Förðunarfræðingurinn Heiður Ósk Eggertsdóttir og knattspyrnumaðurinn Steven Lennon hafa sett fallega íbúð sína í Hafnarfirði á sölu. Þau ákváðu nýverið að fara hvort í sína áttina eftir níu ára samband, en þau eiga saman einn son.
Heiður hefur getið sér gott orð í förðunarheiminum. Hún er eigandi Reykjavík Makeup School og HI beauty ásamt Ingunni Sigurðardóttur. Nýverið gáfu vinkonurnar svo út fyrstu vörurnar undir eigin snyrtivörumerki sem kallast Chilli in June.
Steven á að baki langan og farsælan knattspyrnuferil, en hann lagði skóna á hilluna í byrjun febrúar. Hann spilaði í þrettán ár á Íslandi, fyrst með Fram í þrjú ár og síðan með FH í tíu ár. Steven er í fjórða til fimmta sæti yfir markahæstu leikmenn efstu deildar karla, en hann skoraði 101 mark í 215 leikjum í efstu deild og varð Íslandsmeistari með FH árin 2015 og 2016.
Eignin sem um ræðir er 122 fm að stærð og er á jarðhæð í þríbýlishúsi sem reist var árið 1966. Hún hefur verið innréttuð á sjarmerandi máta og státar af þremur svefnherbergjum og einu baðherbergi.
Stofa og borðstofa eru samliggjandi í opnu rými með stórum gluggum sem hleypa mikilli birtu inn. Á gólfi má sjá fallegt fiskibeinaparket sem tónar vel við ljósa litapallettu sem flæðir í gegnum íbúðina. Í borðstofunni má svo sjá formfagra hönnunarljós Vertigo úr smiðju Constance Guisset.
Í eldhúsinu eru hlýir tónar allsráðandi, en þar má sjá U-laga innréttingu með efri skápum á einum veggi. Skemmtileg kalkáferð á hliðum innréttingarinnar, borðplötu og hluta veggja setja svip sinn á rýmið og búa til skemmtilegan karakter.