Ágúst Ólafur Ágústsson og Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir prýða forsíðu Garðablaðs Morgunblaðsins sem fylgir blaðinu í dag. Hjónin búa á Seltjarnarnesi og fluttu inn í húsið fyrir þremur árum síðan og segjast hafa verið að dytta að bæði húsinu og garðinum síðan þá. Þau taka skýrt fram að þau séu engir sérfræðingar í garðrækt en séu að prófa sig áfram og læra.
„Eins og allt miðaldra fólk þá erum við farin að uppgötva gildi þess að rækta garðinn sinn. Við höfum því verið að kynnast þessu skemmtilega verkefni sem er ræktun og garðvinna. Við erum búin að planta nokkrum trjám og blómum í garðinum en ræktunin fer helst fram í gróðurhúsinu. Að vinna í garðinum og að plöntum getur einnig virkað sem ákveðin heilun sem við bæði getum vel mælt með. Svo er líkamleg áreynsla, s.s. öflugur sláttur eða utanhússmálun, alltaf gulls ígildi.“
Þau segjast hafa verið að prófa sig áfram í ræktuninni og ekki síst matjurtaræktun.
„Við höfum verið að prófa ýmislegt, ekki síst í gróðurhúsinu. Nú eru það tómataplöntur, sítrónutré, rósir, vínberjaviður, hindberjatré, jarðarber og mandarínur sem eru mest áberandi. Svo erum við auðvitað að rækta basilíku, myntu, graslauk, kóríander, klettasalat og steinselju svo eitthvað sé nefnt og núna er þetta allt að byrja að taka við sér. Nánast á hverjum morgni er hlaupið út í hús og er mikill fögnuður við hverja græna sprettu sem finnst,“ segja þau og bæta við að Ágúst hafi fengið fallegt gullregn frá Jóhönnu í morgungjöf eftir brúðkaupið.
„Við reynum við að hlúa mjög vel að því, rétt eins og að hjónabandinu. Annars sér hundurinn okkar hann Loki samviskulega um vökvun á trénu.“
Nýlega bættu þau við gróðurhúsi sem setur mikinn svip á garðinn en í kringum það er stór pallur með grófum húsgögnum úr pallettum. En hvers vegna réðust þau í kaup á stóru garðhýsi?
„Hugmyndin að því að fá okkur garðhýsi spratt upp þegar við héldum brúðkaupið okkar í garðinum en þá settum við upp gott veislutjald þar sem gestir dönsuðu fram á rauða nótt. Þá sáum við að á þessum stað væri góð hugmynd að hafa gróðurhús og var það risið ári seinna.“
HÉR er hægt að lesa Garðablaðið.