Ríkissjóður Íslands auglýsti einbýlishús við Bárugötu 3 til sölu á dögunum. Um er að ræða 185 fm einbýli sem reist var 1934. Húsið hefur ekki verið notað sem einbýlishús heldur sem skrifstofu- og rannsóknarhúsnæði.
Þegar húsið var auglýst til sölu var ásett verð 159.500.000 kr. Það þykir ekki sérlega hátt verð miðað við einbýlishús á þessum stað. Hinsvegar kom það fram að húsið yrði selt í því ástandi sem það væri og ljóst að það þyrfti á viðhaldi að halda.
Húsið stendur á eignarlóð. Austan megin við húsið er bílstæði sem hægt er að nýta sem stæði fyrir tvo bíla. Í kringum húsið er gróinn garður sem státar af æðisgengnu gullregni en í fasteignaauglýsingu á mbl.is kemur fram að um fallegasta gullregn á Íslandi sé að ræða.
Nú hefur húsið verið selt. Kaupendur eru Einar Björgvin Sigurbergsson og Angeline Nelima Stuma. Þau greiddu 153.000.000 kr. fyrir húsið og var sérstaklega tekið fram í kaupsamningi að eignin væri seld í því ástandi sem hún væri.