„Ég hélt á helmingnum af hárinu“

Hárlosi fylgir yfirleitt mikil streita og algengt að fólk fái …
Hárlosi fylgir yfirleitt mikil streita og algengt að fólk fái það á heilann. mbl.is/Karítas

Tania Lind Fodils­dótt­ir hef­ur verið í fimmta gír frá ung­lings­aldri, gríðarlega metnaðarfull og varla stoppað síðan í fram­halds­skóla. Hún hugsaði stöðugt um næstu skref þar til lík­am­inn stoppaði hana af.

Hár­los hef­ur fylgt Töniu frá 16 ára aldri en náði nýj­um hæðum eft­ir að hún eignaðist sitt fyrsta barn. Á af­drifa­rík­um föstu­degi tók hún rakvél­ina, rakaði af sér allt hárið og hélt að það versta væri yf­ir­staðið. Nokkr­um mánuðum síðar voru hár úr auga­brún­um og augn­hár líka far­in að detta af. Tania trú­ir því að það sé ástæða fyr­ir því að hún þurfti að ganga í gegn­um þetta, þar sem þetta varð til þess að hún tók mataræðið og lífs­stíl­inn gjör­sam­lega í gegn.

Hvenær fórstu fyrst að taka eft­ir hár­losi?

„Þegar ég var 16 ára skildu for­eldr­ar mín­ir, það var ekki skemmti­leg­ur skilnaður og hon­um fylgdi mikið áfall. Í kring­um þann tíma fékk ég fyrsta skalla­blett­inn minn,“ svar­ar Tania. „Hann var lít­ill, en það var mjög mikið sjokk.“

Árin í kjöl­farið fór Tania að tengja hár­losið við áföll og streitu, en blett­irn­ir komu og fóru á ung­lings­aldri, sem var erfið reynsla. Hún seg­ist samt hafa reynt að sætta sig við ástandið, sem batnaði eft­ir því sem árin liðu.

Tania eignaðist sitt fyrsta barn, dótt­ur­ina Ísa­bellu, og átti góða meðgöngu og fæðingu. Hún lýs­ir sjálfri sér í or­lofinu sem þeyt­ispjaldi út um all­an bæ og seg­ir það hafa verið æðis­legt en þó mikið álag.

„Maður­inn minn var að opna kokteil­astað, ég var mikið ein og á þeyt­ingi eins og alltaf. Ég gekk út um allt, var úti um allt og ég var oft spurð hvort ég slakaði aldrei á,“ rifjar hún upp og hlær. „En svona er ég bara, hef alltaf verið og mér fannst þetta geggjað.“

Fimm mánuðum síðar upp­lifði hún þó al­vöru­bug­un. „Ég svaf illa og hún svaf illa. En þegar maður er í hringiðunni þá tek­ur maður ekki eft­ir þessu. Allt er svo gam­an,“ seg­ir hún.

Á þess­um tíma fór hún að taka eft­ir því að skalla­blett­ir voru farn­ir að mynd­ast aft­ur. „Ég hafði lent í því áður og hugsaði að þetta yrði svipað. En hár­losi fylg­ir alltaf stress því þú veist ekki hvar það end­ar.“

Til eru mis­mun­andi teg­und­ir af hár­losi (e. al­opecia), sumt er tíma­bundið en annað var­an­legt. Or­sak­irn­ar eru mis­mun­andi, þetta get­ur verið ætt­gengt eða vegna horm­óna­breyt­inga, sjúk­dóma eða lífs­stíls.

„Ég hugsaði alltaf að það myndi aldrei koma fyr­ir mig að missa allt hárið. Ef það væri þannig þá væri það löngu búið að ger­ast. En svo verður þetta meira og meira. Ég var hætt að fá bletti en var að eiga við hár­los,“ seg­ir hún.

„Þó að ég geti hlegið að mörgu núna þá var þetta ógeðslega erfitt og tók veru­lega á sál­ina. Á sama tíma var ég að feta mig áfram í nýju hlut­verki, að vera mamma.“

Tania vill ólm opna umræðuna um hárlos og hjálpa öðrum …
Tania vill ólm opna umræðuna um hár­los og hjálpa öðrum kon­um í sömu stöðu. mbl.is/​Karítas

Með hár­losið á heil­an­um

Tania tók til í mataræðinu, hætti að borða glút­en og hætti að drekka áfengi. Sam­hliða því tók hún inn ýmis víta­mín og vann í sjálfri sér. Þó að hún væri að missa hár komu alltaf ný hár hratt aft­ur, sem var mjög já­kvætt að henn­ar mati. Hár­in komu fyrst hvít og urðu svo brún.

