Gamla góða skúffukakan í uppáhaldi

María Gomez matarbloggari og talsmaður muna.is heldur úti einu vinsælasta matarbloggi landsins, paz.is. Hún rekur einnig stórt heimili en María á fjögur börn. Hún segir fjölskylduna oft njóta góðs af vinnu hennar í eldhúsinu, sérstaklega þegar hún bakar eitthvað nýtt fyrir bloggið. Í Heilsublaði Nettó talar hún um helstu hefðirnar þegar kemur að bakstri:  

Bakar þú reglulega fyrir fjölskylduna?

„Já, mjög reglulega. Stundum sérstaklega fyrir fjölskylduna en svo er ég líka mjög oft að þróa uppskriftir og baka vinnunnar vegna og þá nýtur fjölskyldan góðs af.“

Hvað verður þá helst fyrir valinu?

„Allt mögulegt, einhverra hluta vegna hafa einhvers konar kanilsnúðar og bananabrauð verið mest á boðstólum upp á síðkastið, en ég baka allt mögulegt annað líka eins og brauð, pítsur, alls kyns sætabrauð og líka oft hollustu eins og bananapönnsur og fleira í þeim dúr.“

Hvaða kökur eru í uppáhaldi hjá yngstu fjölskyldumeðlimunum?

„Það er tvennt sem er í mestu uppáhaldi á þessu heimili bæði hjá þeim eldri og þeim yngri, en það er gamla góða skúffukakan, hún er bara best. Þar á eftir koma án efa amerísku Cinnabon-snúðarnir með rjómaostakremi sem við höfum líka bakað í fjölda ára.“

Skiptir það þig máli að kenna börnunum þínum handtökin í eldhúsinu?

„Já, mér finnst það mikilvægt. Ég leyfi þeim t.d. stundum að skera með ögn beittari hníf en borðhníf. Ég kenni þeim að sjálfsögðu fyrst réttu handtökin og fer yfir reglurnar, svo eru þau undir ströngu eftirliti. Að læra á desilítramál, bollamál, matskeið og teskeið og að brjóta egg er eitthvað sem mér finnst að öll börn eigi að kunna en þau eru mjög fljót að læra og finnst yfirleitt mjög skemmtilegt að fá þessi hlutverk.“

Hvaða verkefni henta börnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í eldhúsinu og vilja taka þátt?

„Að fá að mæla og setja innihaldsefnin í kökur er til dæmis góð byrjun. Aðeins stálpaðri börn geta fengið að skera grænmeti. Það fær þau yfirleitt til þess að verða enn áhugasamari um að borða grænmetið, svo lauma þau oft bita og bita upp í sig á meðan.“

Hvaða kökur voru mest bakaðar á þínu heimili þegar þú varst að alast upp?

„Klárlega skúffukakan sem við bökum enn í dag og svo Dísudraumur eða Draumterta, en það er sama tertan sem gengur undir þessum tveim nöfnum. Ég er með þær báðar á blogginu hjá mér og þær eru með vinsælustu uppskriftunum þar enda er það gamla góða alltaf vinsælt og klassískt.“

Áttu þér uppáhalds hráefni þegar kemur að bakstri?

„Já, það er án efa pressuger, en ég tek það alltaf fram yfir þurrger ef það er hægt enda gerir það allan gerbakstur mikið mýkri og betri og líkari því sem fæst í bakaríum.“

Hvað ætlið þið börnin að baka fyrir okkur að þessu sinni?

„Við ætlum að gefa ykkur uppskrift að dásamlega góðum súkkulaðibita banana-muffins í hollari kantinum.“

Hráefni

• 250 g fínt MUNA spelt • 2 dl grófir hafrar frá MUNA • 2 tsk. vínsteinslyftiduft • 1 tsk. matarsódi • 30 g MUNA valhnetur (má sleppa) • ½ dl MUNA ólífuolía • 200 g MUNA hrásykur • 1 egg • 3 vel þroskaðir bananar • 1 ½ dl grísk jógúrt • 100 g dökkir súkkulaðidropar eða smátt skorið 70% súkkulaði

Aðferð

1. Stillið ofninn á 180°C hita með blæstri (190°C ef þið eruð ekki með blástursofn). 2. Byrjið á að sækja stóra skál og setja í hana hveiti, lyftiduft, matarsóda, haframjöl, salt og valhnetur. 3. Sækið svo aðra minni skál og setjið eggið og sykurinn í hana. Notið písk til að hræra hratt saman egg og sykur, þar til það er orðið létt og ljóst. 4. Setjið olíuna og grísku jógúrtina út í eggin og pískið áfram þar til blandan er enn ljósari og svolítið þykk. 5. Setjið næst bananana í blandara og maukið vel eða stappið vel með gaffli (mér finnst miklu betra að setja í blandara). 6. Bætið þeim svo út í skálina með blautefnunum og hrærið vel saman. 7. Setjið næst súkkulaðidropana saman við hveitið og hrærið vel saman áður en blautefnunum er bætt við. 8. Hellið úr skálinni með eggjunum og blautefnunum yfir í þurrefnaskálina og hrærið saman með sleif en eins lítið og þið komist upp með svo kökurnar verði ekki seigar. 9. Skiptið næst deiginu milli 12 muffins-forma en ég mæli með að eiga álform til að hafa undir pappaformin og spreyja pappaformin að innan með bökunarspreyi eins og Pam. 10. Bakið í 20-25 mín. en gott er að stinga prjóni í miðja köku eftir 20 mín. og ef hún er ekki alveg bökuð þá leyfa kökunum að bakast í 5 mín. í viðbót. 11. Það má líka setja deigið í brauðform og gera brauð í stað muffins en þá spreyja ég formið með bökunarspreyi fyrst og baka í 45-50 mín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda