viðskipta- og hagfræðibraut og ég er hræðileg í stærðfræði. En ég vildi bara sanna fyrir sjálfri mér að ég gæti tekið stærðfræði 300. Ég var alltaf að hugsa: hvað geri ég næst, hvar á ég að fara að vinna næst og gat aldrei leyft hlutunum bara að gerast. Ég horfði alltaf á þetta eins og ég væri með svo mikinn drifkraft en þetta er bara biluð streita.“
En nú hefur Tania verið að endurskipuleggja lífið. „Ég trúi því að líkaminn hafi beinlínis krassað þegar ég missti hárið. Ég hef verið á fullu síðan ég var sextán og loks núna eftir öll þessi ár, þegar ég var komin í aðeins rólegri vinnu en áður, líkaminn fékk að anda, þá hrundi líkaminn,“ segir hún.
„Heilsumarkþjálfun fékk mig til að horfast í augu við mína siði og venjur. Hvað geri ég fyrir sjálfa mig? Ég tók þessa spurningu til mín, þurfti verulega að hugsa og varð miður mín. Ég hef alltaf verið að drífa mig og það er ekkert nógu gott.“
Síðan gerist það sem hún hafði óttast innra með sér. „Þegar maður missir allt hárið þá hafa verið dæmi um að augabrúnir og augnhár fari eftir á og ég var alltaf með það á bak við eyrun. Þú vaknar ekki einn daginn og allt er farið, þetta gerist hægt og rólega. Þetta er eins og að deyja hægum dauðdaga,“ segir hún.
Tania kom heim eftir helgi í útlöndum með vinkonum og tók eftir að engin ný hár voru að koma á augabrúnirnar sem hafa alltaf verið nokkuð þykkar.
„Ég eyddi heilum degi í að gúgla, með kvíða og grátandi auðvitað. Ég er hálffrönsk og hef alltaf verið með mjög dökk hár,“ segir hún.
„Nokkrum vikum síðar voru meira og minna allar augabrúnirnar farnar. En þetta var mjög skrýtið, um leið og ég fór að missa þær þá fór ég að sjá ný hár á höfðinu. En svo tók ég eftir því að augnhárin voru farin að fara líka. Það var tímabil sem ég var ekki með nein augnhár, engar augabrúnir og engin hár á fótleggjunum.“
Hún hefur alltaf haldið í þá trú að rétt mataræði geti haft gríðarleg áhrif á líkamann og þau áföll sem hann verður fyrir. „Ég trúi á að mataræði og það að rétta líkamann af þegar hann er búinn að vera undir mikilli streitu,“ segir hún. „AIP-mataræðið tekur út allt glúten, allar baunir, öll fræ, áfengi, kaffi, egg, tómata, papriku, chili, sykur og mjólkurvörur. Þú mátt í rauninni ekki borða neitt nema prótín, sætar kartöflur, grænmeti og ber. Það er ekki gaman að borða ekki sykur, drekka ekki áfengi og vera týpan sem má ekki borða neitt. En fyrir langtímaávinning þarf að leggja vinnu í þetta og ég hugsaði þetta frekar þannig.“
Desember var erfiðastur á þessu mataræði en hún lýsir sér og manninum sínum sem miklum sælkerum. „Ég elska að fá mér rauðvín og borða góðan mat.“
Ásamt mataræðinu stundaði Tania nidra-jóga og gusu, nokkuð sem hún hélt að hún myndi aldrei finna sig í. „Oft þegar maður lendir í hárlosi þá fær maður ekki hár strax aftur. En það var jákvætt hjá mér hvað hárið kom fljótt aftur, sem sýnir að vinnan sem ég lagði í þetta var að skila sér. Ég setti mig í fyrsta sæti.“
Hún trúir því að hún hafi þurft að ganga í gegnum þetta; þetta hafi verið leið líkamans til að hægja á. „Kannski var þetta eina leiðin til að fá mig til að stoppa, horfa í kringum mig og hugsa: hvað er ég að gera? Ég verð ekki góður yfirmaður, starfsmaður, móðir eða maki ef ég er svona. Svo ég er þakklát líkamanum fyrir að láta mig vita. Það er sagt að þegar maður gengur í gegnum áföll þá þurfi líkaminn ekki á hári að halda, svo það er yfirleitt það fyrsta sem fer.“
Það hefur hjálpað henni og öðrum konum mikið að hún skyldi opna sig um þetta. „Mig langar að búa til samfélag fyrir konur sem eru að ganga í gegnum þetta. Ég hef talað við konur sem hafa farið í gegnum krabbameinsmeðferðir, þær misstu brjóstin en þeim fannst erfiðara að missa hárið. Það er rosalegt áfall að vakna á morgnana, ómáluð og líta út eins og sjúklingur.“
Hún segir að þó að lífsstíll hennar sé breyttur þýði það ekki að persónuleikinn sé það.
„Ég verð alltaf Tania sem er ör sem hefur gaman af því að vera á fullu. En það þarf að kunna að hægja á sér. Maður þarf ekki að verða forseti fyrir fertugt, hlutirnir gerast eins og þeir gerast.“
Karakterinn þinn kom sér vel á meðan þú gekkst í gegnum þetta, er það ekki?
„Ég er á þeim stað í dag vegna þess hvernig ég er. Ég er með drifkaft, keyri á hlutina og þori að tala um þá. Þetta á ekki að vera svona mikið mál og ég er þakklát fyrir að hafa gengið í gegnum þetta, eins galið og það er. En þetta fékk mig til að hugsa, læra að vinna með þetta og setja mörk. Það er gott að vita mörkin sín.“