Hár­losið stóð yfir í nokkra mánuði og eft­ir um hálft ár fannst henni það minnka. „En á þess­um tíma er þetta eins og að sitja og bíða eft­ir því að fá krabba­mein. Þetta er stans­laust um­hugs­un­ar­efni. Er nýr blett­ur? Hvaða hár eru að fara? Ég var gjör­sam­lega með þetta á heil­an­um. Ég var alltaf með það á bak við eyrað að ég gæti misst allt árið, þetta er þannig sjúk­dóm­ur.“

Streita ein­kenndi þenn­an tíma, að mati Töniu, sem seg­ir að ástandið hafi rænt sig tím­an­um með dótt­ur sinni. Hún var yf­ir­leitt ann­ars hug­ar. Hún seg­ir að á þess­um tíma hafi hún misst um 80% af hár­inu.

„Ég held að marg­ir hefðu ekki giskað á hvað ég var að ganga í gegn­um. Ég sé yf­ir­leitt ljósið við enda gang­anna og hugsaði alltaf að ég væri með hár, þó að það væri lítið, og ég gæti unnið með það.“

Á morgn­ana varði hún mikl­um tíma í að gera hárið á sér eins fínt og hún gat en hún seg­ist ekki hafa getað sett hárið í tagl og hlaupið út. Hvassviðri var líka orðið kvíðaefni. Lausn­ir eins og hár­leng­ing­ar björguðu þó miklu, að henn­ar mati. „Þegar dótt­ir mín var eins árs byrjaði ég aft­ur að vinna. Ég man að ég hugsaði: úff, ókei, ég er í tísku­brans­an­um og út­litið er smá mitt. En í gegn­um þetta allt sam­an hugsaði ég líka: þetta er bara svona og ég get ekk­ert að þessu gert.“

Þetta var mik­ill óvissu­tími. Hár­losið fyr­ir­fannst enn, ný hár héldu áfram að koma og hún hélt í von­ina um að það væru bjart­ari tím­ar fram und­an. Í lok maí 2023, um það bil níu mánuðum eft­ir að hár­losið hófst enn á ný, urðu tíma­mót að mati Töniu.

„Ég man að ég gat aft­ur byrjað að vera með miðju­skipt­ingu og það var klár­lega út af öllu sem ég var að gera. Ég var samt stans­laust að pæla í þessu og því fylgdi streita.

Tania tók lífsstílinn aldeilis í gegn eftir að hafa gengið …
Tania tók lífs­stíl­inn al­deil­is í gegn eft­ir að hafa gengið i gegn­um erfitt hár­los. mbl.is/​Karítas

Erfitt en frels­andi

Svo um miðjan októ­ber kem­ur vika sem er mjög und­ar­leg,“ seg­ir Tania. „Ég fæ mikið í mag­ann, sem ger­ist aldrei. Ég steyp­ist öll út í ex­emi og það er allt mjög skringi­legt. Þetta varði í viku og um leið og það klár­ast, 23. októ­ber man ég, þá fer hárið að hrynja af mér.”

Þetta hár­los var öðru­vísi en áður þar sem þetta gerðist mun hraðar. „Á þrem­ur dög­um leit ég út eins og ég væri í lyfjameðferð. Ég man ég fór í gegn­um hárið með hönd­un­um og ég hélt á helm­ingn­um af hár­inu. Það var ekki mikið fyr­ir en ég hef aldrei upp­lifað svona.“

Hver voru þín fyrstu viðbrögð þarna?

„Ég fyllt­ist kvíða,“ svar­ar hún. „En í gegn­um all­an þenn­an tíma hafði ég alltaf hugsað að ef þetta færi að versna þá rakaði ég hárið af mér. Ég bara gat ekki gengið í gegn­um þetta aft­ur, þetta er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegn­um. Það er ekki hægt að lýsa því. Þegar þú horf­ir á sjálfa þig vera að missa hárið þá er hver ein­asti dag­ur erfiður. Ég var orðin mjög stressuð fyr­ir því að fara í sturtu. Að auki var ég að venj­ast því að eiga barn og ég veit ekki hversu mikið ég grét á þess­um tíma.“

Hár­losið hófst á þriðju­degi en á föstu­deg­in­um rakaði hún af sér hárið.

„Ég tók rakvél­ina og rakaði það allt af. Eins viðbjóðslega erfitt og það var þá var það ekk­ert smá frels­andi. Ég man ég hugsaði: nú er þetta bara búið. Þarna var ég búin að taka minn helsta streitu­vald í burtu.“

Hún seg­ist alltaf hafa verið fljót að aðlag­ast nýj­um hlut­um, sem hef­ur komið sér vel. Síðar sama dag tók hún mömmu sína með sér í versl­un sem sel­ur hár­koll­ur.

„Ég man ég sat í stóln­um og eins ynd­is­leg og þessi kona var þá trúði ég ekki að ég væri þarna,“ seg­ir hún. Hún mátaði hár­koll­ur og gekk út með eina. „Fyrst var þetta mjög skrýtið, allt í einu var ég kom­in aft­ur með hnausþykkt hár. Dag­inn eft­ir fannst mér ég orðin geggjuð gella, þurfti ekki að spá í vind eða neitt og gat bara labbað út. Ég hélt að þetta væri búið þarna og það versta yf­ir­staðið.“

Tania telur líkamann hafa stoppað sig af og er þakklát …
Tania tel­ur lík­amann hafa stoppað sig af og er þakk­lát í dag. mbl.is/​Karítas

Tók lífs­stíl­inn í gegn

Tania tók ákvörðun um að fara á mataræði sem heit­ir Autoimmu­ne Protocol Diet eða AIP. Mataræðið er al­gengt á meðal fólks með sjálfsof­næm­is­sjúk­dóma, exem, sóríasis eða hár­missi. Hún var staðráðin í því að taka ekki inn lyf við sjúk­dómn­um held­ur reyna að ná tök­um á þessu með lífs­stíls­breyt­ingu. Ásamt þessu fór hún að hitta heil­su­markþjálfa sem kenndi henni að horfa öðru­vísi á hlut­ina.

„Ég hef verið í fimmta gír allt mitt líf. Ég vildi klára fjöl­brauta­skól­ann á þrem­ur árum, svo flytja út, gera hitt og þetta. Ég hafði alltaf verið svo fram­a­sinnuð og ég hafði ekki hug­mynd um af hverju. Þetta er ekki pressa sem var lögð á mig af öðrum held­ur pressa sem ég setti á sjálfa mig, ég vildi alltaf ná ótrú­lega langt,“ seg­ir hún. „Ég fór á viðskipta- og hag­fræðibraut og ég er hræðileg í stærðfræði. En ég vildi bara sanna fyr­ir sjálfri mér að ég gæti tekið stærðfræði 300. Ég var alltaf að hugsa: hvað geri ég næst, hvar á ég að fara að vinna næst og gat aldrei leyft hlut­un­um bara að ger­ast. Ég horfði alltaf á þetta eins og ég væri með svo mik­inn drif­kraft en þetta er bara biluð streita.“

En nú hef­ur Tania verið að end­ur­skipu­leggja lífið. „Ég trúi því að lík­am­inn hafi bein­lín­is krassað þegar ég missti hárið. Ég hef verið á fullu síðan ég var sex­tán og loks núna eft­ir öll þessi ár, þegar ég var kom­in í aðeins ró­legri vinnu en áður, lík­am­inn fékk að anda, þá hrundi lík­am­inn,“ seg­ir hún.

„Heil­su­markþjálf­un fékk mig til að horf­ast í augu við mína siði og venj­ur. Hvað geri ég fyr­ir sjálfa mig? Ég tók þessa spurn­ingu til mín, þurfti veru­lega að hugsa og varð miður mín. Ég hef alltaf verið að drífa mig og það er ekk­ert nógu gott.“

Síðan ger­ist það sem hún hafði ótt­ast innra með sér. „Þegar maður miss­ir allt hárið þá hafa verið dæmi um að auga­brún­ir og augn­hár fari eft­ir á og ég var alltaf með það á bak við eyr­un. Þú vakn­ar ekki einn dag­inn og allt er farið, þetta ger­ist hægt og ró­lega. Þetta er eins og að deyja hæg­um dauðdaga,“ seg­ir hún.

Tania kom heim eft­ir helgi í út­lönd­um með vin­kon­um og tók eft­ir að eng­in ný hár voru að koma á auga­brún­irn­ar sem hafa alltaf verið nokkuð þykk­ar.

„Ég eyddi heil­um degi í að gúgla, með kvíða og grát­andi auðvitað. Ég er hálf­frönsk og hef alltaf verið með mjög dökk hár,“ seg­ir hún.

„Nokkr­um vik­um síðar voru meira og minna all­ar auga­brún­irn­ar farn­ar. En þetta var mjög skrýtið, um leið og ég fór að missa þær þá fór ég að sjá ný hár á höfðinu. En svo tók ég eft­ir því að augn­hár­in voru far­in að fara líka. Það var tíma­bil sem ég var ekki með nein augn­hár, eng­ar auga­brún­ir og eng­in hár á fót­leggj­un­um.“

Rétti lík­amann af

Hún hef­ur alltaf haldið í þá trú að rétt mataræði geti haft gríðarleg áhrif á lík­amann og þau áföll sem hann verður fyr­ir. „Ég trúi á að mataræði og það að rétta lík­amann af þegar hann er bú­inn að vera und­ir mik­illi streitu,“ seg­ir hún. „AIP-mataræðið tek­ur út allt glút­en, all­ar baun­ir, öll fræ, áfengi, kaffi, egg, tóm­ata, papriku, chili, syk­ur og mjólk­ur­vör­ur. Þú mátt í raun­inni ekki borða neitt nema pró­tín, sæt­ar kart­öfl­ur, græn­meti og ber. Það er ekki gam­an að borða ekki syk­ur, drekka ekki áfengi og vera týp­an sem má ekki borða neitt. En fyr­ir lang­tíma­ávinn­ing þarf að leggja vinnu í þetta og ég hugsaði þetta frek­ar þannig.“

Des­em­ber var erfiðast­ur á þessu mataræði en hún lýs­ir sér og mann­in­um sín­um sem mikl­um sæl­ker­um. „Ég elska að fá mér rauðvín og borða góðan mat.“

Ásamt mataræðinu stundaði Tania ni­dra-jóga og gusu, nokkuð sem hún hélt að hún myndi aldrei finna sig í. „Oft þegar maður lend­ir í hár­losi þá fær maður ekki hár strax aft­ur. En það var já­kvætt hjá mér hvað hárið kom fljótt aft­ur, sem sýn­ir að vinn­an sem ég lagði í þetta var að skila sér. Ég setti mig í fyrsta sæti.“

Hún trú­ir því að hún hafi þurft að ganga í gegn­um þetta; þetta hafi verið leið lík­am­ans til að hægja á. „Kannski var þetta eina leiðin til að fá mig til að stoppa, horfa í kring­um mig og hugsa: hvað er ég að gera? Ég verð ekki góður yf­ir­maður, starfsmaður, móðir eða maki ef ég er svona. Svo ég er þakk­lát lík­am­an­um fyr­ir að láta mig vita. Það er sagt að þegar maður geng­ur í gegn­um áföll þá þurfi lík­am­inn ekki á hári að halda, svo það er yf­ir­leitt það fyrsta sem fer.“

Það hef­ur hjálpað henni og öðrum kon­um mikið að hún skyldi opna sig um þetta. „Mig lang­ar að búa til sam­fé­lag fyr­ir kon­ur sem eru að ganga í gegn­um þetta. Ég hef talað við kon­ur sem hafa farið í gegn­um krabba­meinsmeðferðir, þær misstu brjóst­in en þeim fannst erfiðara að missa hárið. Það er rosa­legt áfall að vakna á morgn­ana, ómáluð og líta út eins og sjúk­ling­ur.“

Hún seg­ir að þó að lífs­stíll henn­ar sé breytt­ur þýði það ekki að per­sónu­leik­inn sé það.

„Ég verð alltaf Tania sem er ör sem hef­ur gam­an af því að vera á fullu. En það þarf að kunna að hægja á sér. Maður þarf ekki að verða for­seti fyr­ir fer­tugt, hlut­irn­ir ger­ast eins og þeir ger­ast.“

Karakt­er­inn þinn kom sér vel á meðan þú gekkst í gegn­um þetta, er það ekki?

„Ég er á þeim stað í dag vegna þess hvernig ég er. Ég er með drif­kaft, keyri á hlut­ina og þori að tala um þá. Þetta á ekki að vera svona mikið mál og ég er þakk­lát fyr­ir að hafa gengið í gegn­um þetta, eins galið og það er. En þetta fékk mig til að hugsa, læra að vinna með þetta og setja mörk. Það er gott að vita mörk­in sín.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda