Keypti hesthús og gerði það upp

Hestamennskan hefur verið stór partur af lífi Sóllilju Baltasarsdóttur frá …
Hestamennskan hefur verið stór partur af lífi Sóllilju Baltasarsdóttur frá því hún man eftir sér.

Sóllilja Baltasarsdóttir kýs að hafa fallegt í kringum sig. Sumarið 2022 festi hún kaup á hesthúsi sem hún hefur gert upp á sinn einstaka hátt.

Ekkert hefur vakið áhuga Sóllilju Baltasarsdóttur eins og hestar, en hún hefur verið í hestamennsku alla tíð og er nú að klára BS gráðu við hestafræðideild Háskólans á Hólum. Sóllilja var enn í móðurkviði þegar hún fór í fyrsta reiðtúrinn og í dag, rúmum 28 árum síðar, eiga hestarnir enn hug hennar allan. 

Sóllilja er menntaður myndlistamaður og starfar bæði við hesta og listræna stjórnun og ráðgjöf ýmissa fyrirtækja. Hún á sjálf níu hesta, þar af fjögur ótamin trippi, folaldsmeri og fjögur fulltamin hross. 

Það er margt spennandi framundan hjá Sóllilju!
Það er margt spennandi framundan hjá Sóllilju!

„Venjulega er ég með átta til tíu hesta í þjálfun. Mér hefur alltaf fundist hestar stórkostlegir og ekkert heldur athygli minni eins og hestur. Hestar eru strangheiðarlegir sem ég kann mjög mikið að meta. Þeir spegla sjálfið manns, og svo eru þeir það fallegasta sem til er, og það að vinna traust hests er svo gefandi,“ segir hún. 

„Ég ákvað að eltast við hestamennskuna eftir að ég átti samtal við föður minn þegar ég var í óvissu með hvað mig langaði til að vinna við. Þá sagði hann mér að ég ætti að velja þá iðju þar sem að ég gleymi mér algjörlega og þrái að vera. Það var ekkert annað sem kom til greina en að velja hestana. Ég gleymi að það sé til klukka þegar ég er í hesthúsinu, fjölskyldu minni oft til mikils ama,“ útskýrir hún.

Sóllilja er mikill fagurkeri og átti því í engum vandræðum …
Sóllilja er mikill fagurkeri og átti því í engum vandræðum með að fegra hesthúsið.
Sóllilja er vanalega með átta til tíu hesta í þjálfun …
Sóllilja er vanalega með átta til tíu hesta í þjálfun hverju sinni. Ljósmynd/Eyecandy

Þegar fagurfræði og notagildi mætast

Sóllilja er mikill fagurkeri og leggur mikið upp úr því að hafa fallegt í kringum sig, en sumarið 2022 festi hún kaup á hesthúsi sem hún hefur gert upp á glæsilegan máta. 

„Það skiptir mig mjög miklu máli að gera fallegt í kringum mig. Ég er uppi í hesthúsi frá klukkan átta á morgnanna til klukkan sjö eða átta á kvöldin, þannig að ég eyði meiri tíma þar heldur en heima. Ég á mjög erfitt með að einbeita mér ef það er ekki hreint og fínt hjá hestunum og það skiptir mig miklu máli að þeim líði vel, hafi nóg pláss í stíunni og þyki gott að leggjast niður á þurran og hreinan púða,“ segir hún.

„Það er því mikilvægt að andrúmsloftið í hestúsinu sé gott sem og stemmningin, þannig að mér finnist gaman að koma í hesthúsið og njóti þess að vera þar – þá er það orkan sem að fer í hestana. Ég leyfi mér að hlakka til að koma í hesthúsið og trúi því að þeir finni það,“ bætir hún við. 

Eftir einlægt samtal við föður sinn ákvað Sóllilja að eltast …
Eftir einlægt samtal við föður sinn ákvað Sóllilja að eltast við hestamennskuna.
Það skipti Sóllilju líka miklu máli að hestunum hennar liði …
Það skipti Sóllilju líka miklu máli að hestunum hennar liði vel í hesthúsinu.

Þegar Sóllilja hafði fest kaup á hesthúsinu var fyrsta verkefni hennar að stækka stíurnar. 

„Þetta voru tíu til tólf hesta hús og nú er það fyrir átta hesta svo stíurnar eru mjög rúmar. Einnig voru djúpar safnstíur í húsinu, en þær voru fylltar með möl og svo voru settar arðvegsgrindur og fínni möl í þær. Það er gólfhiti og drenlögn í botninum þannig að stíurnar haldast þurrar og góðar. Ofan á grindurnar set ég svo einn til tvo poka af spæni sem að hestarnir liggja á,“ útskýrir hún. 

„Ég reif niður vegg í kaffistofunni, bæsaði panelinn sem gerði mjög mikið, og lakkaði alla lista. Svo var keypt nýtt klósett og vaskur ásamt eldhúsinnréttingu. Flísar á baði og gangi við stigann voru svo þaktar með steinefnaspartli frá Sérefni, en þau voru svo æðisleg þar og hjálpuðu mér við allt ferlið, enda versla ég alla málningu í húsið þar,“ bætir hún við. 

Sóllilja stækkaði stíurnar og setti hita í gólfin.
Sóllilja stækkaði stíurnar og setti hita í gólfin.
Sóllilja bjó líka til notalega stemningu á salerninu.
Sóllilja bjó líka til notalega stemningu á salerninu.

Sótti innblástur í hótel í Skotlandi

Aðspurð segist Sóllilja hafa viljað skapa hlýlega stemmningu en um leið halda í strúktúr hússins. „Mig langaði að geta komið upp á kaffistofu, gluggað í bók eða unnið í tölvunni, fengið mér kaffi og smá að borða, og liðið eins og ég væri heima hjá mér. Einnig fannst mér mikilvægt að hnakkageymslan væri tengd við kaffistofuna þótt það væri á neðri hæðin, en ég ákvað að það væri ekki lokað á milli heldur væri þetta ein heild. Ég nefnilega elska reiðtygi – mér finnst þau svo sjúklega falleg og sjarmerandi, enda stærstu tískuhús heims sem eiga rót sína í söðlasmíð. Þannig það skipti mig máli að það væri hluti af stemmningunni,“ segir hún. 

Fyrir kaffistofuna sótti Sóllilja innblástur í hótel í Skotlandi sem heitir Fife Arms. „Kaffistofan er ennþá í vinnslu og ég er alltaf að bta einhverju við og breyta. Húsgögnin eru frá Heimili og hugmyndum. Svo keypti ég leikmynd úr sjónvarpsþáttum sem við gerðum í sumar, en leikmyndahönnuðirnir voru búnir að ferðast um allan heim og finna allskona hestastyttur og fallegar mottur á marköðum og í antík búðum,“ segir hún. 

Frá kaffistofunni er fallegt útsýni.
Frá kaffistofunni er fallegt útsýni.
Sóllilja lagði áherslu á að skapa notalega og hlýlega stemningu …
Sóllilja lagði áherslu á að skapa notalega og hlýlega stemningu á kaffistofunni og tókst sannarlega vel til.

Í hesthúsinu sjálfu lagði Sóllilja áherslu á að velja liti sem hentuðu rýminu. „Það kom eiginlega ekkert annað til greina en að mála boxin sjálf svört, en draumurinn væri að skipta plastinu í milligerðum og hurðum og hafa þar timbur. Á móti langaði mig ekki í hvítan lit á vegginn heldur eitthvað aðeins mýkra sem myndi samt halda birtunni – því varð þessi ljósi litur fyrir valinu sem heitir Kubel Soft Oak,“ segir hún. 

„Síðan vildi ég hafa gúmmímottur á gólfinu, bæði upp á hljóðgæði í húsinu og svo finnst mér hestarnir vera rólegri og öruggari þegar þeir ganga á gúmmímottum. Hnakkageymsluna málaði ég með kalkmálningu – það er steyptur veggur og því fannst mér eiginlega ekkert annað koma til greina. Satt best að segja hefði ég viljað mála allt húsið með kalkmálningu en það er full mikið viðhald inni í hestarýminu sjálfu og mikil vinna, en kannski skelli ég mér í það einn daginn og lakka yfir til að verja kalkið,“ bætir hún við. 

Í hesthúsinu valdi Sóllilja mjúka liti ásamt kalkspartli með fallegri …
Í hesthúsinu valdi Sóllilja mjúka liti ásamt kalkspartli með fallegri áferð.
Sóllilja heldur mikið upp á reiðtygi og vill að þau …
Sóllilja heldur mikið upp á reiðtygi og vill að þau fái að njóta sín í hesthúsinu.

„Ég leitaði síðan mjög lengi að hnakkastatífum sem mig langaði að setja í hnakkageymsluna með engum árangri – það var bara ómögulegt. Þannig að góður vinur minn smíðaði þau fyrir mig eftir minni hönnun og ég valdi efnið sérstaklega líka. Ég elska þessi statíf og þau gera algjörlega hnakkageymsluna,“ útskýrir Sóllilja. 

Sóllilja endaði á að hanna sjálf falleg hnakkastatíf sem vinur …
Sóllilja endaði á að hanna sjálf falleg hnakkastatíf sem vinur hennar smíðaði.
Hnakkastatífin koma sérlega vel út í hesthúsinu.
Hnakkastatífin koma sérlega vel út í hesthúsinu.

Ætlar að njóta síðasta ársins í hinum fagra Skagafirði

Spurð hvort hún sé með einhver ráð fyrir þau sem langar að ráðast í breytingar á hesthúsi mælir Sóllilja með því að kaupa frekar dýrara og minna í einu. „Ég mæli með að leggja áherslu á að kaupa hluti sem eru endingargóðir, hvort sem það eru húsgögn, málning eða annað, frekar en að þurfa að kaupa aftur, eða vera ekki alveg sáttur,“ segir hún.

Það er margt spennandi framundan hjá Sóllilju sem er á þriðja og síðasta árinu í Háskólanum á Hólum. „Ég ætla mér að njóta síðasta ársins hérna í Skagafirðinum, enda einn fallegasti staður landsins. Ég er að hanna vöru núna sem kemur vonandi út eftir áramót, svo er aldrei að vita hvort ég geri upp annað hesthús þegar ég flyt aftur heim,“ segir hún. 

Sóllilju líður best þegar allt er hreint og fínt í …
Sóllilju líður best þegar allt er hreint og fínt í hesthúsinu, enda eyðir hún meirihluta dags þar.
Sóllilja er að klára BS gráðu í hestafræðum við Háskólann …
Sóllilja er að klára BS gráðu í hestafræðum við Háskólann á Hólum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda