Salún er íslenskt hönnunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í heimilistextíl. Markmiðið er að hanna vörur sem gera menningu þjóðarinnar hátt undir höfði, viðhalda hugmyndafræði á aldagömlum vefnaði sem og einstakri sundmenningu. Ásrún Ágústsdóttir fatahönnuður er eigandi fyrirtækisins en hún nam í Kaupmannahöfn og við Listaháskóla Íslands.
„Merkið byggir á menningu og hefðum okkar Íslendinga sem hafa fylgt okkur í aldanna rás. Sundlaugarnar okkar eru svo einstakar og algjör forréttindi að hafa aðgang að þeim nánast að kostnaðarlausu,“ segir Ásrún.
„Ég byrja daginn alltaf á því að fara í sund og vildi heiðra þessa frábæru staði og athöfnina sem sundferðin er. Það er ótrúlega fallegt að hitta sama fólkið, á sama tíma, á sama stað á hverjum degi. Ókunnugt fólk á þetta sameiginlegt og í kjölfarið myndast tengsl sem eru einstök og mér þykir ótrúlega vænt um.“
Hún hefur hrifist af salúnvefnaði lengi og vann með hann í útskriftarlínunni sinni árið 2015. Ásrún hefur viljað gera honum hátt undir höfði í einhvern tíma en fann honum lengi vel ekki farveg þar til hugmyndin að Salún varð til.
„Salúnvefnaðurinn á sér djúpar rætur í menningu þjóðar og má finna í heimildum aftur til 14. aldar en orðið salún merkir ábreiða. Salúnvefnaður naut mikilla vinsælda á Íslandi á seinnihluta síðustu aldar og voru salúnofnar ullarábreiður meðal annars framleiddar á vegum Álafoss og SÍS.
Fljótlega eftir að SÍS lagði upp laupana var allri vefnaðarframleiðslu hætt og að lokum voru allir iðnaðarvefstólar seldir úr landi. Fyrir vikið hefur þekkingunni á salúnvefnaði skiljanlega farið stórlega hrakandi og vefnaðurinn aðeins ofinn af einstaka manneskjum um landið. Í dag má því helst finna salúnvefnað á minjasöfnum, í Bústaðakirkju eða á nytjamörkuðum víðs vegar um landið.“
En hvað er salúnvefnaður?
„Salúnvefnaður er ofinn þannig að munsturband (yfirband) liggur á einskeftugrunni og myndar munstur sem eru einkennandi fyrir þennan vefnað. Þar sem munsturbandið liggur ofan á vefnaðinum á salúnvefnaður það til að vera viðkvæmur og því ekki æskilegt að hafa munstrin of stór. Með því að hafa vörurnar okkar ofnar með Jacquard-vefnaði er okkur kleift að leika með skala munsturseininganna og stækka hverja munstureiningu mun meira en í hefðbundnum salúnvefnaði.“
Viðtökurnar við merkinu hafa verið vonum framar og þykir Ásrúnu ferlið hafa verið mjög lærdómsríkt. Fram undan er að fylgja vörunum eftir og koma vörunum inn í fleiri staði um landið.
„Ég er að vinna að því að koma inn nýrri vörum sem tengjast húðumhirðu eftir áramót. Ég hlakka til þegar sú vara verður klár en allar vörurnar eru vörur sem ég og fólkið í kringum mig höfum notað lengi og notum reglulega. Ég vil passa að hver vara hafi tilgang og auðgi líf okkar og falli inn í rútínuna okkar.“
Hvar er varan framleidd?
„Vörurnar eru framleiddar í Tyrklandi úr tyrkneskri bómull. Munstrið í efnunum er hannað eftir reglum og tækni sem salúnvefnaðurinn krefst en efnin okkar eru ofin með jacquard-vefnaði á einskeftugrunni. Með þeirri tækni loftar á milli þráðanna sem bæði er einangrun en lætur einnig bómullarþræðina þorna fyrr en ella.“
Á morgun verður Ásrún stödd í Apotek Atelier á Laugavegi frá klukkan 15:00 þar sem hún kynnir vörurnar fyrir gestum og gangandi.