Birgir Jónsson trommuleikari í þungarokkshljómsveitinni Dimmu og fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Play og Lísa Ólafsdóttir hafa selt sitt fallega parhús. Hjónin settu hús sitt við Hraunteig 4 á sölu í sumarbyrjun. Húsið er 230.9 fm að stærð og var reist 2007.
Nú hefur húsið verið selt.
Húsið er á þremur hæðum og með innbyggðum bílskúr. Þetta er sannkallað fjölskylduhús en í húsinu eru sjö herbergi og fjögur baðherbergi. Rut Káradóttir innanhússarkitekt hannaði innréttingar í húsið að hluta til og kom að litavali á veggjum og fleira. Hún valdi til dæmis gráa litinn sem prýðir stofuna. Þar er arinn sem fellur vel inn í umhverfið en hann er í sama lit og aðrir veggir. Rut valdi líka rauðbrúna litinn í eldhúsinu sem fer vel við hnotu-innréttingarnar og kvartssteininn sem er á borðplötum eldhússins. Í eldhúsinu eru líka sprautulakkaðar innréttingar sem fara vel við annan efnivið. Allar innihurðar eru úr hnotu sem liggur lárétt.
Haukur Logi Karlsson og Áslaug Dögg Karlsdóttir eru nýir eigendur hússins. Þau keyptu það á 195.000.000 kr.
Smartland óskar Hauki og Áslaugu til hamingju með nýja húsið!