Sæbjörg Guðjónsdóttir innanhússarkitekt, eða Sæja eins og hún er kölluð, hannaði íbúð fyrir fólk á besta aldri sem var að minnka við sig. Hún er lipur í að búa til griðastað fyrir þá sem
vilja lifa sínu besta lífi. Innlit á þetta fallega heimili sannar það.
Íbúðin sem Sæja hannaði er 140 fm að stærð og státar af einstöku útsýni út á sjó.
„Þetta er svokölluð penthouse-íbúð sem er um 140 fm að stærð með æðislegu útsýni yfir sjóinn. Ég hef unnið mikið fyrir þessa fjölskyldu og því var samstarfið afskaplega gott og þau treystu mér fullkomlega til að gera íbúðina glæsilega en jafnframt notalega. Farið var í allsherjar breytingar; skipulag, innréttingar, efnisval, lýsing og þar fram eftir götunum. Fyrir var skemmtilegur bogaveggur í anddyri sem skilur að hjónasvítu og anddyri sem bæði ég og húsráðendur vorum hrifin af. Því var hann nánast það eina sem stóð eftir en öðru var breytt. Einu óskir frá húsráðendum voru að hægt væri að loka af öll tæki og slíkt í eldhúsi og fela með skápum eða „pocket“- hurðum og að fá baðkar í hjónasvítu,“ segir Sæja.
Hátt er til lofts í íbúðinni og eftir að Sæja fór mjúkum höndum um híbýlin má þar sjá ríkulegt magn af marmara, reyklituðum speglum og fallega máluðum veggjum. Sumir þeirra eru með sparslaðri áferð sem gefur heimilinu meiri karakter.
„Ég ákvað að nota reykta eik sem grunn. Innréttingar í anddyri og eldhúsi tengjast og flæða á milli rýma. Þar ákvað ég að setja spónlagða lista í ákveðnu mynstri framan á fronta sem kom skemmtilega út en aðrar innréttingar voru spónlagðar hefðbundið með sömu reyktu eikinni. Allar innréttingar voru sérsmíðaðar af Formus. Ég lék mér svo með camouflage-marmara frá Granítsmiðjunni og notaði svart stál og reyklitaða spegla inn á milli sem uppbrot. Hluti veggja var svo sparslaður með áferðarsparsli á móti litnum Bómull frá Slippfélaginu og litnum Leir inni í hjónasvítu. Í stofu var loftið tekið niður en skuggi meðfram útveggjum og þar á milli setti ég Acupanel-viðarplötur sem komu skemmtilega út. Á böðum lék ég mér áfram með sparslið á veggjum í bland við flísar og inn á milli er svo onyx-steinn frá Granítsmiðjunni á veggjum og borðplötu,“ segir Sæja.
Gólfefni skipta miklu máli í heildarmynd hvers heimilis og er Sæja meðvituð um það.
„Á gólfum í alrými eru stórar flísar frá Ebson en á efri palli í sjónvarpsrými og í hjónasvítu er reykt eikarparket frá Mood interiors.“
Valdir þú húsgögn inn á heimilið?
„Þar sem eigendur voru að flytja úr stóru húsi og minnka við sig var ákveðið að fá alveg ný húsgögn í flest rými. Þau áttu fyrir borðstofustólana og rúm. Annað valdi ég. Útgangspunkturinn er þetta fallega borðstofuborð sem er mín hönnun og fæst hjá Formus. Borðplatan sjálf er hálfgert „oval“-borð en samt ólöguleg og undir eru messing-fætur sem búið er að sverta. Það er allt handgert svo eru engin borð eins. Borðið kemur ótrúlega skemmtilega út þar sem það er sett á ská í rýmið. Bæði borðstofuljósið og hangandi ljósin yfir sófa eru frá Vest ásamt sófaborðunum og hægindastólunum tveimur. Sófinn er svo frá Módern. Við hjónarúmið er að finna uppáhaldsljósaframleiðandann minn, Apparatus, sem Lúmex pantaði fyrir okkur. En þeir voru okkur innan handar við alla grunnlýsingu.“
Sæja leggur mikið upp úr því sjálf að búa vel. Nú stendur hún í stórræðum því húsbygging er í vinnslu.
„Það sem ber hæst er kannski það að við fjölskyldan erum að fara að byggja hús. Þar kemur bersýnilega í ljós að ég sjálf er klárlega minn erfiðasti kúnni,“ segir hún og hlær.
Hvað um heimilistrend og fleira. Hvað er fólk að sækja í þessa dagana?
„Það er bara allavegana, en ég reyni þó yfirleitt að halda mig við klassíkina þegar kemur að stórum innréttingum og efnisvali, enda dýrt að breyta því. Ég er yfirleitt hrifnari af við í innréttingum en það fer þó alltaf eftir umhverfi og húsnæði. Hvaða lit viður er svo bæsaður með er svo bara það sem hentar eða fólk biður um. Þessi mjög dökki, nánast svartur eða alveg svartur, er að minnka en þetta snýst meira um kúnnann, hvað hann vill þó ég reyni auðvitað að leiðbeina þeim. Það sem skiptir máli er „balance“, ljóst á móti dökku, mýkri línur á móti köntuðu, gróf áklæði á móti fínni o.s.frv. Þannig nærðu sem bestri útkomu. Ekki fylgja tískunni of mikið þó svo hún hafi alltaf einhver áhrif, best að fylgja því sem þú veist að þér líður vel að vera í kringum.“
Ertu með eitthvert trikk uppi í erminni ef fólk vill gera heimilið sitt hlýlegra en á kannski ekki mjög mikla peninga?
„Ódýrasta ráðið er að taka til og endurraða, það gerir alveg ótrúlega mikið. Sumt má fara inn í geymslu til hvíldar, það þarf ekki alltaf að vera með allt uppi við. Til að fá sem mestu áhrifin fyrir sem minnstan pening er auðvitað best að mála, þá er oftast betra að fara í milli- eða dekkri tóna. Nýir púðar, lampar og kertaljós skapa stemningu og ef þig vantar eitthvað á veggina þá getur komið ótrúlega vel út að ramma inn myndir með stóru kartoni í kring, það geta verið falleg plaköt, myndir eftir börnin eða eigin ljósmyndir.“