Raunveruleikastjarnan Kris Jenner hefur sett glæsilegt heimili sitt í Hidden Hills í Los Angeles á sölu. Húsið er einstaklega glæsilegt og sem skýrir kannski verðmiðann á því en það er falt fyrir 13,5 milljónir Bandaríkjadollara eða 1.917.675.000 íslenskra króna ef miðað er við gengi dagsins í dag.
Í meira en áratug hefur þetta glæsilega 823 fermetra hús verið reglulega fyrir framan augun á fólki því raunveruleikaþáttröðin Keeping Up With The Kardashians var tekin upp í húsinu að hluta til.
Jenner, sem er 69 ára, varð heimsfræg þegar þættirnir hófu göngu sína 2007 en í þáttunum fengu áhorfendur innsýn inn í líf Kardashian og Jenner-systranna en sem eiga það sameiginlegt að vera dætur Kris Jenner.
Heimilið er íburðarmikið með öllum þeim lúxus sem hægt er að fá. Þegar gengið er inn um dyrnar tekur tvöfaldur stigi í anddyri hússins á móti fólki. Á gólfinu eru svartar og hvítar háglansandi flísar sem setja mikinn svip. Í húsinu eru sex svefnherbergi, átta baðherbergi, eldhús með sérsmíðuðum innréttingum og stór rúmgóður garður.
„Ég hef deilt svo mörgum ógleymanlegum minningum af þessu ótrúlega heimili með fjölskyldu minni og ég er spennt að sjá það byrja nýjan kafla með næstu eigendum,“ sagði Jenner í viðtali við The New York Times.
Jenner keypti húsið árið 2010. Þá var hún gift íþróttastjörnunni Bruce Jenner en eftir skilnað þeirra fór hann í kynleiðréttingu og heitir nú Caitlyn Jenner.
Tomer Fridman fasteignasali á Christie's International Real Estate Suður-Kaliforníu er með húsið á sölu.