Jólin snúast ekki bara um jólamat, konfekt, jólaöl og deserta. Þau snúast líka um að auka fegurðina og það er gert með því að leggja fallega á borð. Fallega dekkuð borð auka upplifun og stemningu á hátíð ljóss og friðar. Í Dior-versluninni á New Bond Street í Lundúnum var búið að leggja svo fallega á borð inni í versluninni að það væri synd að deila því ekki með
lesendum með ríkt fegurðarskyn.
Verslun tískuhússins Dior á þessum eftirsótta stað í Mayfair í Lundúnum laðar ekki bara að tískuþyrsta ferðamenn heldur fólk sem þráir að sjá eitthvað fallegt. Það er kannski ekki að fara að kaupa sér stell með 24 karata gullmynstri eða tösku á 800.000 kr. en það getur fengið innsýn í það hvernig er hægt að klæða sig og leggja á borð.
Cordelia De Castellane, hönnuður hjá Dior, á heiðurinn af stellinu með gulllíningunni. Hún hefur einstakan stíl sem sóttur er beint í franska menningu. Þar er ekki verið að vinna með hið einfalda, einlita og látlausa. Diskarnir með gullmynstrinu koma í nokkrum litum og er nauðsynlegt að hafa borðin dekkuð með dúkum, voldugum hnífapörum og tauservíettum. Kertastjakar eru stórir og miklir og borðskreytingar íburðarmiklar. Það er kannski ekki hentugt að hafa blómahaf á miðju borði á meðan hamborgarhrygg er rennt ljúflega niður en það er hátíðlegt ef það er þjónað til borðs.
Ef þig langar að hressa aðeins upp á jólaborðhaldið er hægt að leggja aðeins meira í borðbúnaðinn án þess að það kosti offjár. Eitt gott ráð er að festa kaup á tauservíettum. Best væri náttúrlega ef þú gætir lært að sauma út fyrir 24. desember svo að þú gætir merkt allar tauservíetturnar með upphafsstöfum eða fjölskyldulógói og handsaumað kantana. En það sleppur að hafa þær ómerktar. Þú reddar þessu bara fyrir næstu jól. Svo eru það hnífapörin. Það skiptir máli að þau séu vel pússuð og glansandi og séu staðsett á réttum stöðum, gaffallinn vinstra megin og hnífurinn hægra megin. Beitta hlið hnífsins þarf að snúa að diskinum. Þetta eru svona þessar einföldu reglur ef þú ert bara með einn rétt – ekki fimm.
Amma mín og nafna, Marta María Jónasdóttir, lagði mikið upp úr því að leggja fallega á borð. Í minningunni vorum við tvær alltaf að leggja á borð, finna servíettur, raða glösum og gera fínt á meðan kjötstykki kúrði í ofninum inni í eldhúsi. Sparistellið var á sérstökum stað í stofunni og þegar borð var dekkað notaði hún önnur hnífapör. Gylltir þriggja arma kertastjakar voru líka dregnir fram, í þá voru sett kerti og þau tendruð. Þetta var á þeim tíma sem stálið hélt innreið sína á íslensk heimili og landsmenn maríneruðu sig í krómi, svörtu leðri og grunnlitum.
Þegar ég hugsa til baka voru það þessir litlu hlutir, þetta fallega og einfalda, sem lýstu tilveruna. Minningin um þessa fegurð fer ekki neitt og einhvern veginn birtist hún þarna í Dior-versluninni. Ætli amma hafi ekki bara verið með mér að klappa tauservíettum og dást að stellinu með gullmynstrinu. Nær fegurðarskynið út fyrir gröf og dauða?