„Ég lærði það í New York að allt er hægt“

Erik Rimmer aðalritstjóri BO BEDRE segir að hugmyndir fólks um …
Erik Rimmer aðalritstjóri BO BEDRE segir að hugmyndir fólks um gott líf hafi breyst á tíu árum. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Erik Rimmer, aðalritstjóri danska hönnunartímaritsins BO BEDRE, segir að heimsbyggðin sé að ganga í gegnum miklar breytingar um þessar mundir. Eldra fólk er búið að eignast allt og unga fólkið kýs frekar að gera upp gömul húsgögn í stað þess að kaupa ný. Hvernig varð feiminn blaðamaður ritstjóri á einu virtasta hönnunartímariti okkar tíma og hvað gerist næst þegar háværar raddir halda því fram að prentið sé dautt?

Erik Rimmer var staddur hérlendis á dögunum í tengslum við HönnunarMars og var með erindi í Landsbankanum um fjárfestingar og hönnun. Það var þó ekki í fyrsta skipti sem hann heimsækir Ísland því þessi hrjóstruga og kalda eyja virðist eiga samtal við hjartað í honum. Hann vissi hvernig hann ætti að klæða sig í þessari sjöundu heimsókn til landsins og var í svartri kasmírpeysu og ófóðrum ullarjakka þegar við drukkum saman kaffi á Edition-hótelinu. Rimmer er ekki bara fagurkeri sem hefur áhuga á húsgögnum, listaverkum og óperum. Hann er spariskór eins og við vinkonurnar myndum kalla hann og trúir mér fyrir því að í síðustu íbúð sem hann bjó í hafi hann verið tvö fataherbergi. Svo var hann á lista yfir best klæddu menn Danmerkur.

„Það er mikill heiður að komast á lista yfir best klæddu menn landsins en það er líka vandamál því þú þarft alltaf að vera að huga að klæðaburði þínum,“ segir Rimmer og hlær og gantast með að það hafi verið skellur að detta út af listanum. Á HönnunarMars var ekki þverfótað fyrir fallega klæddu fólki en Rimmer hefur orð á því hvað fólkið í hönnunarheiminum hérlendis sé duglegt. Oftar en ekki í tveimur vinnum og svolítið hresst. Kannski svolítið eins og veðurfarið.

„Á Íslandi er náttúran svo falleg en á sama tíma hættuleg. Ég hef farið upp á Vatnajökul og til Vestmannaeyja. Ég hef líka keyrt hringinn um landið og gert túristalega hluti á Íslandi,“ segir Rimmer.

„Það er svo magnað að finna kraftinn í fólki,“ segir Daninn sem fæddist á Jótlandi en býr í dag á tveimur stöðum í Danmörku ásamt eiginmanni og tveimur hundum.

Hér má sjá útsýnið út um gluggann á heimili Eriks …
Hér má sjá útsýnið út um gluggann á heimili Eriks í miðbæ Kaupmannahafnar. Ljósmynd/Erik Rimmer

„Við erum með íbúð í miðbæ Kaupmannahafnar og svo eigum við stórt hús norður af Kaupmannahöfn sem skartar fallegri náttúru. Á veturna er ég mikið í Kaupmannahöfn og við dveljum í húsinu um helgar en yfir sumartímann erum við meira í húsinu,“ segir hann. Forvitni hefur leitt hann áfram og hann hefur sérlegan áhuga á menningu og sögu. Hann er með sjö prófgráður en fann sjálfan sig þegar flutti til Árósa og lærði blaðamennsku.

„Þegar ég útskrifaðist gat ég valið úr þremur störfum. Ég vann í danska sjónvarpinu í eitt ár sem fréttamaður. Svo skipti ég og fór að ritstýra bankablaði í nokkur ár áður en mér bauðst starf hjá BO BEDRE þar sem ég varð ritstjóri þar 1999.“

Erik Rimmer var valinn einn af best klæddu mönnum Danmerkur …
Erik Rimmer var valinn einn af best klæddu mönnum Danmerkur og segir í léttum tón að það hafi verið skellur að detta út af listanum.

Feimni Daninn elti drauminn sinn

Var það draumurinn þinn að verða ritstjóri BOBEDRE?

„Ég hef alltaf haft áhuga á hönnun og list og er þetta mitt stærsta áhugamál. Ég hafði ferðast mikið þegar ég var yngri án þess að eiga neina peninga. Ég bjó í New York í upphafi níunda áratugarins og skemmti mér á Studio 54. New York var æðisleg á þessum tíma. Þar hitti ég mikið af klikkuðu fólki,“ segir Rimmer og verður dreyminn á svipinn.

Studio 54 var heitasti skemmtistaður heims á þessum árum og laðaði til sín helstu fyrirmenni glamúrs og glaums, sem ekki verður farið nánar út í hér. Rimmer segist hafa fengið mikinn innblástur á þessum tíma og hann segir að New York hafi breytt honum.

„Ég lærði það í New York að allt er hægt. Ég var feiminn gaur frá miðri Danmörku. Núna er ég hluti af hönnunarheiminum,“ segir Rimmer án þess að vera upptekinn af því að vera eitthvað. Sjálf kynntist ég því fyrir nokkrum árum þegar við vörðum saman nokkrum dögum í Berlín í vinnuerindum.

„Ég hef aldrei unnið frá níu til fimm. Þetta starf er lífsstíll,“ segir hann.

Þannig að þú sefur ekkert og vinnur 24 tíma sólarhrings?

„Ég sef,“ segir hann og hlær.

„Ég var í Mílanó á dögunum á Salone del Mobile-sýningunni. Margir héldu að ég væri með einkabílstjóra og ferðaðist um á limúsínu eins og sumir af kollegum mínum. En ég vil ekki sjá heiminn þannig. Ég vil labba og gekk 53 kílómetra á fjórum dögum þegar ég var í Mílanó. Það tók alveg á,“ segir hann.

„Svo tók ég lestina til Feneyja. Ég veit ekki hvað ég labbaði mikið þar,“ segir Rimmer.

Erik Rimmer ritstjóri Bo Bedre og Marta María Winkel Jónasdóttir …
Erik Rimmer ritstjóri Bo Bedre og Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Dagurinn byrjar snemma

Hann er á miklum ferðalögum vegna vinnunnar en þegar hann er á skrifstofunni í Kaupmannahöfn er hann árrisull. Mættur fyrstur manna.

„Ég byrja að vinna klukkan 6.30 á morgnana á skrifstofunni. Hinir koma svo um sjöleytið. Við gefum út blöð í sex löndum á sex mismunandi tungumálum. Við þurfum að fara yfir öll þessi mál. Það er alltaf forsíða sem þarf að finna út úr. Seinni partinn fer ég svo út úr húsi á fundi og hitti fólk eins og ljósmyndara til dæmis,“ segir hann. Eftir það má sjá hann á opnunum á listasöfnum, í leikhúsinu eða í óperunni en hann er mikill unnandi klassískrar tónlistar.

Prentið er ekki dautt

Þegar Rimmer er spurður út í það hvort prentið sé dautt segir hann svo ekki vera.

„Prentið er ekki dautt en þetta er að breytast. Ef þú spyrð aðalritstjóra eins og mig þá hef ég verið í þessum bransa síðan á níunda áratugnum og ég hef séð mikið af breytingum í gegnum tíðina. Núna eru ennþá meiri breytingar. Prent er yndislegt en við verðum að hafa miðlana okkar líka á stafrænu formi. Það þarf að fara aðrar leiðir eins og gefa út öðruvísi blöð. Nú erum við að vinna að útgáfu sem er á öðruvísi pappír og kemur út á ensku,“ segir Rimmer. Hann tekur upp iPhone-símann sinn og sýnir mér ljósmynd af fallegu stöðuvatni og bendir á ref fyrir miðri mynd sem er úti í vatninu. Myndin var tekin heima hjá dönskum arkitekt sem býr í Svíþjóð í mikilli náttúruparadís því hann elskar að hugleiða og gera jógaæfingar.

„Sérðu refinn þarna úti í vatninu? Aðstæður í fjölmiðlum í dag eru svolítið eins og hjá þessum ref. Hvernig ætlar hann að komast í land? Ætti hann að hoppa? Fara til baka? Ætti hann að synda? Hvað ætti hann að gera? Ég er þeirrar skoðunar að þessi refur hafi burði til að gera eitthvað. Auðvitað gerir fólk ekki alltaf það rétta en við þurfum að finna lausn á þessu því í mínum huga er prent það fallega. Ég elska prentuð tímarit en við verðum að hafa stafræna útgáfu líka ef okkur á að ganga vel. Það sem við erum að selja í tímaritunum er draumur um gott líf. Uppskriftin að góðu lífi er alltaf að breytast.“

Erik Rimmer hefur gaman að því að klæða sig fallega. …
Erik Rimmer hefur gaman að því að klæða sig fallega. Hér er hann í ljósum einhnepptum jakkafötum og með klút.

Rimmer segir að fyrir tíu árum hafi uppskriftin að góðu lífi verið önnur en hún er í dag. Þegar ég spyr hann sjálfan um hver hans uppskrift sé að góða lífinu brosir hann.

„Það er ekki kavíar og trufflur, eða jú kannski stundum,“ segir hann og hlær.

„Það er ekki miðpunkturinn. Förum í leik. Ef veggirnir í borðstofunni minni gætu sagt sögu myndi ég vilja að þeir gætu sagt sögu af vina- og fjölskyldufundum í kringum borðstofuborðið þar sem andrúmsloftið væri gott. Ég er frekar góður kokkur og elska að vera í eldhúsinu að elda mat. Hlátur og samræður eru í forgrunni og fólk nýtur staðar og stundar í kringum borðið. Fyrir mig er það uppskrift að góðu lífi. Eða allavega stundum,“ segir hann.

Þú minntist á að stemningin væri öðruvísi í dag en fyrir tíu árum. Hvernig var hún fyrir tíu árum?

„Fyrir tíu árum snerist allt meira um stóra bíla og lúxus.“

Rauðbleik jakkaföt fara vel við bláan og gulan sófa.
Rauðbleik jakkaföt fara vel við bláan og gulan sófa.

Ekki á TikTok

Rimmer segir að tímaritaútgáfan eigi í erfiðleikum með að ná í yngri lesendur. Þessi hópur sé á öðrum miðum að leita að upplýsingum. Það er svo ekki fyrr en fólkið verður 30-35 ára sem hægt er að ná til þeirra. Það gerist þegar þessi hópur kaupir sér hús og þarf að fá að vita hvernig það á að hafa veggina heima hjá sér. Það hefur þó líka tekið breytingum á síðustu tíu árum.

„Fyrir tíu árum var fólk mjög hrifið af því að sjá fyrir og eftir-myndir af breytingum heima hjá fólki en það er ekki þannig í dag. Í dag er fólk meira í því að reyna að vinna með það sem það hefur í stað þess að henda öllu út. Það er af því að það er ekki í tísku hjá unga fólkinu að kaupa nýja hluti. Hjá þeim snýst þetta um að hafa auga fyrir því að gera fallegt í kringum sig án þess að það kosti of mikið. Sköpunargáfan er miklu ríkari hjá unga fólkinu í þessum brjálaða heimi,“ segir Rimmer.

Hvað um TikTok? Er BOBEDRE á TikTok til að ná til unga fólksins?

„Við erum sterk á Instagram en við notum ekki TikTok því það er kínverskt.“

Íslendingar eru margir hverjir sólgnir í danska hönnunarvöru. Rimmer segir að það hafi gengið vonum framar en nú séu blikur á lofti.

„Danski húsgagnaiðnaðurinn hefur átt góða tíma síðan 2010. Öll þessi merki eins og Hay, Gubi, Muuto og Normann Copenhagen svo einhver séu nefnd hafa breyst úr því að vera dönsk merki yfir í það að verða alþjóðleg hönnunarmerki. Sum af þeim hafa malað gull og eru billjónamæringar og hafa byggt risastór fyrirtæki. Þetta hefur verið mikið ævintýri. Það er frábært og hafa gæðin verið mikil held ég. Allt þetta danska hefur átt upp á pallborðið. Fólk úti um allan heim hefur viljað drekka morgunkaffið sitt úr dönskum hönnunarbollum. Við höfum veitt öllum heiminum mikinn innblástur. Svo kom kórónuveiran og þá var fólk fast heima hjá sér og þráði nýja liti á veggina. Þá fór fólk að eyða mjög miklum peningum í að gera fallegt hjá sér. Danir, sem eiga mikið af peningum, gætu notað þá til að kaupa nýja hönnun en þeir eru nú þegar búnir að kaupa allt svo þeir nota peningana til að ferðast. Iðnaðurinn er því í vanda,“ segir Rimmer.

Nú er oft sagt að við Íslendingar getum lært mikið af Dönum á hönnunarsviðinu. Hvað gætum við lært?

„Það er ekki nóg að vera góður hönnuður. Hönnuðir þurfa að vinna með vísindamönnum því þessir ólíku pólar geta gert eitthvað sérstakt. Dýpi er gott dæmi um það,“ segir Rimmer og dregur upp úr svartri Prada-leðurtösku sinni hrufóttan mola frá Dýpi sem sýndur var á sýningunni í Epal en fyrirtækið býr til umhverfisvæna kalkmálningu úr kalkþörungum úr Arnarfirði. Hann dáist að molanum og er sannfærður um að þetta gæti orðið að einhverju stærra og meira. Hver veit?

Hér má sjá hús eftir íslenska arkitekta sem birtist á …
Hér má sjá hús eftir íslenska arkitekta sem birtist á forsíðu BO BEDRE en blaðið var eitt það söluhæsta síðustu ár. KRADS arkitektar hönnuðu húsið. Ljósmynd/Marino Thorlacius
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál