Bogadreginn tangi kom í staðinn fyrir eyju

Hildur Ísdal Þorgeirsdóttir arkitekt er flutt heim til Íslands eftir að hafa stundað nám og vinnu erlendis. Eitt af hennar fyrstu verkefnum eftir að hún flutti heim var að endurhanna eldhús fyrir fólk sem vildi sameina praktík og klassíska hönnun. Bogadreginn tangi lyftir hönnuninni upp í hæstu hæðir. 

Ferill Hildar sem arkitekt hófst árið 2000 þegar hún fór til Mílanó á Ítalíu til að læra innanhússarkitektúr. Eftir að námi lauk árið 2002 kom hún aftur heim og fór að vinna við fagið. Þá kallaði það á hana að mennta sig meira í faginu því hún vildi vinna með byggingar í heild sinni.

„Leiðin lá þá lóðbeint í LHÍ þar sem ég kláraði BA-gráðu í arkitektúr. Svo ég fór með eiginmanni og tveimur litlum börnum til Stokkhólms til að klára námið við Kungliga Tekniska Högskolan. Ég útskrifaðist þaðan sem arkitekt árið 2014. Eftir það vann ég að mestum hluta hjá stórri arkitektastofu sem heitir Arkitema. Þessi ferð sem átti að vera 3-4 ár varð að 11 árum á endanum! Nú er ég flutt aftur heim til Íslands, kláraði próf sem löggiltur mannvirkjahönnuður í fyrra og er í dag með eigin starfsemi; Ísdal arkitektúr & innanhússhönnun, www.isdal.is. Ég hanna hús að innan og utan enda elska ég að tengja saman heildarmyndina og horfa á allt frá þakkanti niður að samskeytum í borðplötu. Það þarf líka oft byggingarleyfi áður en farið er í framkvæmdir svo mér finnst frábært að geta græjað heildarpakkann ef kúnninn vill fara í innréttingar líka,“ segir Hildur.

Eldhúsið er langt og mjótt og til þess að gera …
Eldhúsið er langt og mjótt og til þess að gera meira úr því setti Hildur bogadreginn tanga við enda innréttingarinnar sem gerir það að verkum að fimm manneskjur geta setið við tangann. Ljósmyndir/Thelma Harðardóttir

Eitt af fyrstu verkefnum Hildar eftir að hún flutti heim og fór að vinna sjálfstætt var að hanna eldhús í fallegu húsi.

„Þetta eldhús var eitt af mínum fyrstu verkefnum eftir að byrja að vinna sjálfstætt og það hefur fengið mjög jákvæða athygli. Eldhús geta verið langt ferli frá hugmynd að raunveruleika, þó að verkefnið sé ekki stórt miðað við önnur þá er verið að henda boltum og fyrirspurnum á milli ólíkra aðila, sem tekur tíma. Svo þarf oftast að bíða eftir efni að utan og þegar unnið er með stein þá er ferlið yfirleitt aukalega 4 vikur eftir að innrétting er tilbúin og ég er mjög ánægð með lokaútkomuna.“

Hátt er til lofts í eldhúsinu og er útgengt úr …
Hátt er til lofts í eldhúsinu og er útgengt úr því út í garð. Hildur blandaði eik við sprautulakkaða áferð í innréttingunum. Ljósmyndir/Thelma Harðardóttir

Boginn gefur meiri mýkt

Hvaða óskir voru húsráðendur með?

„Þau lögðu áherslu á praktík og tímaleysi en við fórum fyrst í að skoða hvernig form og uppröðun á eldhúsi myndi passa. Rýmið er ílangt og þau langaði ekki í beina innréttingu sitt á hvorum veggnum, helst eyju. Þar sem það var ekki hægt í þessu tilfelli lengdi ég innréttinguna fram yfir gólfsíðan gluggann eins og sést á myndum og gerði tanga. Hann virkar ekki bara sem vinnuborð heldur líka matarborð fyrir fimm manna fjölskyldu. Það er hægt að sitja báðum megin við tangann við öll tækifæri. Húsið sjálft er mjög nútímalegt og glæsilegt. Boginn í tanganum, ásamt mildum litatónum, gefur meiri mýkt inn í húsið en heldur samt þeim klassa sem þegar er,“ segir Hildur.

Bogadregni tanginn er skemmtilegur. Hver er pælingin á bak við hann? Fannst þér vanta mýkri línur?

Marmarinn setur tóninn í eldhúsinu og fer vel við innréttingar …
Marmarinn setur tóninn í eldhúsinu og fer vel við innréttingar og veggi. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

„Já, mér fannst vanta mýkt. Ég hef verið svo ánægð með að undanfarin ár sé boginn aftur orðinn vinsæll bæði í arkitektúr og innanhússhönnun. Ég held að það sé andsvar við öllum beinu línunum sem hafa verið gegnumgangandi síðustu 20 ár. Það er ákveðin mýkt og rómantík í þessum formum og átti vel við í þessu verkefni,“ segir hún.

Hildur segir að fólk sækist mjög mikið eftir því að …
Hildur segir að fólk sækist mjög mikið eftir því að hafa tækjaskápa á heimilum sínum en í þessu eldhúsi er einmitt einn slíkur. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

Marmarinn setur líka mikinn svip á eldhúsið. Getur þú sagt mér meira frá honum?

„Tegundin er Fiori di Boscho og kemur frá Ítalíu í gegnum Fígaró náttúrustein og þau græjuðu þetta af mikilli list. Ég er sérstaklega ánægð með led-lýsinguna sem er byggð inn í steininn og lýsir hann upp svo að hann fái að njóta sín sem best.“

Marmarinn flæðir upp á veggi inni í kaffihorninu sem prýðir …
Marmarinn flæðir upp á veggi inni í kaffihorninu sem prýðir eldhúsið. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

Hvaða litur er á innréttingunni og hvar var hún smíðuð?

„Þetta er efni sem heitir Kashmir Grey frá Innval, en sérsmíðuð af IK innréttingum. Höldurnar eru framleiddar í sama lit svo það var borðleggjandi að hafa þær með.“

Marmarinn í eldhúsinu er einstaklega fallegur.
Marmarinn í eldhúsinu er einstaklega fallegur. Ljósmynd/Thelma Harðardóttir

Er hún í sama lit og veggirnir?

„Liturinn á veggnum í eldhúsinu er 1/4 „Truffla“ frá Slippfélaginu. Þegar prufan var sett á vegginn þá steinlá litavalið. Svo var sett 100% „Truffla“ á önnur rými svo að heildarlitaval tengist.“

Hvað vildir þú kalla fram?

„Mér fannst mikilvægt að steinninn yrði aðalatriðið og að húsráðendur myndu elska eldhúsið sitt á hverjum degi. Þess vegna eru ekki eins afgerandi litir í eldhúsinu, en svolítið af eik til að fá fram hlýju á móts við steininn.“

Hvað um lýsinguna? Hvaðan eru ljósin?

„Ljósin koma frá PFAFF og það að hafa hringlaga ljós yfir eyjunni leggur meiri áherslu á bogann.“

En stólarnir?

„Stólarnir eru úr Húsgagnahöllinni og voru valdir af eigendum en ég lagði áherslu á að þeir yrðu með þægilegu baki. Þá er hægt að sitja notalega tímunum saman þrátt fyrir að vera hærri stólar.“

Hvað ertu ánægðust með varðandi þetta verkefni?

„Að aðilarnir sem smíðuðu gerðu það af mikilli vandvirkni og í góðum samskiptum við mig. Kúnninn fékk óskir sínar uppfylltar og allt gekk vel fyrir sig.“

Hvernig finnst þér heimili fólks vera að þróast?

„Heimili eru að breytast þar sem fólk er farið að búa þrengra en það gerði. Fólk vill vera nálægt þjónustu og ekki hafa áhyggjur af viðhaldi á stórum fasteignum. Borga jafnvel meira fyrir færri fermetra til að uppfylla það og vera frjálsara. Með réttu skipulagi er hægt að koma sér vel fyrir í minni rýmum. Það eru margir lífsstílshópar á netinu og sérfræðingar að sýna og koma á framfæri sniðugum lausnum við þannig innréttingar. Þetta var ekki til fyrir um 10 árum en er í dag algjört trend sbr. tiny-homes og compact-living. Það er kominn smá áhugi aftur á að loka eldhúsið örlítið af eða geta lokað með renni/fellihurð yfir vask og eldavél svo að eldhúsið minni meira á borðstofu en eldhús, sérstaklega í minni íbúðum.“

Oft er sagt að allir vilji það sama, hver er þín skoðun á því?

„Í dag vilja nánast allir hafa opin eldhús og stofu í sama rými en það er búið að vera þannig í nánast tvo áratugi og út um allan heim. Þá breytast innréttingar með og fólk vill geta lokað af óreiðu sem á það til að myndast í eldhúsi. Þess vegna hafa tækjaskápar verið svona vinsælir og þar er svarið já, allir vilja tækjaskáp! Það ganga trend í eldhúsum eins og í annarri hönnun og þá tók ég sérstaklega eftir svörtum eldhúsinnréttingum þegar ég flutti heim. En Íslendingar eru öðruvísi en aðrar Norðurlandaþjóðir þarna og eru dekkri í lita- og efnisvali, kveikja á kertum og hafa það notalegt í myrkrinu,“ segir Hildur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda