Við Mýrargötu í Reykjavík er að finna snotra 131 fm íbúð sem reist var 2014. Úr íbúðinni er heillandi útsýni yfir höfnina og er stutt í miðbæinn, út á Granda og út á Gróttu og því tilvalin staðsetning fólks sem vill vera á ferðinni en samt kannski ekki endilega á bifreið.
Skipulag íbúðarinnar er gott en þar er að finna stóra glugga sem hleypa mikilli birtu inn í rýmið. Voldugt eldhúsborð tengir saman eldhús og stofu og er einn af mest heillandi pörtum íbúðarinnar stór listaverkaveggur sem málaður er í karrýgulum lit. Þennan vegg er að vinna á eldhúsganginum.
Innréttingar í eldhúsi eru hvítar, höldulausar og sprautulakkaðar, fyrir utan einn eikarskáp sem nær upp í loft. Í eldhúsinnréttingunni er vínkælir og tveir ofnar. Einhverjir myndu segja að þarna væri að finna allt það helsta sem nútímafólk, með góðan smekk, þráir í sitt nærumhverfi.
Stofan er búin fallegum húsgögnum með sögu sem njóta þess að vera í rándýrum félagsskap. Ætli sé hægt að biðja um eitthvað meira á veraldlega sviðinu? Held ekki.