Í Jörfatúni í Svarfaðardal búa hjónin Sólveig Lilja Sigurðardóttir og Friðrik Arnarson. Hjónin tóku fyrstu skóflustunguna að húsinu árið 2002 og fluttu inn tveimur árum síðar. Garðurinn í kring fór smám saman að taka á sig mynd og er hann sameiginlegt verk þeirra hjóna auk þess sem börnin þeirra fjögur hafa tekið virkan þátt í garðverkunum.
Jörfatún stendur í litlu hverfi í sveitinni, um fimm kílómetra frá Dalvík, og er hverfið, sem samanstendur af um tug húsa, ýmist kallað Laugahlíðin, eftir landi jarðarinnar sem hverfið reis á, eða Tjarnartorfan, eftir kirkjustaðnum Tjörn sem er í næsta nágrenni. Áður en nýjustu einbýlishúsin fóru að rísa á svæðinu um og eftir aldamótin 2000 voru þarna aðallega gömul tún, mýrlendi og móar en elsta byggingin á svæðinu er Sundskáli Svarfdæla sem vígður var árið 1929 og stendur Jörfatún rétt neðan hans,“ segir Sólveig um hverfið sem þau búa í.
Sólveig lýsir garðinum sem „villisveitagarði“ en hann er um 2.000 fermetrar og er ekki afgirtur þannig að hann rennur saman við náttúruna í kring. „Það er erfitt að ætla sér að vera með fínan garð þegar alls kyns misvelkominn gróður vex allt í kring en við erum ekkert að stressa okkur of mikið á því þó eitthvað flokkað sem illgresi vaxi í garðinum enda ekki vinnandi vegur að ætla að losna við það allt. Garðurinn er áhugamál okkar beggja og við förum að stússast í honum snemma á vorin og garðverkin halda áfram allt sumarið og langt fram á haust. Við tókum samt strax þá ákvörðun að garðurinn ætti aldrei að verða kvöð enda þurfum við að sinna ýmsu öðru, vinnu, fjölskyldu og öðrum áhugamálum,“ segir Sólveig.
Garðurinn í Jörfatúni hefur stækkað smátt og smátt og ef þeim dettur eitthvað í hug framkvæma þau hugmyndir sínar þó stundum líði einhver ár á milli.
„Hér er mjög grunnt niður á grjóturð og nær öll mold til ræktunar hefur verið flutt að. Mest höfum við sótt hingað og þangað úr sveitinni og flutt heim í kerru. Þær eru ófáar hjólbörurnar sem ekið hefur verið hér um garðinn og öllu yfirleitt handmokað en í örfá skipti höfum við fengið vélar í verk, til dæmis þegar brekkan austan við húsið var löguð til og gerðir tveir stallar. Sunnan við hús hellulögðum við pall og stigi gengur þaðan niður á flöt sem við sléttuðum en annars er landslagið í garðinum að mestu eins og landið lá fyrir. Við notum grjót og timbur til að afmarka beð eða hækka þau upp og það þarf auðvitað að laga þau og bæta reglulega. Við höfum yfirleitt verið í framkvæmdum í garðinum á hverju ári þar sem einhverju er bætt við eða öðru breytt. Eitt árið var geymsluhús fyrir ýmis áhöld reist, grænmetisgarði var komið upp og seinna settum við uppbyggð beð í hann. Svo byggðum við 15 fermetra gróðurhús og kofa sem hýsti hænur í nokkur ár en gegnir núna hlutverki eldiviðarskúrs. Við komum okkur upp heitum potti og steyptum stétt undir hann, elsti sonurinn hlóð torfvegg vestan við allt húsið fyrir tveimur árum og við grófum snemma fyrir lítilli tjörn sem var klædd með tjarnardúk. Hún hefur tvisvar verið færð vegna annarra framkvæmda. Fyrstu árin vorum við með grjót í botninum en það gerði það að verkum að meira verk var að hreinsa tjörnina svo hin síðari ár er dúkurinn bara ber og það kemur vel út. Þar sem tjörnin er afrennslislaus þá höfum við lítinn gosbrunn í henni til að koma hreyfingu á vatnið og þá þarf ekki að tæma hana eins oft og þrífa en við þurfum samt að gera það tvisvar til fjórum sinnum yfir sumarið. Mér finnst ósköp notalegt að heyra gutlið í vatninu þegar setið er úti á palli.“
„Við höfum flutt þó nokkuð af trjágróðri annars staðar frá. Flest birkitrén eru ættuð úr vegköntum við skógreiti þar sem stóð til að fella þau vegna vegaframkvæmda og við fengum góðfúslegt leyfi til að taka þau upp. Þau voru í kringum mittishæð þegar þau voru flutt hingað en hafa tekið við sér hér síðustu ár. Reyniviðartrén eru nær öll sjálfsáð og hafa sprottið upp þar sem fuglar hafa skilað berjum af sér. Sum fá að vaxa óáreitt en önnur höfum við flutt til. Runnarnir og önnur tré í garðinum eru aðallega keypt í gróðrarstöðvum hér fyrir norðan og oft er ég með þetta í pottum fyrst um sinn og svo eru plönturnar settir niður einhvers staðar í garðinum þegar þær stækka. Það er samt ekki auðvelt að vera runni eða tré í Svarfaðardal á snjóþungum vetrum. Á hverju ári þarf að fjarlægja fjöldann allan af brotnum greinum og hér er lítið um beinvaxin tré. Sum árin er eins og greinum hafi verið flett af eins og bananahýði og verst var þetta óveðursveturinn 2019-20. Það var samt ótrúlegt hvað grenitrén stóðu þetta af sér, þó þau kengbognuðu þá voru þau búin að rétta sig af um vorið.“
Lítið er um hefðbundin blómabeð í garðinum og segir Sólveig að óæskilegur gróður taki yfir slík beð. „Blómin eru því flest í kössum eða blómapottum. Ég forrækta þau inn í gróðurhúsinu og svo fara þau út þegar maður telur það óhætt. Það fara yfirleitt fram heilmiklir flutningar á hverju vori þegar pottar eru bornir út og inn úr gróðurhúsinu kvölds og morgna. Þar inni eru viðkvæmari kryddjurtir eins og oreganó og rósmarín sem lifir stundum veturinn af ef því er skýlt. Þar eru líka hindber, bláber og vínviður sem gefur ótrúlega mikið af sér þrátt fyrir að húsið sé óupphitað. Eftir að blómgun hefst síðla vors þurfum við samt að setja upp rafmagnshitablásara þegar hætta er á næturfrosti. Við ræktum líka belgbaunir og matlauka í gróðurhúsinu og erum með nokkrar jarðarberjaplöntur í pottum svona til að geta smakkað jarðarber snemma. Annars eru jarðarberin aðallega í beðum í garðinum. Þar eru líka nokkrir rifsberjarunnar og sólberin eru dugleg að sá sér út. Fuglarnir fá t.d. alveg heila brekku af sólberjum út af fyrir sig.“
„Við setjum niður kartöflur á hverju vori en hlutdeild þeirra í grænmetisgarðinum hefur farið minnkandi og gulrætur, rófur, kálplöntur, salat og rauðrófur fengið meira pláss. Eitt beðið er tileinkað kryddjurtum eins og nokkrum gerðum af myntu, sítrónumelissu, graslauk og kúmeni en það er mjög duglegt að sá sér út. Við höfum aldrei eitrað neitt og notum bara húsdýraáburð svo þetta telst líklega nokkuð lífræn ræktun. Ég set bara nóg af flauelsblómum með kálinu og rófunum og það hefur dugað til að verjast kálflugunni, auk þess sem ég hef akrýldúk yfir plöntunum fram á sumar.“
Næst á dagskrá er að bæta við aðstöðuna til að elda úti.
„Við höfum mikla ánægju af garðinum og verjum þar ófáum stundum. Með auknum gróðri hefur fuglalífið aukist og það eru alltaf nokkur hreiður hér og þar í garðinum, á húsinu eða kofunum. Þegar veður er gott er gjarnan eldað og borðað úti, jafnvel yfir vetrartímann. Það er á dagskránni að koma upp litlu útieldhúsi en við notum ýmist grill, muurikkapönnu á gasi, pizzaofn eða eldstæði við eldamennskuna. Það er afar notalegt að sitja við eldstæði, ekki síst á síðkvöldum og hella upp á ketilkaffi, poppa, baka snúbrauð eða bara slaka á og njóta þessa dásamlega útsýnis sem við höfum hér í Jörfatúni.“