Við Bólstaðarhlíð í Reykjavík er að finna 147 fm hæð sem er í húsi sem reist var 1951. Íbúðin hefur að geyma fallega franska glugga sem hleypa birtunni inn í stofuna.
Stofa og borðstofa eru í samliggjandi rými og eru glerjaðar hurðar úr stofu fram á gang. Þær ríma vel við frönsku gluggana sem prýða stofugluggann.
Eldhúsið er opið að hluta til fram á ganginn. Þar er hvít sprautulökkuð innrétting úr IKEA sem er með fulningahurðum og efri skápum úr með glerhurðum. Gott vinnupláss er í eldhúsinu en innréttingin er U-laga og því er pláss fyrir allt það helsta þótt eldhúsið sé ekki flennistórt þannig lagað séð. Í eldhúsinu eru láréttar flísar á milli skápa og hvítur keramík-vaskur.
Heimilið í heild sinni er heimilislegt eins og sagt er. Þar er hægt að hafa það notalegt í bláum sófa með tungu og borða girnilegan mat með lýsingu frá PH-ljósi Louis Poulsen. Bókahillur, plöntur og listmunir setja punktinn yfir i-ið og er heildarmyndin falleg.