Notkun gervigreindar (AI), sérstaklega spjallmenna á borð við ChatGPT, í sálfræðilegum tilgangi fer stöðugt vaxandi. Fólk notar þessa tækni til að fá ráðgjöf varðandi ýmis vandamál, hvort sem er í vinnu, skóla eða einkalífi. Á undanförnum mánuðum hefur umræðan um að nýta spjallmenni sem ókeypis sálfræðiaðstoð blossað upp á samfélagsmiðlum, en í kjölfarið lýsa sérfræðingar yfir áhyggjum sínum. Þótt tæknin geti verið gagnleg í ákveðnum tilfellum fylgja notkun hennar ýmsar hættur og takmarkanir.
Á TikTok má finna fjölmörg dæmi um unga notendur sem lýsa reynslu sinni af því að nýta spjallmenni til sálfræðilegs stuðnings. Í mars síðastliðnum voru tæplega 17 milljón myndbönd birt um þetta umræðuefni.
Samkvæmt nýlegri bandarískri könnun frá Tebra kemur fram að einn af hverjum fjórum Bandaríkjamönnum væri líklegri til að ræða vandamál sín við gervigreind frekar en að fara til sálfræðings. Notendur nefna oft kostnaðar- og aðgengisþætti sem ástæður, en spjallmenni eru ókeypis, alltaf tiltæk og gagnrýna ekki eða dæma.
Geðheilbrigðissérfræðingar hafa í auknum mæli varað við því að fólk líti á gervigreind sem staðgengil fyrir menntaðan meðferðaraðila. Dr. Kojo Sarfo, geðheilbrigðissérfræðingur sem prófað hefur að nota ChatGPT, segir í viðtali við Fox News að spjallmenni geti vissulega veitt ákveðinn stuðning en skorti mannlegan skilning og getu til að meta aðstæður.
„Forritið getur veitt stuðning og jafnvel gefið fólki tilfinningu fyrir því að einhver hlusti en það kemur aldrei í stað sérþjálfaðs meðferðaraðila sem hjálpar þér í gegnum flóknari vandamál,“ segir Sarfo. Hann bendir einnig á að spjallmenni geti hvorki greint geðraskanir, ávísað lyfjum né brugðist við alvarlegum krísum.
Þrátt fyrir þessar áhyggjur viðurkenna sérfræðingar að undir ákveðnum kringumstæðum geti spjallmenni verið gagnleg viðbót. Til dæmis getur gervigreind hjálpað fólki við að undirbúa sig fyrir heimsókn til læknis með því að lista einkenni og áhyggjur sem hægt er að ræða betur á fundinum sjálfum.
En sérfræðingar vara sérstaklega við að nota spjallmenni til að leita ráða við alvarlegum geðrænum vandamálum. Tæknin getur misskilið aðstæður og greinir ekki endilega hvort um neyðartilvik sé að ræða eða ekki.
Hversu gagnleg eða skaðleg reynist notkun spjallmenna fyrir geðheilsu er ennþá óljóst. Fyrstu rannsóknir benda til þess að áhrifin séu misjöfn. Í nýlegri rannsókn þar sem rætt var við 19 einstaklinga sem höfðu notað spjallmenni í stað sálfræðings, lýsti meirihluti þátttakenda jákvæðum áhrifum eins og bættum samskiptum við aðra, hjálp við að vinna úr áföllum og almennt betri líðan.
Hins vegar voru ekki allir á eitt sáttir. Einn 27 ára þátttakandi lýsti því að þegar kvíðaköstin voru verst hefði spjallmennið reynst ónothæft.
Gagnrýnendur líkja spjallmennum við plástur sem getur stöðvað blæðingu tímabundið og jafnvel auðveldað fólki að taka fyrsta skrefið í átt að frekari aðstoð. En að lokum sé þörf á mennskri hjálp til að veita dýpri og viðeigandi meðferð.
Með öðrum orðum geta spjallmenni eins og ChatGPT verið gagnlegt fyrsta skref eða viðbótarúrræði, sérstaklega fyrir þá sem hika við að leita hjálpar strax. Þau eru alltaf tiltæk, gagnrýna ekki og geta gefið góð ráð. Þó er ljóst að þau koma ekki í stað menntaðs meðferðaraðila þegar um alvarleg geðheilbrigðisvandamál er að ræða.
Hér að neðan má sjá nokkur TikTok-myndbönd varðandi umræðuefnið: