Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld og handhafi listaverðlauna Chanel fyrir framlag sitt til lista, hefur sett glæsilega tveggja herbergja íbúð við Austurhöfn á sölu.
Þessi 50 fm eign, á 3. hæð, er einstaklega vönduð og björt og er á besta stað í Reykjavík þar sem allt iðar af lífi. Íbúðin skiptist í alrými með samliggjandi stofu og eldhúsi, svefnherbergi og baðherbergi með sturtu og þvottaaðstöðu.
Fjölbýlishúsið var byggt 2019.
Úr stofu er útgengt á yfirbyggðar 6,4 fm svalir sem snúa til suðvesturs. Vandað er til verks í hverjum krók og kima, en svalagólf, veggir og loft eru viðarklædd.
Innréttingar í eldhúsi eru frá ítalska handverkshúsinu Gili Creations. Kvarts-borðplötur eru í eldhúsinu og innbyggður ísskápur og uppþvottavél. Fataskápur í svefnherbergi er skemmtilega felldur inn í vegginn. Baðherbergið er sérlega huggulegt með gráum flísum í hólf og gólf og kvarts-borðplötu, sem gefur skemmtilegan samhljóm við flísar og hnotu á baðskáp.
Gólfhiti er í íbúðinni og aukin lofthæð.
Sjá nánar á fasteignavef mbl.is: Geirsgata 17