„Við viljum frekar gera þetta rólega og njóta þess“

Fríða Björk Sandholt í garðinum sem er að hluta til …
Fríða Björk Sandholt í garðinum sem er að hluta til í halla.

Árið 2016 keypti Fríða Björk Sandholt og maðurinn hennar, Birgir Þór Leifsson, hús tilbúið undir tréverk. Þegar fjölskyldan fékk húsið var garðurinn bara grjót og klöpp. Fjölskyldan hefur smátt og smátt verið að gera garðinn að sínum.

Fríða Björk segir að það hafi þurft að byrja á því að brjóta stórar klappir í garðinum með fleyg. Í verkið þurfti beltagröfu og það fóru líklega hátt í 20-25 stórir vörubílar með grjót og jarðveg úr garðinum sem þurfti að skipta út.

Það þurfti marga vörubíla til þess að keyra grjótið úr …
Það þurfti marga vörubíla til þess að keyra grjótið úr garðinum. Ljósmynd/Aðsend

„Við steyptum líka vegg í garðinum því að garðurinn er í miklum halla og okkur fannst það besta lausnin til að losna við að hafa allan garðinn í halla. Veggurinn var líka hugsaður til að mynda skjól við pallinn sem kemur til með að fljóta fyrir hornið á húsinu. Við hliðina á veggnum er brekka, sem við vildum halda í, því að hún er tilvalin snjóþotubrekka á veturna þegar snjóar,“ segir Fríða Björk og bætir við:

„Þar sem við ákváðum að tyrfa garðinn, þá þurfti að slétta úr jarðveginum eftir að búið var keyra allt grjót í burtu. Svo fóru einhver tonn af mold í garðinn og svo torf þar ofan á. Við eigum enn langt í land að klára garðinn, en núna erum við nýbúin að setja beð meðfram lóðarmörkum sem við settum jurt í sem heitir „músargin“ en það er skriðjurt sem dreifir úr sér og blómstrar fallegum fjólubláum blómum í júlí og ágúst. Það eru líklega einhver ár í að hún verði búin að þekja allt beðið, en það var hugsunin, að hafa beðið alveg fjólublátt meðfram veggnum við lóðarmörkin. Við erum líka búin að setja hvíta möl meðfram húsinu og meðfram beðunum í garðinum, bæði af því að okkur finnst það snyrtilegt og eins er einfaldara að slá garðinn þegar mölin er meðfram beðum og veggjum og auðveldara að koma sláttuvélinni alveg að kantinum,“ segir hún. 

Fjölskyldan hefur ekki gróðursett neitt við vegginn sem þau steyptu við brekkuna en sá veggur hefur verið notaður í boltaleiki og því hafa þau beðið með að setja plöntur þar.

„Á bak við hús er mjög brött brekka sem erfitt væri að slá, svo að þar settum við berjalyng sem þarf ekki að hugsa neitt um, nema að vökva það ef það er mikill þurrkur. Berjalyngið er líka fallegt og náttúrulegt og mjög algengt í görðum í hverfinu þar sem hverfið er byggt í miklum halla,” segir Fríða um garðinn sem er byrjaður að taka á sig mynd.

Svona lítur garðurinn út í dag en hann er enn …
Svona lítur garðurinn út í dag en hann er enn í vinnslu.

Úrræðagóð í framkvæmdunum

Vinda garðframkvæmdir upp á sig eins og aðrar framkvæmdir?

„Já, þær geta gert það. Í okkar tilfelli var byrjað að nota litla beltagröfu sem reyndist svo alls ekki nóg, þar sem það þurfti að brjóta og fleygja úr stórum klöppum. Viðar, sá sem kom fyrst til okkar, var samt ótrúlega klár á gröfuna og náði að vinna heilmikið í garðinum, en það kom samt að því að við þurftum stærri gröfu og þá fengum við snillingana hjá dráttarbílar.is til að koma og græja þetta fyrir okkur. Marinó og félagar hjá Dráttabílar.is voru ótrúlega liðlegir og kláruðu að moka úr garðinum það sem þurfti að losa og settu svo mold yfir allt og sléttuðu úr henni svo hægt væri að tyrfa.“

Grafan kom að góðum notum í grunnvinnunni.
Grafan kom að góðum notum í grunnvinnunni. Ljósmynd/Aðsend

Hefur eitthvað komið á óvart í ferlinu?

„Það kom okkur aðeins á óvart hvað það var mikið efni sem þurfti að keyra úr garðinum, því að þegar búið var að fleygja og brjóta, þá varð þetta svo mikið að hrúgurnar sem voru í garðinum voru nánast jafn háar og húsið.“

Er eitthvað sem þið hafið lært eða eru einhver góð ráð sem þið teljið að gagnist öðrum sem eru að ráðast í framkvæmdir í garðinum?

„Að finna góða menn í verkið skiptir öllu máli, að fá menn sem vinna vel og vita hvað þeir eru að gera. Að vera búin að undirbúa sig vel áður en ráðist er í verkið og vita nokkurn veginn hvernig þú vilt hafa hlutina. Að sjálfsögðu er alltaf eitthvað sem breytist í ferlinu, en það er mjög gott að hafa plan og fara eftir því eins vel og hægt er. Eitt ráð í viðbót er að gera raunhæfa kostnaðaráætlun, því að svona verk kosta alltaf sitt. Það telur allt, gröfumenn, vörubílar, efni og fleira.“

Það þurfti að slétta garðinn áður en grasið var sett …
Það þurfti að slétta garðinn áður en grasið var sett á. Þau ákváðu þó að halda í sleðabrekku efst í garðinum. Ljósmynd/Aðsend

Er hægt að spara í garðframkvæmdum?

„Ef maður getur gert eitthvað sjálfur í þessari vinnu, þá getur þú sparað þér kostnað sem annars færi í iðnaðarmenn. Við höfum gert ótrúlega mikið sjálf í garðinum og reynum að gera það sem við getum sjálf. Við fengum líka góða hjálp t.d. þegar við vorum að tyrfa, en þá komu bróðir minn og mágkona og hjálpuðu okkur að tyrfa garðinn og börnin okkar voru virkjuð þann dag líka og voru ótrúlega dugleg að tyrfa með okkur. Yngsta dóttir okkar var þá tæplega eins árs og þá var mikil hjálp í því að fá foreldra mína til að vera með hana á meðan allir aðrir voru úti í garði að vinna.“

Fjölskyldan hefur sparað með því að hjálpast að. Hér má …
Fjölskyldan hefur sparað með því að hjálpast að. Hér má sjá þau tyrfa garðinn. Ljósmynd/Aðsend
Hér má sjá Fríðu tyrfa garðinn.
Hér má sjá Fríðu tyrfa garðinn.

Sló grasið kasólétt

Fjölskyldan valdi að hafa gras þó svo að það þurfi að hafa aðeins fyrir því.

„Okkur finnst í fyrsta lagi hlýlegt og fallegt að hafa grasið. Við eigum líka fjögur börn og garðurinn var mikið til hannaður með það í huga að þau gætu notað garðinn og leikið sér til dæmis í fótbolta og farið með pútterinn sinn út að æfa sig. Mér finnst garðvinna mjög skemmtileg og fyrir mér er það í raun svolítil slökun að fara út í garð að slá. Sumarið sem yngsta barnið okkar fæddist tók ég það til dæmis ekki í mál að einhver annar en ég myndi fá að slá grasið og því var ég úti í garði að slá, gengin 36 vikur.“

Fríða hefur gaman af garðvinnu og sló garðinn kasólétt.
Fríða hefur gaman af garðvinnu og sló garðinn kasólétt. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig lítur draumagarðurinn ykkar út?

„Draumagarðurinn okkar er snyrtilegur og hlýlegur, með fallegum gróðri í garðinum fyrir framan og að sjálfsögðu er stefnan tekin á að klára pallinn á bak við og jafnvel setja þar heitan pott. En það er markmið næstu ára, því að það liggur ekkert á. Við viljum frekar gera þetta rólega og njóta þess.“

Í miðju verki.
Í miðju verki. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál