Áhrifavaldurinn og einkaþjálfarinn, Guðmundur Emil Jóhannsson, betur þekktur sem Gummi Emil, deildi á dögunum ítarlegum lista á Instagram þar sem hann gefur fylgjendum sínum ráð til að auka orku og ýta undir náttúrulega testosterónframleiðslu.
Gummi Emil hefur notið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum fyrir fjölbreytt heilræði. Þar leynist margt sniðugt sem fólk getur tileinkað sér, þótt sumt megi taka með fyrirvara. Til að mynda þurfti lögregla að fjarlægja hann af Suðurlandsvegi í fyrra eftir sveppaferðalag sem fór úr böndunum.
Svefn, næring, hreyfing og þakklæti eru fjögur heilræði Gumma Emils til að auka orku og efla náttúrulega testosterónframleiðslu.
Fyrir þau sem eiga börn, eru í fullu starfi og þurfa að sinna hefðbundnum heimilisstörfum gætu litið á þennan lista og hugsað:
„Guð minn almáttugur, hver hefur tíma fyrir þetta?“
Hafðu þá í huga að ráðin eru ekki hönnuð fyrir hinn dæmigerða jafnvægislífsstíl, heldur fyrir fólk eins og Gumma Emil sem hefur atvinnu af því að vera í toppformi og miðla alls kyns heilræðum. Lestu listann og settu fókus á það sem hentar þér og gæti bætt líf þitt í stað þess að reyna að framkvæma allt í einu. Gott jafnvægi heldur þér á réttri braut en öfgar geta fært þig út af henni.
Rannsóknir sýna að svefninn skipti sköpum fyrir bæði orku og hormónajafnvægi. Gummi hvetur þig til að sofa sjö til átta klukkustundir á nóttu og nota gleraugu sem eru með blágeislavörn þrjá til fjóra tíma fyrir háttinn.
Hann tekur magnesíum bisglycinate á kvöldin, forðast mat þrjá klukkutíma fyrir svefninn og sleppir vökva tvo klukkutíma fyrir svefn. Hann bannar skjátíma fyrir svefninn, les frekar bók og nýtur síðustu mínútnanna í hugleiðslu eða djúpöndun.
„Þú ert það sem þú borðar“ er gamall málsháttur sem Gummi hefur tileinkað sér. Hann leggur til að um 60–70 % mataræðisins sé dýraafurðir og þá helst íslenskt kjöt. Einnig mælir hann með sex eggjum á dag, þorskalýsi, lifur eða sardínum til að fá daglega omega-3 fitusýruskammtinn og auk ávaxta fyrir hraðvirk kolvetni.
Gummi fær sér allt að þrjár teskeiðar af sjávarsalti á dag og mælir með því að drekka vatn 10-30 mínútum eftir máltíðir til að styðja við meltinguna.
Flestir vita að regluleg hreyfing eykur orku og vellíðan, en Gummi leggur áherslu á lyftingar þrisvar til sex sinnum í viku, spretti tvisvar í viku, tíu til fimmtán þúsund skref daglega og þolæfingar þrisvar í viku í 45 mínútur, þar sem púslinn er við 120 -140 bpm. Svo má alls ekki gleyma að dýfa sér í kalda pottinn eða sjósund til að auka afkastagetu líkama og sálar.
Að lokum minnir Gummi á mikilvægi þakklætis. Á hverjum degi þakkar hann Guði fyrir styrkinn, fjölskyldu sína og vini, frelsið, friðinn og hinn dýrlega tilgang. Hann hvetur fylgjendur sína til að gera slíkt hið sama og hækka þannig tíðnina í eigin lífi.