Emanuele Coccia er heimspekingur og prófessor í félagsvísindum við EHESS, École des Hautes Études en Sciences Sociales, í París og verður með erindi á Design Talks sem fer fram í Hörpu þann 2. apríl. Coccia er virtur rithöfundur og starfar með hönnuðum, listamönnum og menningarstofnunum um allan heim. DesignTalks er lykilviðburður á HönnunarMars og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur innblásturs og samtals um hönnun og arkitektúr.
Í verkum sínum tekur Coccia á efnislegri tilveru samtímans, stöðu okkar og sambandi okkar við hana og stuðlar þannig að mikilvægu samtali um fagurfræði samtímans.
„Viðhorf Coccia á samsetningu heimsins og hverfulleika tilveru okkar í honum er einstakt. Heimspekileg linsa hans á hönnun bæði inspírerandi og umhugsunarverð fyrir okkar fag. Coccia er skiljanlega orðinn lykilpersóna í alþjóðlegu samtímalistar- og hönnunarsenunni og við erum heppin að fá tækifæri til að bjóða hann velkominn á okkar svið,“ segir Hlín Helga Guðlaugsdóttir, listrænn stjórnandi DesignTalks í fréttatilkynningu.
Þema DesignTalks þetta árið er Uppspretta.
„Algengast er að hugsa sér að uppsprettan marki augnablik í tíma þar sem eitthvað byrjar eða verður til. Uppspretta hugmynda, innblásturs eða lífs jafnvel. En uppsprettan er líka myndlíking fyrir endurskoðun hugmynda, taka skref til baka, tengjast aftur upprunanum, hreinsa hugann eða endurnýja sig. Að venju, mun stórkostlegur hópur hönnuða, arkitekta og skapandi hugsuða koma fram á DesignTalks og nálgast þemað út frá ólíkum hliðum.“