Við Skildinganes 23 í Skerjafirði er að finna einstaklega fallegt Sigvalda-hús á tveimur hæðum. Húsið hefur að geyma einstakt útsýni út á sjó og til fjalla. Húsið var auglýst til sölu vorið 2021 og var selt ári síðar á miklu undirverði eða á 152 milljónir. Húsið þarfnaðist mikillar ástar og því var gefinn afsláttur af því. Nú er húsið hins vegar búið að fá nóg af ást og umhyggju og komið á sölu aftur.
Um er að ræða 326,9 fm einbýli sem teiknað var af hinum landsþekkta arkitekt, Sigvalda Thordarsyni. Verk hans hafa notið mikilla vinsælda en hann notaði ákveðna liti í hönnun sína sem eru einkennandi fyrir hans verk.
Nú hefur húsið verið endurnýjað svo um munar. Búið er að endurnýja allar skólplagnir og var nýr brunnur settur upp. Allar neysluvatnslagnir voru endurnýjaðar. Gólfhiti var settur í alla efri hæðina og á baðherbergi og stúdíóíbúð á neðri hæðinni. Nýtt gler var sett í glugga á efri hæðinni og ný gólfefni sett á húsið.
Ný eldhúsinnrétting var sett í eldhúsið, svört að lit og baðherbergi endurnýjuð svo eitthvað sé nefnt. Eins og sjá má á myndunum er munurinn ríkulegur.
Í húsinu eru upprunalegar tekk-hillur sem eru sérlegt stofustáss svo ekki sé minnst á arininn í húsinu. Hann er mjög fallega hannaður.