Ómar Ómarsson, eigandi Sólbaðsstofunnar Smart, lætur engan bilbug á sér finna þó að sólin skíni sitt skærasta um þessar mundir og segir að ásókn í ljósabekkina sé töluverð þrátt fyrir sól og hita í lofti.
Nú er sólin ykkar helsti samkeppnisaðili, er mikið að gera hjá ykkur þegar hún lætur sjá sig með þessum hætti?
„Já, það kæmi fólki nú alveg á óvart. Það er kannski ekki sami æsingur og aðra daga en það er alveg fínt að gera, sérstaklega þegar líður á daginn og á kvöldið,“ segir Ómar léttur.
Hann bætir við að fólk sem sitji inni allan daginn í t.a.m. skrifstofuvinnu og horfi á sólina út um gluggann kíki til þeirra eftir vinnu svo að oft sé mikið að gera á kvöldin. „Þá er ótrúlega mikið að gera.“
Ómar bendir á að sólin sé ekki beint að hjálpa þeim en af gefinni reynslu mun aðsóknin taka við sér á kvöldin. „Það er alveg ljóst að auðvitað er sólin ekkert að hjálpa okkur eins og á svona dögum en við vitum það að þegar líður á daginn að þá mun birta yfir þessu.“
Er fólk að koma og jafna út litinn hjá ykkur?
„Fólk er duglegt. Það er að fara í sund, hendir sér í tíma áður og svo á bakkann. Maður sér að það er mjög vinsælt,“ tekur Ómar fram en bendir á að meðan rólegt sé þá fari tíminn í að snurfusa stofuna.
„Við notum daginn núna í aukaþrif og að gera þetta snyrtilegt og fínt, nota tímann út af því að við fáum það kannski ekki alla daga. Það er bara þannig mikið að gera,“ segir Ómar og bætir við að lokum að allir ættu að skella sér í ljós, óháð veðurfari.