Verzlunarskólinn á sér langa sögu eins og flestir vita en um 130 manns vinna í skólanum og hluti starfsfólksins tók þátt í jólapeysuverkefninu. Að þessu sinni voru það aðeins konur sem settust niður með prjónana. Sumar eru búnar með peysurnar en aðrar keppast við að klára svo hægt sé að njóta afrakstursins í desember.
Prjónahópurinn segir að það hafi verið mikil prjónamenning í Verzló áður en verkefninu var ýtt úr vör og fyrir ekki svo löngu prjónuðu starfsmenn skólans teppi til að hafa í rými sem nýlega er búið að taka í gegn og heitir Hlégarður. Hlégarður er notaleg starfsmannaaðstaða en skólinn tók þátt í verkefni með „Saga Story House“ á sínum tíma með það að markmiði að skapa heilsueflandi vinnuumhverfi sem styður við vellíðan starfsfólks jafnt líkamlega sem andlega. Mörgum starfsmönnum þykir því notalegt að færa sig yfir í Hlégarð í kaffi- og matartímum og þar verða m.a. til hin ýmsu prjónaverkefni og heimsmálin rædd.
En hvernig ætli hugmyndin að jólapeysuverkefninu hafi kviknaði? „Við fréttum af jólapeysusamprjóni á öðrum vinnustað og fannst það mjög góð hugmynd þar sem mikill prjónaáhugi er hér í Verzló. Það eru hátt í 30 starfsmenn sem taka þátt í þessu prjónaverkefni og allir voru hvattir til að vera með, jafnt vanir prjónarar sem og þeir sem höfðu aldrei prjónað áður. Öllum var lofað dyggri aðstoð alla leið og því tækifæri fyrir byrjendur að prjóna sína fyrstu peysu. Það kom skemmtilega á óvart hversu margir voru með og starfsmenn úr flestum deildum, þ.e. skrifstofu, matbúð, nemendaþjónustu, bókasafni, stjórnendur og kennarar, skráðu sig til leiks.“
Hópurinn segist hafa hist bæði í frítíma, í hádegismatnum og frímínútum. „Við höfum hist fyrir utan vinnu og líka í frímínútunum en þær hafa mest verið nýttar til að ræða stöðu á prjónaverkefnunum, til að hjálpast að ef einhver vandamál koma upp því tengd og ekki síst til að hvetja hver aðra áfram.“ Þær bæta við að allir séu að vinna með sömu uppskriftina sem fékkst frí á netinu. „Peysurnar eru þó misjafnar með tilliti til garns, lita og stærðar. Ekki var nein regla um hvaða garn mátti nota og hver og ein sá um val og garnkaup í sitt verkefni og því var garnið keypt í ýmsum garnvöruverslunum,“ segja þær.
Skyldi hafa verið mikil samkeppni meðal þátttakenda? „Það var engin samkeppni innan hópsins heldur frekar mikil samvinna og gleði. Það að taka þátt í svona verkefni hefur sameiningaráhrif og er mjög jákvætt fyrir starfsandann á vinnustaðnum. Þetta verkefni var kynnt í september með það að markmiði að því myndi ljúka fyrir 4. desember en þá er hinn árlegi jólapeysudagur Verzló með tilheyrandi jólamat og gleði.“