Íslendingar leggja mikið upp úr því að hafa fallegt í kringum sig. Líklega er það vegna þess að landsmenn verja meiri tíma inni hjá sér af fjölmörgum ástæðum. Stærsta ástæða þess er líklega veðurfarið á Íslandi sem allir vilja kannast við nema talsmenn borgarlínunnar – en það er önnur saga. Fólk vill eiga gott skjól fyrir veðri og vindum og þá má helst ekkert trufla fegurðarskynið.
Eitt besta ráðið ef fólk vill hafa notalegt heima hjá sér, án þess að eyða of miklum peningum, er að kunna að mála veggi. Með því að mála veggi og loft í litatónum sem fara vel við gólf og aðra innanstokksmuni er hægt að breyta nánast hvaða hundakofa sem er í Versali. Ekki er verra ef fólk kann að lakka því þá er hægt að breyta áferð og stemningu með réttum pensilstrokum, svokölluðum Bessastaðastrokum en þær eru langar og fallegar, mynda óflekkað yfirborð og auka yfirleitt fegurð þess hlutar sem lakkaður er.
Síðustu tvo áratugina hafa heimili fólks breyst mikið, ekki bara á Íslandi heldur um heim allan, eða þegar opin eldhús urðu móðins. Síðan þá er ekkert lát á vinsældum þeirra. Það er þó alltaf einn og einn sem vill steikja kjötbollur í litlu, þröngu rými, en sá hópur er ekki mjög fyrirferðarmikill.
Þótt draumurinn um opin eldhús hafi sprottið fram fyrir um 20 árum er sá tískustraumur alls ekki liðinn undir lok. En eldhúsin hafa breyst. Eftir að eldhúsið fór að vera opið kallaði hönnun þess á annars konar innréttingar og þá kom tækjaskápurinn reykspólandi fram á sjónarsviðið. Sannir sælkerakokkar vilja eiga hluti sem töfra fram betra bragð en eru ekki endilega stofustáss. Þess vegna þarf mannskapurinn að eiga tækjaskáp til að geta lokað öll dýru eldhústækin inni svo þau valdi ekki sjónmengun.
Þegar fólk festir kaup á húsnæði er það oft eldhúsið sem fólk þráir að breyta. Vinafólk mitt var í þessum sporum fyrir nokkrum árum. Þau þurftu ekki að skipta um eldhús því húsið sem þau höfðu nýlega fest kaup á var tilbúið til innréttinga. Það þurfti því að kaupa allt inn í húsið. Þegar þau voru búin að fara í allar helstu innréttingaverslanir á höfuðborgarsvæðinu höfðu þau samband við mig og óskuðu eftir aðstoð því þeim blöskraði hvað allt kostaði mikla peninga. Mín fyrsta spurning var: Eruð þið búin að fara í Ikea? Nei, þau höfðu ekki gert það því þau héldu að það væri ekki nógu fínt.
Næsta dag vorum við þrjú mætt í Garðabæinn, ég og hjónin, og eftir að hafa skoðað fronta, reiknað út innréttingamagn og teiknað upp það helsta áttuðu þau sig á því að þetta væri það eina gáfulega í stöðunni. Þegar búið var að ákveða innréttingar völdu þau marmara til að setja á innréttinguna. Svo völdum við liti á veggina, keypt voru gluggatjöld í stíl og þegar búið var að raða upp húsgögnum og festa listaverkin upp á veggina var heimilið snoturt.
Mér skilst að við þennan gjörning hafi sparast 6.000.000 kr., sem framkallaði gleði og ánægju húsráðenda og auðvitað líka hjá heimilisstílistanum þeirra!