Með pappaspjald fyrir klósetthurð

Þórey Birgisdóttir á fallegt heimili.
Þórey Birgisdóttir á fallegt heimili. mbl.is/Karítas

Leik­kon­an Þórey Birg­is­dótt­ir er lands­mönn­um kunn, sér­stak­lega yngstu kyn­slóðinni, eft­ir að hafa farið með hlut­verk Láru í jóla­sýn­ing­unni Lára og Ljónsi, sem sýnd hef­ur verið við mikl­ar vin­sæld­ir í kring­um jóla­hátíðina síðastliðin fjög­ur ár á sviði Þjóðleik­húss­ins. Sýn­ing­in bygg­ir á Láru­bók­um Birgittu Hauk­dal. 

Þrátt fyr­ir ung­an ald­ur hef­ur Þórey tekið þátt í fjölda upp­færslna, á höfuðborg­ar­svæðinu og einnig á lands­byggðinni, og vakið mikla at­hygli fyr­ir líf­lega sviðsfram­komu sína. Þórey er þessa dag­ana á fullu að und­ir­búa frum­sýn­ingu á ein­leikn­um Ífig­enía í Ásbrú, sem hún bæði leik­ur í og fram­leiðir, en hann verður frum­sýnd­ur í Tjarn­ar­bíói í byrj­un næsta árs.

Þórey býr í Holt­un­um ásamt sam­býl­is­manni sín­um, Há­koni Jó­hann­es­syni leik­ara, í huggu­legri íbúð sem þau hafa umbreytt á síðustu árum og sagði blaðamanni aðeins frá fram­kvæmda­ferl­inu. 

Þegar þið sáuð íbúðina, hvað var það sem heillaði?

„Íbúðin er vel skipu­lögð, opin og björt og hent­ar full­kom­lega fyr­ir hunda­eig­end­ur, sem við erum, þar sem við opn­um beint út í stór­an garð. Svo má ekki gleyma staðsetn­ing­unni, við erum á miðsvæðinu en samt ekki al­veg í miðbæn­um. Ég er alin upp í Grafar­vogi og vön að bíða í um­ferð á leið í vinn­una. Það er því þægi­legt að eiga mögu­leika á að geta labbað í vinn­una, en við búum jafn­langt frá Borg­ar­leik­hús­inu og Þjóðleik­hús­inu.

Íbúðin er opin og björt.
Íbúðin er opin og björt. mbl.is/​Karítas

Hvað varð til þess að þið fóruð út í fram­kvæmd­ir?

„Við ætluðum okk­ur ekk­ert að fara út í nein­ar fram­kvæmd­ir en það komu upp óvænt­ar aðstæður sem við þurft­um að bregðast við og eft­ir það ákváðum við að snýta íbúðina og byggja hana upp eft­ir eig­in höfði. Við tók­um allt í gegn, fjar­lægðum gól­f­efni, flísa­lögðum og rif­um flest út nema baðkarið og kló­settið sem fengu að vera áfram á sín­um stað.“

Gerðuð þið þetta sjálf?

„Við gerðum margt sjálf en feng­um fag­menn í þau verk­efni sem við treyst­um okk­ur ekki í, eins og að flísa­leggja. Það var samt margt sem við gát­um lært og gert. Við vor­um líka hepp­in og feng­um góða hjálp frá vin­um og vanda­mönn­um.“

Voruð þið sam­mála með all­ar breyt­ing­arn­ar?

„Já, við vor­um frek­ar sam­mála, nema með lit­inn á stofu­veggn­um. Há­kon var að vísu harður á þess­um rauða lit og eft­ir á að hyggja er ég mjög ánægð með að hafa látið eft­ir þar, ég elska rauða vegg­inn okk­ar í dag. Við erum með frek­ar lík­an smekk og íbúðin end­ur­spegl­ar smekk okk­ar beggja.“

Margir fallegir munir skryeta heimili parsins.
Marg­ir fal­leg­ir mun­ir skryeta heim­ili pars­ins. mbl.is/​Karítas

Hvaðan fenguð þið inn­blást­ur?

„Við ákváðum að reyna að færa tíðarand­ann á út­liti húss­ins inn í íbúðina. Húsið var byggt árið 1945 og er stíll­inn mikið til í anda fimmta ára­tug­ar­ins. Í íbúðinni má meðal ann­ars sjá gam­aldags vask og blönd­un­ar­tæki, auðvitað í bland við nú­tíma­legri hluti.“

Hvernig lýs­ir þú stíln­um?

„Ég myndi segja að hann væri fyrst og fremst huggu­leg­ur. Ég er heimakær mann­eskja og vil hafa kósí í kring­um mig. Stíll­inn er því klass­ísk­ur kósí.“

Hvaða hlut­ir finnst þér gera hús að heim­ili?

„Mér finnst lýs­ing skipta miklu máli, fal­leg birta get­ur breytt and­rúms­loft­inu á auga­bragði. Mál­verk og aðrir list­mun­ir gera líka mikið að mínu mati. Við erum með blóma­mál­verk eft­ir Ými Grön­vold í for­stof­unni sem ég al­gjör­lega elska. Ég keypti það fyr­ir nokkr­um árum, á Þor­láks­messu, á lista­sýn­ingu Ýmis í Iðnó. Ég sé ekki eft­ir þess­um kaup­um og er strax byrjuð að safna fyr­ir næsta mál­verki.“

Málverk eftir Ými Grönvold hangir á vegg í forstofunni.
Mál­verk eft­ir Ými Grön­vold hang­ir á vegg í for­stof­unni. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvenær reikn­ar þú með að þið ljúkið fram­kvæmd­un­um?

„Það eru enn þá nokkr­ir hlut­ir eft­ir. Það er „rustic” burðarbiti í loft­inu sem á eft­ir að ganga frá, en við ætl­um að hafa hann, það á bara eft­ir að snyrta svæðið í kring. Það eru þó nokk­ur lít­il verk­efni á stefnu­skránni. Það er alltaf eitt­hvað.“

Hvað kom þér á óvart í fram­kvæmda­ferl­inu?

„Örugg­lega hvað margt get­ur farið úr­skeiðis í ferl­inu. Þegar við vor­um nán­ast búin að klára það helsta þá þurft­um að kaupa hurð á baðher­bergið, eitt­hvað sem all­ir þurfa og von­andi vilja hafa. Við vor­um í lang­an tíma með pappa­spjald og sett­um tónlist á fón­inn þegar við eða aðrir þurftu að fara á sal­ernið. Þegar við fór­um í það að redda hurð þá kom í ljós að hurðargatið var of lítið fyr­ir hurðina sem við ætluðum okk­ur að kaupa og þurfti því að stækka það. Við höfðum sam­band við múr­ara sem kom og stækkaði hurðargatið en þá kom í ljós göm­ul lögn, raf­lögn, sem var ekki hægt að ýta upp. Þá þurft­um við að kalla út raf­virkja til að koma og saga þessa lögn, leggja nýja lögn og brjóta enn hærra upp. Eft­ir fjöl­marg­ar heim­sókn­ir raf­virkja og múr­ara héld­um við loks­ins í búðina til að kaupa hurðina en þá var hún uppseld. Við hefðum því verið fljót­ari að sér­p­anta hurð, en við bara biðum og héld­um áfram að nota pappa­spjaldið góða.”

Hvernig tóku gest­ir og gang­andi við pappa­spjald­inu?

„Fólki fannst þetta spenn­andi en við sögðum því að ef það þyrfti að skíta þá mætti það nota kló­settið heima hjá sér. Við gáf­um fólki smá viðvör­un en jafn­framt tvo spenn­andi val­kosti. Ég mæli með þessu fyr­ir þau sem vilja styrkja sam­band sitt við vini og vanda­menn.“

Rauði liturinn á stofuveggnum gerir mikið fyrir rýmið.
Rauði lit­ur­inn á stofu­veggn­um ger­ir mikið fyr­ir rýmið. mbl.is/​Karítas

Hvaða rými er í upp­á­haldi?

„Það er stof­an. Við höng­um þar mest, þar er spilað á pí­anó, sungið og horft á sjón­varpið.“

Er mikið af söng­stund­um í stof­unni?

„Já, það kem­ur al­veg fyr­ir. Hér er spilað og sungið, stund­um dansað og hoppað.“

Píluspjaldið á heimili Þóreyjar og Hákonar vekur alltaf lukku.
Pílu­spjaldið á heim­ili Þóreyj­ar og Há­kon­ar vek­ur alltaf lukku. mbl.is/​Karítas

Áttu upp­á­halds hús­gagn?

„Sko, það er nú eig­in­lega bara allt hérna inni. Ég held ekki fast í ein­hverja hluti, mér þykir vænt um það sem ég á en ég er ekki hald­in til­finn­inga­leg­um bönd­um. Mamma hef­ur alltaf sagt: „Hlut­ir eru bara hlut­ir, maður á að nota þá“. Við erum til að mynda með sparistell for­eldra minna sem þau fengu í brúðar­gjöf, stell sem var ein­ung­is tekið fram á hátíðis­dög­um, en ég og Há­kon not­um það dags­dag­lega. Ef eitt­hvað brotn­ar, þá brotn­ar það bara. Við erum mjög ró­leg þegar kem­ur að slíku.“

Skipt­ir verðmiðinn máli?

„Nei, það finnst mér ekki. Ég pæli frek­ar í feg­urð og nota­gildi. Við erum með mjög mikið af hlut­um sem við höf­um fengið héðan og þaðan. Ég spái ekki mikið í verðmiðann.“

Viltu frek­ar hafa ein­staka hluti?

„Mér finnst ekk­ert spenn­andi að eiga hluti sem all­ir eiga, ef það er eitt­hvað sem er rosa­lega vin­sælt, þá er það oft „turn-off” fyr­ir mig. Ég reyni alla­vega ekki að elta tísku­strauma þó svo kannski ósjálfrátt geri maður það á einn eða ann­an hátt. Helst vil ég bara eiga fal­lega hluti sem end­ast.“

Eruð þið dug­leg að bjóða heim?

„Já, við erum það. Á gamla staðnum sem við bjugg­um var bara pláss fyr­ir lítið eld­hús­borð en hér erum við með lang­borð og get­um því boðið fleir­um í mat­ar­boð. Jól­in verða ein­mitt hald­in hjá okk­ur í ár og erum við Há­kon á fullu að und­ir­búa.“

Þórey er spennt að kynna landsmenn fyrir einleiknum Ífigenía í …
Þórey er spennt að kynna lands­menn fyr­ir ein­leikn­um Ífig­enía í Ásbrú. Ljós­mynd/​Aðsend

Byrj­ar árið í Tjarn­ar­bíó

Þórey mun hefja nýja árið í Tjarn­ar­bíó þegar sýn­ing henn­ar, Ífig­enía í Ásbrú, verður frum­sýnd.

Get­urðu sagt mér aðeins frá verk­inu?

„Þetta er breskt verðlauna­verk sem heit­ir á ensku Ip­higenia in Splott og hef­ur verið sett upp víða um heim. Ég las leik­ritið í miðjum kór­ónu­veirufar­aldri, en eitt af meg­inþemum verks­ins er heil­brigðismál, og hugsaði bara með mér: „Af hverju er eng­inn að setja upp þetta verk?”

Án þess að segja of mikið þá í stuttu máli fjall­ar verkið um Ífí, stelp­una sem þú tek­ur sveig fram hjá þegar þú mæt­ir henni haus­lausri fyr­ir há­degi. En það sem þú veist ekki er að þú stend­ur í ævi­langri þakk­ar­skuld við hana. Og nú er komið að skulda­dög­um.

Anna María Tóm­as­dótt­ir leik­stýr­ir og nú hef­ur verkið verið bæði þýtt og staðfært, og loks­ins eft­ir langa meðgöngu er Ífig­enía mætt til Íslands, leig­ir her­bergi á Ásbrú og ger­ir allt vit­laust á Suður­nesj­un­um.”

Kaka fyr­ir öll til­efni

Í til­efni jól­anna deildi Þórey góm­sætri upp­skrift að ómót­stæðilegri köku fyr­ir jóla­boðið nú eða ára­móta­veisl­una. 

„Jóla­mat­ur­inn hjá fjöl­skyld­unni minni hef­ur alltaf verið með am­er­ísk­um brag, en sú hefð kem­ur frá lang­ömmu minni, An­astasiu, sem flutti til Íslands árð 1946. Þessi upp­skrift er frá henni og köll­um við kök­una „Stasiu-köku“. 

Gómsæta kaka.
Góm­sæta kaka. mbl.is/​Karítas

„Stasiu-kaka“

Ath! Upp­skrift­in not­ast við bolla en einn bolli er 2,3 dl. 

Köku­botn

  • 1/​2 bolli smjör­líki 
  • 2 boll­ar syk­ur
  • 1 tsk salt
  • 3 msk kakó
  • 2 boll­ar hveiti 
  • 1 1/​2 tsk mat­ar­sódi
  • 3/​4 tsk lyfti­duft
  • 1/​2 bolli mjólk
  • 3 egg

Aðferð

Hrá­efni er sett í hræri­vél í þess­ari röð og blönduð. 

Kak­an er sett í smurt form og inn í 180 gráðu heit­an ofn í 15 mín­út­ur eða þar til kak­an hef­ur tekið lit og bökuð í gegn.

Krem

  • 400 gr flór­syk­ur
  • 300 gr smjör við stofu­hita (alls ekki bræða smjörið)
  • 3 msk kakó
  • 2-3 msk hnetu­smjör
  • 1-2 eggj­ar­auður
  • 2 tsk vanillu­drop­ar

Krem­inu er hellt yfir kök­una þegar hún hef­ur kólnað dá­lítið.

Gott er að bera fram með berj­um og rjóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda