Björn og Dísa skáluðu í nýja húsinu

Samsett mynd

Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir voru upp á sitt besta þegar þau skáluðu í freyðandi víni í glæsilegu húsi sem státar af útsýni út á sjó. Myndin gefur til kynna að þau séu loksins að flytja inn í skrauthýsið sem þau hafa verið að byggja síðan 2016.

Húsið er engin smásmíði, á tveimur hæðum, og 660 fm að stærð. Húsið státar af risastórum gluggum með framúrskarandi útsýni. Björn lét hafa eftir sér í fjölmiðlum þegar lóðin var keypt að honum lægi ekkert á og þau hjónin myndu taka sér þann tíma sem þau þyrftu til að reisa húsið.

Festu kaup á lóðinni fyrir níu árum

Hjónin, sem oftast eru kennd við líkamsræktarstöðina World Class, festu kaup á lóð við Haukanes 22 þann 22. janúar 2016. Þá var það félagið Laugar ehf., sem er í eigu hjónanna, sem var skráð fyrir kaupunum en 28. desember 2020 afsalaði félagið Laugar ehf. fasteigninni til félagsins Í toppformi ehf. sem er líka í eigu hjónanna. Félagið Í toppformi ehf. er nú skráð fyrir húsinu. 

Óhætt er að segja að vandað hafi verið til verka þegar húsið var reist því það hefur bókstaflega verið byggt á hraða snigilsins. Sem er örugglega eina leiðin til að byggja ríkulega á hjara veraldar þar sem mikið fer fyrir vatni og vindum. 

Í febrúar 2024 samþykkti bæjarráð Garðabæjar að félagið Í toppformi ehf. hefði heimild til að byggja vegg á lóðarmörkum Haukaness 24 og Haukaness 22. 

Húsið við Haukanes 24 hefur verið í fréttum en það var auglýst til sölu 2023. Það er í eigu Antons Þórarinssonar athafnamanns sem býr enn þá í húsinu enda er það óselt. 

Eftirsótt hverfi

Við Haukanes í Arnarnesi er að finna afar falleg einbýlishús og hafa hinir efnameiri sótt það stíft að flytja í hverfið.

Þetta Beverly Hills Íslands er eftirsótt enda þykir fátt fínna en að búa í hverfinu.

Það er því ekkert skrýtið að Björn og Dísa séu spennt fyrir nýja húsinu en þau hafa búið lengi í Fossvogi, sem þykir líka fínt, en það jafnast samt fátt á við óhindrað sjávarútsýni og allt það sem Haukanesið státar af. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda