Helga Sigurbjarnardóttir innanhússarkitekt fékk það verkefni að endurhanna raðhús í Fossvogi sem var nánast upprunalegt. Allt var endurnýjað og veggir rifnir niður til að búa til hlýlega umgjörð utan um fjölskylduna.
„Ég fékk það skemmtilega verkefni að endurhanna raðhús í Fossvoginum þar sem eigendur ákváðu að taka húsið allt í gegn eftir að hafa búið þar um tíma enda nánast allt upprunalegt þegar þau fluttu inn. Við settumst því niður og fórum yfir þær breytingar sem óskað var eftir, svo sem mögulegt efnis- og litaval, hvort einhverjar séróskir væru varðandi eldhúsið og baðherbergi og fleira sem gott er að hafa í huga áður en hönnunar- og teiknivinnan hefst. Því næst var svo bara að bretta upp ermar og byrja,“ segir Helga.
Hvað vildu húsráðendur kalla fram?
„Hlýleika og notalegheit, gott flæði, fallega lýsingu og góða hljóðvist. Þau vildu færa til og stækka baðherbergið á neðri hæðinni og fórna einu herbergi fyrir betra aðgengi út í garð.“
Hverju var nákvæmlega breytt?
„Öllu var breytt, allar innréttingar teknar, gólfefni tekin, loftið tekið, nýtt stigahandrið og skipulagi bæði í eldhúsi og á neðri hæð var breytt. Arinninn fékk að halda sér að mestu, var reyndar málaður enda fallega hlaðinn múrsteinsarinn og engin ástæða til að breyta honum. Húsið var því nánast gert fokhelt.“
Var eldhúsið fært til eða var það á þessum stað?
„Veggur var tekinn niður sem skildi að eldhús og borðstofu en staðsetningu eldhúss var ekki breytt. Miklar breytingar voru hins vegar gerðar á skipulagi á innréttingum, vaskur færður og þar sem veggurinn á milli rýma var farinn var komið pláss fyrir stóra og góða eyju með helluborði en það var ein af óskum húsráðanda. Með þessari breytingu bjuggum við til opið og skemmtilegt rými sem tekur fallega á móti þér þegar komið er inn í húsið. Þrátt fyrir mikla lofthæð að hluta í eldhúsinu ákvað ég að nýta það sem best og lét því allar innréttingar ná upp í loft. Í efstu skápunum er því tilvalið að geyma eitthvað sem notað er sjaldan og svo er ásýndin úr stofunni niður í eldhúsið mun fallegri þegar skáparnir ná upp í loft, þá er ekki verið að horfa ofan á þá.“
Var skipt um loft í húsinu og eru þau úr sama efnivið og innréttingarnar í eldhúsinu?
„Nýtt loft með hljóðdempandi plötum með viðarrimlum var sett á alla efri hæðina og er í hnotu eins og allar innréttingar í húsinu. Mér fannst þetta passa vel við húsið og vera í takt við tíðarandann sem var þegar húsið var byggt. Það er mikið um það að fólk sé að taka niður veggi í þessum raðhúsum til að fá stærri og opnari rými en oft gleymist að huga að hljóðvistinni sem skiptir mjög miklu máli og fannst mér það því mikið atriðið að hafa hana í lagi. Einnig hannaði ég nýja lýsingu í allt nýja loftið en hún er að mestu innfelld í viðarrimlana.“
Hvaða steinn er í borðplötunni og upp á vegg inni í eldhúsinu?
„Borðplatan er Grey Carrara-marmari frá Fígaró og er bæði á eldhúsinu og baðherberginu. Mér fannst fallegt að gera þykkingu á marmaranum á eyjunni þar sem hún er svona hálfgert „centerpiece“ í rýminu, gefur eyjunni svona smá auka glæsileika. Þar sem engir efri skápar eru fyrir ofan innréttinguna ákvað ég að taka marmarann upp á vegginn og gera grunna hillu úr sama efni sem nær frá útvegg að innréttingu. Þar er hægt að hafa minni hluti eins og falleg skurðarbretti og fleira.“
Hvaða ár var húsið byggt? Leitaðist þú við að hafa þína hönnun í takt við hönnun þess tíma?
„Húsið var byggt 1970 og hafði ég það bak við eyrað varðandi efnisval og útlit. Dökkur viður var mikið í þessum húsum á sínum tíma og fannst mér því hnotan henta sérstaklega vel í þetta verkefni. Höldur frá þessum tíma finnst mér almennt ekkert sérstaklega fallegar og ákvað því að hafa gripin og höldurnar úr hnotu og eru þær partur af framhliðinni. Stigahandriðið vildi ég líka að væri í takt við þennan tíma og valdi strúktúrlakkað stál en nútímavæddi það örlítið með því að hafa það frekar fíngert og svo passar teppið mjög vel inn í þetta allt saman.“
Hvað um gólfefnið í húsinu, hvað getur þú sagt mér um það?
„Eikarparket er á flestum gólfum í alrými, mjúkt og gott teppi á stigunum og flísar á baðherbergi. Eikarparketið er frekar breiðir plankar og mattlakkaðir með örlítilli hvíttun til að halda sem best í ljósa litinn á því en mér finnst mjög fallegt að vera með ljóst gólfefni á móti dökkri hnotunni sem er í innréttingum og lofti.“
Baðherbergið er í takt við eldhúsið. Hvað vildir þú kalla fram þar?
„Innréttingin á baðherberginu er einnig hnota sem mér fannst koma mjög fallega út með grábrúnu marmaraflísunum sem eru á gólfi og veggjum. Það er því tenging á milli borðplötunnar og flísanna. Ég vildi búa til notalega stemningu á baðherberginu sem er frekar stórt þar sem tvö herbergi voru sameinuð í eitt og því tilvalið að halda sig við hlýleikann í hnotunni. Ég ákvað að nota sömu ljós yfir innréttingunni á baðherberginu og eru yfir innréttingunni í eldhúsinu. Þetta eru ljós frá danska framleiðandanum Le Klint og heita Carronade en mér fannst þau smellpassa þarna inn þar sem þau eru blanda af svörtu stáli og hnotu og svo er frábært að geta snúið skerminum og beint honum í þátt átt sem þú vilt fá ljósið.“
Hvað er að frétta af þér sjálfri? Hvernig lætur þú drauma fólks rætast í vinnunni?
„Af mér er allt gott að frétta, flakka reglulega á milli Reykjavíkur og Vilníus, nóg að gera og fjölbreytt og skemmtileg verkefni á teikniborðinu. Öll mín verkefni eru enn sem komið er eingöngu á Íslandi fyrir utan mína eigin íbúð í Vilníus en við hjónin keyptu litla íbúð í nýbyggingu í gamla bænum svo þar fékk ég tækifæri til að hanna allt nákvæmlega eins og ég vildi hafa það. Það er búið að vera nóg að gera hjá mér á Íslandi svo ég hef svo sem ekkert verið að sækjast eftir verkefnum þarna úti, en hver veit?
Með góðri samvinnu og góðum hugmyndum er oft hægt að láta drauma fólks rætast og fátt er skemmtilegra en að ganga frá vel heppnuðu verki þar sem allir eru ánægðir.“