Það vakti athygli þegar raðhús við Hulduland í Fossvogi fór á sölu. Húsið er sérlega vel heppnað og fallegt, allt sérhannað að innan. Þorsteinn Roy Jóhannsson, ljósmyndari og landsliðsmaður í utanvegahlaupum, og Anna Daníelsdóttir keyptu húsið af Birnu Jennu Jónsdóttur og Atla Þorbjörnssyni.
Húsið státar af góðu skipulagi og heillandi innréttingum. Húsið var reist 1968 og er 204 fm að stærð.
Í eldhúsinu, sem snýr í norður, er að finna hvítar sprautulakkaðar innréttingar í bland við eikar. Stór skápaveggur prýðir eldhúsið en svo eru neðri skápar í L sem framkallar ríkulegt borðpláss. Myndarlegt gashelluborð er í eldhúsinu og snýr eikin í innréttingunum lárétt sem er alltaf sérlega fallegt.
Húsið er á pöllum en á efsta pallinum er stór stofa með enn þá stærri gluggum sem hleypa suðursól inn í húsið.
Smartland óskar Þorsteini og Önnu til hamingju með húsið!