Gerður Huld Arinbjarnardóttir, athafnakona og eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush, seldi 404 fermetra einbýlishús sitt að Þrymsölum 1 í Kópavogi á 239 milljónir króna nú á dögunum. Húsið var fyrst sett á sölu árið 2022 en var auglýst á ný í maí á þessu ári.
Eignina keyptu þau Sigurður Stefánsson, framkvæmdastjóri Aflvaka, og Stella María Ármann kennari.
Lesendur Smartlands kannast eflaust við heimilið, en Gerður var gestur í þættinum Heimilislíf í maí 2021.
Húsið var reist árið 2008 af foreldrum Gerðar, en hún hefur búið lengi í húsinu og átti til að byrja með bara unglingaherbergi þar. Hún fór svo smátt og smátt að kaupa sig inn í húsið og bjó fyrst um sinn í íbúð á neðri hæðinni. Gerður eignaðist síðan meirihlutann í húsinu og átti 60% á móti föður sínum, Arinbirni Snorrasyni lögregluþjón, sem átti rest, eða 40%.
Gerður stendur í ströngu þessa dagana ásamt unnusta sínum, Jakob Fannari Hansen, en parið er á fullu að byggja sér hús í Hveragerði.